Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. júní 2018 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ávarp á stefnumótunarfundi í fjarskiptum, póstmálum, netöryggismálum og málefnum Þjóðskrár Íslands

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Stefnumótun í fjarskiptum, póstmálum, netöryggismálum og málefnum Þjóðskrár Íslands

21. júní 2018, kl. 09:00 Heklu, Hótel Sögu, Reykjavík

Komið þið sæl

Ég býð ykkur velkomin til þessa stefnumótunarfundar sem er mjög mikilvægur þáttur í mótun nýrrar stefnu í þeim málaflokkum sem heyra undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.

Ég hef tekið að mér það mikilvæga hlutverk að stýra samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu næstu fjögur árin og ætla mér að nýta þann tíma til hins ítrasta til að ná fram nauðsynlegum breytingum og umbótum á þeim sviðum sem undir ráðuneytið heyra. Frumvarpavinna verður skipulögð nokkur ár fram í tímann og nú í upphafi kjörtímabilsins er stefnumótunarvinna í algjörum forgangi og stefnt að því að í lok ársins liggi fyrir nýjar stefnur í öllum helstu málaflokkum sem undir ráðuneytið heyra.

Eftir hádegi í dag er samgönguþing þar sem lagðar verða línur fyrir samgönguáætlun en hér og nú og fram að hádegi verða lagðar línur fyrir nýja fjarskiptaáætlun sem nær ekki einungis til fjarskipta heldur einnig til póstmála, netöryggismála og málefna sem heyra undir Þjóðskrá Íslands.

Ráðuneytið eitt og sér mótar ekki stefnu. Við þurfum á ykkur öllum sem eruð hér í dag að halda til að segja okkur hvað er brýnast, hvaða hindrunum þarf að ryðja úr vegi og hvernig ríkið á að haga sér í þeim gríðarlegu tækni- og samfélagsbreytingum sem spáð er að muni eiga sér stað á næstu árum og áratugum.

Hvaða hlutverki eiga opinberir aðilar að gegna t.d. við innleiðingu 5g-tækninnar og hvað hlutverki eiga markaðsaðilar að gegna?  Þetta þarf að ræða og svo margt, margt fleira.

Á síðustu vikum hef ég tekið á móti forystumanni Alþjóðafjarskiptasambandsins og Indverskum ráðherra og vildu báðir ræða framúrskarandi árangur Íslands í fjarskiptum – og þá hvernig við hefðum náð svo framúrskarandi árangri í fjarskiptamálum.

Fundir sem þessir eru góð áminning um að með miklum metnaði, skýrri stefnu og eftirfylgni getum við náð miklum árangri.

Við búum að góðri reynslu af því að móta fyrri stefnur og innleiða þær. Þar er mér efst í huga verkefnið Ísland ljóstengt og hvernig til tókst að fá ríkið, sveitarfélögin, fjarskiptafélögin og byggðasjóði til að leggjast sameiginlega á árarnar til að koma háhraðatengingum til heimila og fyrirtækja á dreifbýlustu svæðum landsins. Ef það hefði ekki tekist væri Ísland ekki í fyrsta sæti á lista ITU yfir fjarskiptainnviði.

Nú, - fundargestir góðir, spyr ég, eigum við ekki að yfirfæra reynslu okkar af árangursríkri nálgun á fjarskiptamálin yfir á netöryggismálin, póstmálin og málefni Þjóðskrár Íslands?  Er nokkur ástæða til að ætla annað en við getum stórbætt stöðu okkar í þessum málaflokkum með því að sýna metnað, móta skýr stefnu og fylgja henni skipulega og fast eftir?

Þau viðfangsefni eða þær áskoranir sem við sem þjóð stöndum frammi fyrir á næsta áratug eru að mörgu leyti óljósar. Tæknileg umbreyting íslensks samfélags er hér undir, hvorki meira né minna. Fjarskiptin eru grunnurinn sem allt byggir á í fjórðu iðnbyltingunni, í 5g og Interneti hlutanna. Og útbreiðsla og notkun tækninnar er háð því að fólk og fyrirtæki treysti tækninni og því að viðkvæmar upplýsingar  komist ekki í hendur óviðkomandi. Þar kemur netöryggið inn í dæmið.

Ráðuneytið hefur verið að undirbúa frumvarp um netöryggismálin sem nú er búið að birta til umsagnar í samráðsgátt ráðuneytanna en mikið verk er framundan við að auka öryggi upplýsinga, ýmissa grunnkerfa samfélagsins og neta. Þessi mál verða eðlis síns vegna að vera í forgangi.

Í póstmálum blasa við miklar áskoranir sem eru þær sömu í flestum vestrænum löndum. Magn bréfapósts fer hratt minnkandi en bögglapóstur eykst.  Þetta kallar á breytingar og stefni ég að því að leggja fram frumvarp til nýrra póstlaga á haustþingi.

Opinberir aðila halda nokkrar stórar skrár sem oft er vísað til sem grunnskráa ríkisins. Þjóðskrá Íslands heldur utan um tvær af þeim allra  mikilvægustu það er þjóðskrá og fasteignskrá. Í slíkum skrám felast mikil verðmæti. Við blasir að þau kerfi sem halda utan um persónulegar upplýsingar eða upplýsingar um fasteignir þurfa að fá upplýsingar greiðlega úr þessum skrám.  Og þróun þeirra og virkni hefur áhrif á fjölda annarra kerfa stofnana og fyrirtækja. Mikilvægi þess að þeir sem taka ákvarðanir í samfélaginu geti byggt þær á áreiðanlegum gögnum – verður ekki ofmetið. Ég tel að íslensk stjórnvöld þurfi að huga vel að þessu.

Tæknileg umbreyting samfélagsins er sannarlega hafin.  Og Ísland er í þeirri öfundsverðu stöðu að vera með besta fjarskiptakerfi í heimi að mati ITU.  Að auki er menntunarstig, efnahagur og stjórnskipulag með þeim hætti að Ísland ætti að geta gert tímanlega þær ráðstafanir sem tryggðu farsæla tæknilega umbreytingu samfélagsins alls – og á þann hátt að allir landsmenn njóti afrakstursins.  Með öðrum orðum þá er mín sýn á þau verkefni sem framundan eru sú að: Með metnaði, skýrri stefnu og skipulegri eftirfylgni getum við tryggt farsæla tæknilega umbreytingu samfélagsins á þann hátt að landsmenn allir njóti afrakstursins.

Ég er því fullur bjartsýni og vonast til að við hjálpumst að við að móta metnaðarfulla stefnu sem lýsir því hver meginviðfangsefnin eru, hvert við viljum komast á hverju sviði og um leið hvernig við ætlum að komast þangað.   

Ég vil þakka vinnuhópnum sem heldur utan um mótun nýrrar stefnu og þakka sérstaklega Póst- og fjarskiptastofnun og Þjóðskrá Íslands fyrir þeirra þátt í vinnunni.

Að lokum vil ég svo þakka ykkur öllum fyrir að mæta hér í dag og leggja ykkar að mörkum við mótun stefnunnar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta