Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. desember 2017 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ræða ráðherra í umræðu á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti ræðu við umræður á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra sem fram fóru 14. desember 2017.

Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra, 14. des. 2017

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn.

Við lifum á tímum þar sem óstöðugleiki hefur ríkt í stjórnmálum en á síðustu 10 árum hefur verið kosið 5 sinnum til Alþingis. Núverandi ríkisstjórnarsamstarf þriggja stærstu þingflokkanna á Alþingi byggist á sameiginlegri sýn ólíkra flokka sem hafa það markmið að vinna að ákveðnum lykilverkefnum sem koma Íslandi í fremstu röð. Auka þarf samkeppnishæfni landsins til að unga fólkið okkar velji Ísland til búsetu vegna þessa að hér er gott að búa og starfa. Til þess að svo megi verða þurfa innviðir samfélagsins að vera sterkir alls staðar á landinu. Samhliða er markmið ríkisstjórnarinnar að tryggja öldruðum raunverulegt áhyggjulaust ævikvöld.

Óvenjulegar aðstæður í þjóðfélaginu kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum. Við stjórnmálamenn þurfum að nálgast málin lausnamiðað með velferð almennings að leiðarljósi.

Þekking og reynsla allra flokka þarf að koma hér að og vonumst við, í meirihlutanum, eftir góðu samstarfi við minnihlutann, sem einnig er með nokkuð breiða skírskotun og flokkarnir þar eru ólíkir.

Við stjórnmálamenn megum ekki gleyma því að við erum fulltrúar fólksins í landinu og eigum að stefna að góðu samstarfi okkar á milli, það er á ábyrgð okkar allra. Sameiginleg gildi eins og  ábyrgð, framsýni og þjónusta geta styrkt liðsheildina hér á Alþingi til að ná sem bestum árangri fyrir land og þjóð.

Góð niðurstaða sem næst í samtali fleiri flokka heldur til lengri tíma og stuðlar um leið að meiri sátt í samfélaginu. Til að ná farsælli sátt er oft betra að taka krók á leiðinni ef mikið ber á milli sjónarmiða. Í þeim tilvikum þarf að fara aðeins hægar en oftast erum við í stórum dráttum sammála um markmiðin, þó að okkur greini á um leiðirnar.

Góðir landsmenn.

Framundan eru stór verkefni þar sem horfa þarf til lengri tíma en viðhalda um leið  stöðugleika.

Sá efnahagslegi stöðugleiki og kaupmáttaraukning, sem hefur náðst án þess að verðbólga hafi farið úr böndunum, eru verðmæti sem við verðum að tryggja. M.a. þess vegna áttum við forystufólk ríkisstjórnarflokkanna samtal við aðila vinnumarkaðarins í stjórnarmyndunarviðræðunum um hvernig við gætum nálgast verkefnið sameiginlega.

Langtímaáætlanir og samráð auka fyrirsjáanleika. Við Íslendingar höfum stundum fengið að heyra að ákvarðanir okkar miðist við viðkvæðið  „þetta reddast”. Það leiðarljós hefur ekki alltaf verið okkur farsælt og þurfum við sem þjóð að miða ákvarðanir til lengri tíma. Áskoranir framtíðarinnar beinlínis krefjast þess að við vinnum í þágu hagsældar landsins og veltum langtímamarkmiðinu fyrir okkur. Við þurfum að spyrja okkur hvernig við viljum sjá landið okkar þróast næstu 20 til 30 árin, hvað gerist á næstu 10-20 árum, hvernig ætlum við að efla samkeppnishæfni landsins og hvað við þurfum að gera í nánustu framtíð til að styðja þau áform.

Þessi hugsun á ekki síst við í þeim stóru framkvæmdum sem framundan eru þar sem tryggja þarf að allir landsmenn búi við sömu skilyrði, til þjónustu hins opinbera hafi jöfn tækifæri til atvinnuþróunar og að atvinnulíf verði fjölbreytt á hverjum stað.

Okkar undirstöðuatvinnugreinar ferðaþjónusta, sjávarútvegur, orka, landbúnaður og skapandi greinar eiga allt undir að hér séu innviðir sem stuðla að heilbrigðum hagvexti til framtíðar.

Til að stuðla að frekari verðmætasköpun þarf landið allt að vera í blómlegri byggð og stefnumörkun í byggðamálum þarf að samþættast við sem flesta málaflokka. Atvinnulíf og nærsamfélög þurfa að geta tekist á við ytri breytingar og á svæðum með dreifða búsetu þarf að vera atvinnulíf sem skapar verðmæti. Við þurfum að horfa til byggðaaðgerða sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, meðal annars með því að styrkja námslánakerfið og nýta svæðisbundna þekkingu sem best.

Þá þarf flutnings- og dreifikerfi raforku að mæta þörfum atvinnulífs og almennings en alls staðar á landinu þurfa orkuskiptin að taka mið af loftslagsmarkmiðum okkar eins og best verður á kosið.

Ljósleiðartenging til allra landsmanna sem verður lokið við innan þriggja ára mun m.a. skipa okkur í fremstu röð  upplýsinga og tæknisamfélaga. Um leið er það, það veitukerfi sem skiptir hvað mestu máli fyrir alla fjölskyldumeðlimi sem eiga jafnframt að hafa aðgang að sömu grunnþjónustu óháð búsetu. Mun gerð þjónustukorts bæta yfirsýn og skapa grundvöll fyrir nauðsynlegar aðgerðir.

Góðir landsmenn.

Það er vissulega svigrúm á næstu árum, vegna góðrar afkomu ríkisins, en einnig til að nýta eignatekjur ríkisins í slík verkefni og tryggja þá traustu innviði sem eru forsendan fyrir fjölbreyttu og kröftugu atvinnulífi. Hins vegar verður ekki hjá því komist að til þess að viðhalda stöðugleika um ókomin ár verður að forgangsraða stóru framkvæmdunum. Þá skiptir máli að við náum sameiginlegri niðurstöðu um það til lengri tíma, en ekki bara til næstu fjögurra ára.

Í samgöngum sem er ein mikilvægasta fjárfesting sem við stöndum frammi fyrir, þarf að forgangsraða með tilliti til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu, og öryggissjónarmiða. Við þá forgangsröðun þarf einnig að taka tillit til hagkvæmni og byggðarsjónarmiða og tengja byggðir og samfélög til að skapa stærri vinnusóknarsvæði en einnig að tryggja öruggar samgöngur við umheiminn. Samgöngur og fjarskipti skipa stóran sess í umgjörð og tækifærum landsins. Þær þurfa að styðja við hver aðra og samanstanda af öruggu vegakerfi, höfnum , flugvöllum og netöryggi.

Þá eykst þörf fyrir bættar almenningssamgöngur við þéttleika byggðar. Ákvarðanir þurfa að miðast út frá auknum ferðamannafjölda og hvernig við getum sem best þjónað heimamönnum við að komast á milli svæða.

Innanlandsflug þarf að vera mikilvægari hluti af almenningssamgöngum sem við þurfum að tengja betur við alla landshluta. Kerfin þurfa að tvinnast saman og verða ein heild svo hér fái allir sem jafnasta þjónustu.

Samstarf við sveitarfélögin þarf að vera gott, en þau eru lykilaðili í því að þróa nærsamfélagið, velferð íbúa og mannlíf samfélaga. Þau þurfa að styrkjast og eflast til að geta sinnt sínum verkefnum sem m.a. stuðlar að öflugri þjónustu og að störfum fjölgi og að þau haldist í byggð.

Já, skrefin eru vissulega mörg og sum munu taka lengri tíma en  önnur. Það sem skiptir mestu máli er að þetta séu verkefni sem skipta velferð íbúa landsins miklu. Það mun hjálpa til séum við öll sammála um hvert við erum að fara. Uppbyggingin verður að fara fram en án þess að auka þenslu á einstökum svæðum. Það er hægt og þá mun okkur farnast vel um ókomna framtíð.

Góðar stundir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta