Uppbygging vega og þjónusta krefjast mun hærri fjárframlaga
Grein Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í Morgunblaðinu 10. mars síðastliðinn.
Ríkisstjórnin vill hraða uppbyggingu í vegamálum og öðrum samgönguinnviðum bæði með nýframkvæmdum og viðhaldi. Við forgangsröðun í vegamálum verður sérstaklega litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða.
Vegakerfi landsins er smám saman að gefa sig þar sem við höfum ekki undan að koma vegum í það horf sem nútíma þjóðfélag krefst. Ástæðurnar eru kunnar: Of lág fjárframlög og stóraukin umferð og álag. Vegakerfið er grundvöllurinn að búsetu, atvinnulífi og samskiptum. Ef ekkert er vegakerfið verður stöðnun. Vegakerfið er hreyfiafl samfélagsins. Okkar undirstöðu atvinnugreinar, sem skapa verðmætin, eru háðar samgöngum í lofti, láði og legi. Góðar samgöngur eru brýnar fyrir tekjuöflun samfélagsins og stuðla að hagvexti framtíðarinnar.
Umferðin jókst um 11%
Álag á vegakerfið hefur stóraukist með aukinni umferð. Þannig jókst akstur um allt að 11% á síðasta ári einu saman. Einn þátturinn er fjölgun ferðamanna og vaxandi ferðaþjónusta. Annar eru daglegir flutningar fyrir atvinnulífið sem ná nú til nánast allra afkima. Enn annar þáttur eru aukin samskipti okkar og félagslegur samgangur. Þetta krefst þess að vegirnir séu ávallt öruggir og greiðfærir. Við viljum og þurfum að komast leiðar okkar.
Á sama tíma hafa fjárveitingar verið langt undir brýnni þörf og kröfur samfélagsins um greiðar og öruggar samgöngur allt árið eru meiri nú en áður.
Slæmt ástand
Þörfin fyrir þjónustu, viðhald og framkvæmdir er aðkallandi. Framkvæmdir eru háðar verkefnabundnum fjárveitingum. Aðeins sú framkvæmd að tvöfalda stofnleiðir til og frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg um Kjalarnes, er metin á um 45 milljarða króna en heildar framlög til nýframkvæmda á þessu ári eru 11,7 milljarðar króna. Þá er aukin þörf fyrir viðhald vega og þurfa fjárveitingar að nema um 10-11 milljörðum króna á ári en voru ríflega 8 milljarðar árið 2017.
Einnig eru vaxandi kröfur til þjónustu, sérstaklega vetrarþjónustu og til vegmerkinga, sem þurfa að nema minnst 5,5 milljörðum árlega en námu á síðasta ári 4,6 milljörðum.
Samgönguáætlun er í vinnslu núna, en stefnt er að því að leggja hana fram á fyrsta degi þings í haust. Ríkisstjórnin ætlar í uppbyggingu vegamála enda veitir ekki af. Flestir vegir á Íslandi eru að verða meira og minna ónýtir. Þau svæði sem verst búa varðandi þessi mál eru í forgangi til að ýta undir aukna hagsæld í búsetu, atvinnulífi og öllu mannlífi.