Ávarp við athöfn við Skúlagötu 4: Hægri umferð í 50 ár
Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við athöfn 31. maí
í tilefni af því að 50 ár eru liðin frá því að skipt var úr vinstri yfir í hægri umferð á Íslandi
Kæru gestir
Með miklu og samhentu átaki í aðdraganda þess að skipt var úr vinstri yfir í hægri umferð á Íslandi fyrir 50 árum var lagður grunnur að vitund Íslendinga um ábyrgð sína í umferðaröryggismálum og mikilvægi forvarna og fræðslu.
Slysum fækkaði umtalsvert í kjölfar H-dagsins öfugt við fullyrðingar andstæðinga þessara breytinga um hið gagnstæða. Ber þar án efa að þakka þeim sem báru hitann og þungann af undirbúningnum – við sem vorum komin til vits og ára munum eftir þeirri öflugu vitundarvakningu sem varð í aðdraganda 26. maí 1968.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að við forgangsröðun í vegamálum verði litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða. Á þessu ári er áætlað að verja auknu fé til aðgerða á sviði umferðaröryggis. Aðgerðirnar snerta fræðslu og eftirlit með okkur ökumönnum, aðgerðir á vegakerfinu og rannsóknir á hegðun okkar í umferðinni.
Þessu tengt þá hefur verið unnið að heildarendurskoðun umferðarlaga. Markmiðið er að stuðla enn frekar að umferðaröryggi en brýnt er að bregðast við þeirri þróun sem hefur orðið í samfélaginu á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna tækniþróun í samgöngum, aukinni sjálfvirkni bíla og notkun snjalltækja við akstur eru þættir sem hafa áhrif á öryggi okkar í umferðinni.
Meðal helstu breytinga í frumvarpinu eru ákvæði sem færa ákveðna þætti til nútímalegra horfs, nýr kafli um hjólreiðar og hámarkssekt vegna umferðarlagabrota hækkuð úr 300.000 í 500.000 krónur.
Í mínum huga er alveg ljóst að hver króna sem fer til þess að auka umferðaröryggi okkar skilar sér. Er þá sama hvert litið er. Eftirlit lögreglu nær þeim sem brjóta umferðarreglur og kennir okkur lexíu, fræðslan nær til allra aldurshópa vegfarenda og stuðlar að því að gera okkur að betri vegfarendum, aðgerðir og endurbætur á vegum miða að því að minnka áhættu og draga úr afleiðingum umferðarslysa og færa okkur vitneskju um hvar við getum bætt úr.
H-dagurinn 26. maí 1968 markaði tímamót í umferðaröryggismálum hér á landi. Að baki breytingunum lá mikill undirbúningur og kostnaður. Þó nokkur aðdragandi var að breytingunum, en til gamans má nefna að vinir okkar og nágrannar Danir innleiddu hægri umferð árið 1793. Umferð hér á landi var lítil framan af byrjun í seinustu aldar og ef til vill ekki verið forgangsmál að innleiða hægri umferð fyrr en var gert.
Ný hugsun var tekin upp fyrir fimmtíu árum síðan, þökk sé þeim sem vörðuðu þessa leið svona vel til framtíðar. Næstu fimmtíu ár munu án nokkurs vafa færa okkur nýjar áskoranir og breytt landslag. Fyrst og fremst er ábyrgðin samt hjá okkur sjálfum - við ráðum því sjálf hvaða árangri við náum í umferðaröryggi og slysavörnum. Lítum í eigin barm.