Ársfundur Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Ræða Kristjáns L. Möller samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á ársfundi Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra á Blönduósi 27. ágúst.
Ræða Kristjáns L. Möller samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á ársfundi Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra á Blönduósi 27. ágúst.
Góðir fundarmenn.
Ég vil byrja á því að óska ykkur, kæru fulltrúar sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, til hamingju með kjör til sveitarstjórna í vor.
Ykkar bíða trúlega mörg vandasöm verk í þágu samborgaranna og það er mikil áskorun og ábyrgð sem fylgir því að starfa í sveitarstjórn. Ég var sjálfur í sveitarstjórnarmálum í allmörg ár fyrir minn heimabæ, Siglufjörð, og ég held að sveitarstjórnarmenn geri sér almennt ljósa þá ábyrgð sem felst í því að leiða sveit og samfélag áfram veginn. Verkefnið snýst um að fara vel með ábyrgðina sem okkur er falin með lýðræðislegu umboði frá kjósendum, það snýst um styrka fjármálastjórn og það snýst um að rækja vel þjónustu við íbúa og að láta sér annt um velferð þeirra í hvívetna.
Ég hef líka stundum sagt bæði í gamni og alvöru að þetta er nokkuð dýrt hobbý og ég er viss um að þið getið mörg tekið undir það. En ég sé ekki eftir þeim tíma sem ég varði í störf fyrir sveitarstjórn, það hefur veitt mér margs konar reynslu og margvísleg vinátta hefur skapast í gegnum samskipti og samvinnu sem ég bý enn að í dag á öðrum vettvangi.
Ég hygg að það sé ennþá erfiðara að vera sveitarstjórnarmaður á þessum tímum aðhalds og sparnaðar sem við öll þurfum að horfast í augu við því það á bæði við landsmálin og sveitarstjórnarmálin.
Efnahagsástandið
Efnahagsástandið er áfram þannig að aðhald, hagræðing og sparnaður eru lykilorðin og Alþingi tekst á við það með fjárlögum ríkisins rétt eins og þið gerið með ykkar ábyrgu fjármálastjórn heima í héraði.
Ég get ekki farið nánar út í hvaða horfur eru varðandi fjárlög næsta árs því nú stendur yfir lokasprettur í undirbúningi þeirra. Við vitum þó að fyrirséður er 9% niðurskurður í mörgum málaflokkum, meðal annars samgöngum, en við vonum að botninum sé náð og að þetta verði síðasta þunga fjárlagafrumvarpið. Væntingarvísitalan er farin að rísa og vonir standa til þess að ríkissjóður nái jafnvægi 2013 og jafnvel fyrr.
Glæra um áætlun í ríkisfjármálum
Við sjáum ýmis teikn um batnandi efnahag og myndin sýnir að við erum að ná árangri fyrr en við þorðum að vona. Atvinnuleysið fer minnkandi, verðbólgan hjaðnar og vextir hafa lækkað. Við erum á réttri leið en við megum ekki misstíga okkur og verðum að vinna samkvæmt þeirri áætlun sem mörkuð hefur verið.
Vegna hins bágborna efnahagsástands hefur þurft að forgangsraða stíft hjá ríkinu og þar eru samgöngumál ekki undanskilin. Allir landshlutar finna fyrir því að við höfum talsvert minni fjármunum úr að spila til nýframkvæmda og við höfum einnig orðið að draga úr þjónustu og það finna menn líka.
Samgöngumálin
Við höfum þó ekki setið auðum höndum og ég vil minna á að í ár lýkur mjög svo mörgum og umfangsmiklum framkvæmdum eins og Bolungarvíkurgöngum, Héðinsfjarðargöngum, Landeyjahöfn, nýjum vegum um Melrakkasléttu og nýjum Lyngdalsheiðarvegi. Einnig kláruðust á liðnu hausti framkvæmdirnar í Ísafjarðardjúpi með brú yfir Mjóafjörð, nýjan veg um Arnkötludal og alllanga kafla á sunnanverðum Vestfjörðum sem nú er unnið að. Ég nefni sérstlega varðandi Djúpveginn að leiðin styttist um 70 km milli höfuðborgarsvæðisins og Bolungarvíkur og komið varanlegt slitlag alla leið. Það hafði meðal annars í för með sér lækkun á flutningsgjöldum.
Öllu þessu var haldið áfram þrátt fyrir erfiða tíma og vitanlega kom ekki annað til greina en að halda áfram og ljúka þessum miklu verkefnum.
Glæra um nokkur samgönguverkefni
Nú þegar umsvif í vegaframkvæmdum hafa minnkað vegna niðurskurðar vil ég einnig minna á að árin 2008 og 2009 voru metár hvað framlög til vegamála varðar þrátt fyrir niðurskurð þáverandi ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Árið 2008 runnu um 25 milljarðar króna til framkvæmda og árið 2009 tæplega 21 milljarður eftir 6 milljarða niðurskurð frá því sem áætlað hafði verið.
Til viðbótar þessum niðurskurði hefur flutningur á framkvæmdafé milli ára verið takmarkaður. Verk sem hafa verið á áætlun eitt árið hafa stundum ekki komist í gang og þá hefur fjárveiting til þeirra flust á milli ára. Dregið hefur verið úr þessum heimildum auk þess sem verðbólgan undanfarin misseri hefur aukið kostnaðinn um allt að 70%. Þetta hefur því allt lagst á eitt með að skerða framkvæmdafé Vegagerðarinnar. Í ár eru framlög til nýframkvæmda tæpir 12 milljarðar en á næstu tveimur árum verðum við enn að þola niðurskurð og þá verður framlag til nýframkvæmda líklega ekki nema 6-7 milljarðar króna hvort ár.
Ef litið er tvo áratugi aftur í tímann og fjármagn hvers árs fært til verðlags dagsins í dag þá kemur í ljós að til nýframkvæmda hefur framlag vaxið úr 6 milljörðum króna í 27 milljarða og gerir það að meðaltali um 10 milljarða á ári.
En kæru sveitarstjórnarmenn, við höfum þó ekki gleymt okkur alveg í niðurskurði og aðhaldi – við höfum líka lagt okkur fram um að finna nýjar leiðir og nýta tækifæri sem þessar kringumstæður þó geta fært okkur og þar á ég einkum við fjármögnun samgönguverkefna.
Alþingi hefur heimilað stofnun félaga um ákveðnar vegaframkvæmdir sem fjármagnaðar verða með láni frá lífeyrissjóðunum. Ráðuneyti mitt vinnur nú af miklum krafti að því að undirbúa samning við sjóðina og stofnun þessara félaga. Þessi lán verða síðan greidd með notendagjöldum á þá sem nýta viðkomandi mannvirki.
Glæra um nýframkvæmdir í vegagerð
Verkefnin sem eru á samningaborði undir þessum formerkjum eru breikkun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar, lokahnykkur við breikkun Reykjanesbrautar, Vaðlaheiðargöng, samgöngumiðstöð í Reykjavík og stækkun flugstöðvar á Akureyrarflugvelli.
Glæra um nýframkvæmdir – greiddar með veggjöldum
Heildarkostnaður við þessi verkefni er 35 til 40 milljarðar króna og það verður mikil lyftistöng fyrir íslenskt atvinnulíf þegar þessi verkefni komast af stað. Atvinnuleysið er mikið í þessum greinum og vonandi verður hægt að bjóða út strax í haust fyrstu áfanga þessara verka. Verkefnin eru mjög arðbær og auka umferðaröryggi á þessum svæðum til mikilla muna.
Fjármál sveitarfélaga
Góðir fundarmenn, það er margt í deiglunni í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og mörg verkefni í vinnslu. Ég minntist áðan á ný tækifæri og einmitt á sveitastjórnarstiginu kunna einnig að vera tækifæri til endurnýjunar og nýrrar hugsunar í sambandi við rekstur og stjórnsýslu sveitarfélaga – við þurfum að huga vel að þeim möguleikum.
Margir kannast við undirritun okkar fjármálaráðherra og fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga síðast liðið haust á því sem við köllum vegvísi að gerð hagstjórnarsamnings sem var í október 2009.
Glæra hagstjórnarsamningur
Markmiðið er að ríki og sveitarfélög vinni enn betur saman að hagstjórn í landinu og er ætlunin að þróa það samstarf á grundvelli formlegs samstarfs sem við höfum kallað hagstjórnarsamning. Samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál hefur unnið að málinu undanfarna mánuði og mun á næstu dögum kynna okkur tillögur sínar. Samningurinn yrði endurnýjaður árlega og er markmiðið að greina efnahagsforsendur fyrir fjármál ríkis og sveitarfélaga sem skapar þannig grundvöll fyrir ákvörðun hagstjórnarmarkmiða fyrir hinn opinbera geira í heild sinni. Með slíkum samningi er einnig viðurkennt að hlutur sveitarfélaga í búskap hins opinbera hefur farið mjög vaxandi og enda má segja að hagsmunir ríkis og sveitarfélaga tvinnist mjög saman.
Í þessu sambandi má minna á þann mikla tilflutning sem verður í byrjun næsta árs þegar málefni fatlaðra færast frá ríki til sveitarfélaga. Kringum ellefu milljarðar króna færast frá ríki til sveitarfélaga og hlutur sveitarfélaga í opinberum rekstri hækkar úr 31% í um 36%.
Samráðsnefndinni um efnahagsmál var einnig falið það verkefni að móta tillögur um fjármálareglur fyrir sveitarfélög en slíkum reglum er einkum ætlað að tryggja markmið um að rekstrarafkoma náist og að reistar verði skorður við skuldsetningu sveitarfélaga.
Það er mjög tímabært að við komum okkur saman um slíkar reglur sem veiti sveitarfélögum uppbyggilegt aðhald og kemur í veg fyrir vandamál eins og við þekkjum dæmi um í dag.
Glæra – skuldir sveitarfélaga
Vissulega er staða sveitarfélaga afar misjöfn og það er rangt að alhæfa um stöðu sveitarfélaga hér á landi með vísan til erfiðustu tilvikanna. Engu að síður er of mörg sveitarfélög skuldsettari en eðlilegt má telja og það má sjá á þessari glæru, sem sýnir skuldsetningu sveitarfélaga (A+B) á síðasta ári sem hlutfall af heildartekjum þeirra (A). Þannig skulduðu 13 sveitarfélög meira en sem nemur 200% af tekjum sínum.
Markmiðið með fjármálareglum er að tryggja að sveitarfélög skuldsetji sig ekki meira en góðu hófi gegnir og það er verkefni samráðsnefndarinnar að komast að niðurstöðu hvaða viðmiðanir á að setja í þessum efnum.
Nefndin skoðar jafnframt hvaða viðmið teljast eðlileg varðandi rekstrarafkomu sveitarfélaga en þegar þróun mála hér á landi er skoðuð er sláandi hversu mörg sveitarfélög hafa rekið sig með viðvarandi halla undanfarin ár.
Glæra um halla sveitarfélaga síðustu 10 árin
Myndin sýnir að það er aðeins á árununum 2005 til 2007 sem sveitarfélögin í heild sinni eru rekin með jákvæðri afkomu.
Það vekur athygli mína að á tímabilinu 2002 til 2008 voru aðeins 11 sveitarfélög algerlega hallalaus en 30 sveitarfélög voru með halla á þessu tímabili í fjögur ár eða lengur.
Vissulega hefur efnahagskreppan komið hart niður á mörgum sveitarfélögum og gengisfall krónunnar og verðbólga hefur aukið mjög á vanda margra sveitarfélaga, það má ekki gleyma því. En engu að síður er niðurstaðan sú að við verðum að setja betri ramma um fjármál sveitarfélaga á Íslandi en verið hefur og vænti ég þess að við verðum búin áður en næsta fjárhagsár gengur í garð að innleiða bæði hagstjórnarsamstarf ríkis og sveitarfélaga og fjármálareglur.
Endurskoðun mikilvægra laga
Ágætu fundarmenn.
Á vegum ráðuneytisins hefur ýmis endurskoðunarvinna á málefnum sveitarfélaga farið fram eða stendur enn yfir sem ég vil nefna.
Í fyrsta lagi hefur verið starfandi nefnd sem fékk það verkefni að undirbúa heildarendurskoðun á sveitarstjórnarlögum. Trausti Fannar Valsson, lektor við HÍ, leiðir þá vinnu.
Glæra – mynd af nefndinni
Ég vænti þess að drög að nýju frumvarpi til sveitarstjórnarlaga verði send ykkur til kynningar og umsagnar fljótlega í september. Þar er farið yfir öll atriði laganna og reynt að styrkja lögin sem hina lýðræðislegu umgjörð fyrir sveitarstjórnir og allt skiplag þeirra. Nefndin tekur jafnframt þær tillögur sem samráðsnefndin hefur sett fram um fjármálareglur og hagstjórnarreglur inn í frumvarpsdrögin. Þætti mér vænt um að þið færuð vel yfir þessi drög og senduð ráðuneytinu athugasemdir ykkar og umsagnir en ég mun með hliðsjón af öllum ábendingum leggja frumvarpið fyrir Alþingi í október.
Í öðru lagi hefur verið starfandi nefnd við að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga. Gunnar Svavarsson leiðir þá vinnu en í nefndinni eiga sæti fulltrúa allir þingflokkar á Alþingi auk fulltrúa frá ráðuneytum og Sambandinu.
Eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum er vilji til að styrkja og breikka tekjustofna sveitarfélaga og er það meginverkefni nefndarinnar að fjalla um það markmið. Nefndin skilaði áfangaskýrslu í desember en formaðurinn stefnir að því að nefndin ljúki störfum í september.
Meðal þeirra álitaefna sem nefndin fjallar um er spurningin um hvort heimila eigi meiri hækkun hámarksútsvars en eins og kunnugt er hækkaði útsvar um 0,25 prósentustig árið 2009. Við verðum hins vegar að vera raunsæ hvað varðar allar breytingar á tekjustofnakerfinu. Það er alla vega ljóst að lítið svigrúm er hjá ríkissjóði til að sjá á eftir tekjustofnum. En við bíðum eftir tillögum nefndarinnar og munum að sjálfsögðu meta breytingaþörf á tekjustofnalögunum.
Í þriðja lagi vil ég nefna nýlega skýrslu starfshóps sem fékk það hlutverk að endurskoða allt regluverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Formaður hans er Flosi Eiríksson. Þetta er efnismikil og greinargóð skýrsla sem fjallar ítarlega um starfsemi sjóðsins og þarna eru settar fram mjög áhugaverðar tillögur til heildarendurskoðunar á öllu regluverki sjóðsins. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þessa skýrslu því hún er mjög gagnleg lesning.
Starfshópurinn leggur til þrjár leiðir í endurskoðun sem ganga misjafnlega langt.
Glæra um þrjár leiðir
Fyrsta leiðin er að taka til í núverandi kerfi og gera ákveðnar lagfæringar svo sem útfærslu á skólaakstri og fleira.
Önnur leiðin gengur lengra því auk tiltektar er stigið ákveðið skref til að nálgast útgjaldaþörf sveitarfélaga með öðrum hætti en áður. Helst má þar nefna að útgjaldajöfnunarframlag og tekjujöfnunarframlag eru sameinuð í eitt framlag og hin fræga hagkvæmnilína lögð niður. Þess í stað er tekin upp ný lína sem að mati starfshópsins endurspeglar betur hagkvæmni í rekstri sveitarfélaga eftir stærð þeirra.
Þriðja leiðin gengur lengst og felur í sér grundvallaruppstokkun á öllu jöfnunarkerfinu. Hún er í aðalatriðum fólgin í því að öll jöfnunarframlög sjóðsins verði sameinuð í eitt heildstætt jöfnunarkerfi og samtímis þróað nýtt og nákvæmt kerfi til að mæla mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaga. Þar er tekið mið af þjónustuþörf, stærð sveitarfélaga, legu og fleiri atriðum og það ásamt tekjum muni þá ráða því hvað kemur út úr þessum eina stóra jöfnunarpakka.
Það er skemmst frá því að segja að ég hef ákveðið að hefja þegar útfærslu á leið eitt og tvö og hefur verið ráðinn sérfræðingur til Jöfnunarsjóðsins til að vinna að því. Ég sé það fyrir mér að það sé fyrsta skref að því að innleiða þriðja skrefið, þar er sleginn sá jöfnunartónn í kerfið sem þið sveitarstjórnarmenn hafið í raun verið að kalla eftir. Það þýðir að frá árinu 2012 og 2013 verði hægt að koma á því framtíðarkerfi sem menn hafa verið að bíða eftir. Þetta getur auðvitað þýtt að ákveðin tilfærsla verður hjá einhverjum sveitarfélögin, að sum sveitarfélög fái minna en núna og önnur meira en það verður unnið í samráði við Sambandið. En ég legg enn og aftur áherslu á að í þessum efnum vil ég fá fram umræðu og hafa samvinnu.
Jöfnunarsjóður skiptir miklu máli fyrir sveitarfélögin og verkefni þeirra og auðvitað munu framlög sjóðsins til einstakra sveitarfélaga breytast eitthvað. Þessi glæra sýnir þróun sjóðsins frá árinu 1990.
Glæra um þróun sjóðsins
Við sjáum að Jöfnunarsjóður fær stöðugt ný verkefni og umfang hans eykst, og nú liggur fyrir að enn eitt nýtt verkefni bætist í safnið þegar málefni fatlaðra færast til sveitarfélaganna. Þá mun um 80% af heildarfjármagni málaflokksins renna í gegnum Jöfnunarsjóð.
Efling sveitarstjórnarstigsins
Kæru sveitarstjórnarmenn.
Öll þessi verkefni sem við erum að vinna að í góðri samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga miða að því að efla og styrkja sveitarstjórnarstigið. Það er okkar sameiginlega markmið, að styrkja sveitarstjórnarstigið með tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga, styrkingu tekjustofna, bættum samskiptum og blómlegu umhverfi fyrir hið staðbundna lýðræði. Við viljum færa valdið heim í hérað en getan til að taka við þarf að vera til staðar.
En ég hef hins vegar frá því ég tók við keflinu sem ráðherra sveitarstjórnarmála í ársbyrjun 2008, og raunar mun lengur, sagt að það sé ekki hægt að ná fullnægjandi árangri nema við stækkum líka sveitarfélögin með sameiningum.
Glæra um fjölda sveitarfélaga
Meira en helmingur sveitarfélaga á Íslandi hefur færri en eitt þúsund íbúa og það er mjög erfitt að ná markmiðum um eflingu sveitarstjórnarstigins nema við styrkjum grunngerðina. Vissulega hefur náðst ákveðinn árangur í sameiningu sveitarfélaga síðustu tvo áratugina og þessi landshluti er gott dæmi um það, t.d. Sveitarfélagið Skagafjörður þar sem fram fór stærsta sameining Íslandssögunnar og því ber að fagna.
Glæra um sveitarfélög í SSNV
En betur má ef duga skal og að þessu markmiði vil ég vinna. Fækkun sveitarfélaga og efling þeirra er eitt margra umbótatækifæra sem ég sé á sveitarstjórnarstiginu
Glæra – mynd KLM og HH
Síðastliðið haust undirrituðum við Halldór Halldórsson, formaður ykkur, yfirlýsingu um að prófa nýja leið til að ná þessu sameiginlega markmiði.
Glæra sameiningarleið
Samkomulagið fól í sér að skipuð var samstarfsnefnd sem fékk það hlutverk að ræða og meta sameiningarkosti sveitarfélaga í hverjum landshluta en hana leiðir Flosi Eiríksson. Nefndinni ber að kynna sér stöðu mála í einstökum landshlutum og viðhorf sveitarstjórnarmanna og almennings til sameiningar. Að því loknu skal hún leggja fram hugmyndir um sameiningarkosti í hverjum landshluta sem síðan skal leggja fyrir landsþing eða aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2010 til umræðu og álits. Að þessu ferli loknu er það mitt hlutverk að fara með málið fyrir Alþingi þar sem rædd verður áætlun um sameiningar sveitarfélaga til ársins 2014 sem byggist á umræðum og áliti landsþingsins.
Við eigum ekki, kæru sveitarstjórnarmenn, að hlífa okkur við umræðu af þessum toga, við vitum að það er hægt að gera betur á mörgum sviðum í opinberum rekstri og stjórnsýslu, ríkið er að gera breytingar á flestum sviðum og sveitarfélögin eiga einnig að gera slíkt hið sama. Nú er tími til endurbóta, við skulum ekki láta okkar eftir liggja í því sambandi.
Að lokum nefni ég að í gær opnuðum við sérstakt svæði á vefsíðu ráðuneytisins um stefnumótun og framtíðrsýn mína. Að þessu höfum við unnið síðustu misserin og þarna eru sett fram markmið sem við ætlum að stefna að í öllum málaflokkum ráðuneytisins. Ég hvet ykkur til að skoða þetta efni og hafa samband við mig til að tjá mér skoðanir ykkar og ábendingar.
Kæru fundarmenn
Ég trúi því að við sjáum brátt fram úr erfiðleikunum.
Að lokum þakka ég fyrir áheyrnina og óska ykkur góðs gengis í störfum ykkar á fundinum. Ég þakka áheyrnina.