Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. janúar 2019 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Horft til framtíðar

Ávarp flutt á ráðstefnu ungmennaráða á Suðurlandi sem haldin var dagana 30.-31. janúar og bar yfirskriftina Ungt fólk á Suðurlandi horfir til framtíðar.

Kæru fundargestir.

Ég þakka fyrir að vera boðinn til þessarar ráðstefnu, mér er það bæði mikill heiður og mikil ánægja.

Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að eiga samtal við og vinna með ungu fólki á sem flestum sviðum samfélagsins. Það má m.a. sjá í þungum áherslum á uppbyggingu og þróun í menntakerfinu – á öllu skólastigum og í öðrum málaflokkum sem skipta máli fyrir ungt fólk.

Þess má m.a. sjá stað í formennsku okkar Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni þetta ár.
Embætti samstarfsráðherra Norðurlands féll mér í skaut og í okkar áherslum sem við vildum  halda lofti og vinna að í því mikilvæga samstarfi – eru málefni sem lúta að ungu fólki, sjálfbærri ferðamennsku og málefnum hafsins, með sérstakri áherslu á bláa lífhagkerfið.
Norrænar áherslur á jafnrétti, stafræna væðingu og sjálfbæra þróun fléttast inn í formennskuverkefnin, sem og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Hér eru málefni unga fólksins í fyrsta sæti - málefni kynslóðarinnar sem fæddist í kringum aldamótin og er að hefja vegferð sína út í lífið. Við viljum hlusta á ungt fólk og standa fyrir samstarfsverkefnum sem efla menntun, menningu og heilbrigði.

Þess vegna er það enn mikilvægara fyrir mig – sem samstarfsráðherra Norðurlanda þetta árið – að koma hingað og hlusta á ykkur.

Í ráðuneyti mínu vinnum við að málefnum sveitarfélaga og það er hlutverk mitt sem ráðherra sveitarstjórnarmála að standa vörð um hagsmuni sveitarfélaga, um sjálfstjórn þeirra, um verkefni þeirra og fjárhag.

En hvað er sveitarfélag? Það eru til nokkrar skilgreiningar – en svarið er í raun mjög einfalt – Sveitarfélag er fyrst og fremst samfélag fólks á öllum aldri, fólks sem býr saman á ákveðnum svæði og lifir lífi sínu frá degi til dag. Samfélag þar sem við ölumst upp í, göngum í skóla, stundum  tómstundir og félagslíf, eignumst vini og nágranna. Þegar við verðum fullorðin – er það staðurinn þar sem við ölum upp börnin okkar, stundum launavinnu, eigum fjölskyldu og félagslíf. Þar sem aldraðir búa eftir að þeir hafa lokið sínu ævistarfi. Og svo miklu, miklu meira.

Þetta er flókin heild og um hana gilda lög og reglur sem við þurfum að kunna og virða. Lýðræði er grunnurinn að þeim reglum.

Við kjósum sveitarstjórn til að gæta að hagsmunum íbúa sveitarfélagsins og tryggja að þeir búi við bestu mögulegu aðstæður á hverjum tíma, fái lifað góðu og öruggu lífi.

Hér er hugtakið lýðræði lykilhugtak og það er mjög mikilvægt að lýðræðislega kjörnar sveitarstjórnir séu í góðum tengslum við íbúa sína og þekkja viðhorf þeirra og þarfir.
Þær þurfa að kunna að hlusta á það sem þið hafið að segja – hvers konar samfélagi þið viljið lifa í.

Íbúar sveitarfélags – á öllum aldri – eru sérfræðingar í nærumhverfi sínu og samráð við þá stuðlar að vandaðri ákvörðunartöku og sem oftast meiri sátt – betra umhverfi.
Í sveitarstjórnarlögum er sérstakur kafli þar sem m.a. er fjallað um samráð sveitarstjórna við íbúa sveitarfélaganna. Þessi ákvæði voru sett í lög 2011 en þá hafði orðið mikil vakning í sveitarfélögum og samfélaginu um mikilvægi almenns og víðtæks samráðs um opinber málefni. Í þessum lagakafla eru lögbundið hvernig þess samráði skuli háttað. Á þessum tíma var aðaláhersla (og krafan) á – að í búalýðræði fælist rétturinn til að íbúar gætu kallað fram kosninga um ákv. mál sem væru í  meðferð sveitarstjórnarinnar. Ótrúlegar fáar sveitarstjórnir hafa valið þessa leið og enn færri íbúahópar hafa lagt það á sig að kalla fram kosningu. Reynslan hefur sýnt okkur og öðrum sambærilegum þjóðum eins og Norðurlandaþjóðum að þetta er ekki sú leið sem skilar bestum árangri og því hefur verið leitað eftir og þróaðar aðrar leiðir sem við í mínu ráðuneyti höfum mikinn áhuga á að skoða.
Fyrir rúmu ári stóð ráðuneytið ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir málþingi um íbúasamráð. Markmið þess var að miðla þekkingu og reynslu til sveitarfélaga um hvernig sé hægt að stunda markvisst og árangursríkt íbúasamráð og virkja íbúa til jákvæðrar þátttöku. Á málþinginu kynntu sveitarfélög þróunarverkefni sín og skiptast á sjónarmiðum og reynslu í umræðum eftir kynningar.

Ráðuneyti mitt (í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga) hefur nýlega samþykkt að leggja til fjármagn í verkefni sem hefur að markmiði – að byggja upp þekkingu í nokkrum tilraunasveitafélögum á því hvernig hægt er að beita nýjum samráðsaðferðum – þar sem lögð er áhersla á að flétta íbúasamráði inn í ákvörðunarferla sveitarfélagsins og þar sem er beitt sértækum aðferðum til að  til að ná til breiðs hóps íbúa – og sérstaklega þeirra sem hafa mikla hagsmuni að gæta en hafa sig lítið í frammi. Markmiðið með þessari aðferð er líka að tryggja að sem flest sjónarmið heyrist og leitast er við að skapa skilning meðal íbúa á mismunandi hagsmunum og forsendum sveitarstjórnar fyrir ákvörðunartöku.

Það er starfshópur á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem er að undirbúa þetta verkefni með þátttöku sérfræðinga frá háskólasamfélaginu og ráðuneytisins. Innan skamms verður auglýst eftir áhugasömum sveitarfélögum þar sem í umsókn þarf  að skilgreina hvers konar verkefni þau sjá fyrir sér að setja af stað og það er ekki úr vegi fyrir ykkur – ungmennaráðin og annað ungt fólk að fylgjast með og koma með tillögur til ykkar sveitarstjórna.

Skýringin á því af hverju lýðræðisþjóðir í fremstu röð eins og Norðurlöndin hafa verið að leita eftir og þróa leiðir til að auka lýðræðislega þátttöku almennings er að dregið hefur verulega úr kosningaþátttöku almennings og kannanir sýna að almenningur ber minna traust til pólitískra valdahafa en áður.

Þetta þekkjum við vel hér á Íslandi. Við höfum haft miklar áhyggjur af minnkandi kosningaþátttöku og sérstaklega meðal yngstu kjósenda og það hefur verið gert átak í tengslum við kosningar sem stjórnvöld hafa styrkt til að fræða ungt fólk um mikilvægi þátttöku og hetja það til að kjósa. Flest öll félagasamtök ungs fólk hafa tekið þátt í slíkum átakverkefnum og kannski er skýringin á að sífellt fleiri sveitarfélög kosið sér eða skipað sérstök ungmennaráð sér til halds og traust.

Mér finnst ánægjulegt að geta sagt það hér að við í ráðuneytinu höfum sannarlega orðið þess vör að sífellt fleiri sveitarfélög eru komin með ákvæði um ungmennaráð í sínar samþykktir.  Og það er ánægjuleg þróun.

En ég vil ljúka máli mínu með að hvetja ykkur – fulltrúa í ungmennaráðum – og annað ungt fólk sem hér er – til virkrar þátttöku í mótun nýrra sóknaráætlana – en nú er er að hefjast nýr áfangi á þeim vettvangi. Þar getið þið haft umtalsverð áhrif – ekki bara á sveitarfélagið ykkar  – heldur landshlutann ykkar og skapað ykkur meiri lífsgæði.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta