Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. mars 2019 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ávarp á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga

Ávarp á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 29. mars 2019

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga – ágæta sveitarstjórnarfólk

Þakka þann heiður að ávarpa ykkur á landsþingi ykkar og taka þátt í umræðum um samgöngumál en greiðar og góðar samgöngur eru grunnurinn að þjónustu og vexti hvers samfélags.

Ég vil þó leyfa mér í lokin að koma að nokkrum orðum varðandi húsnæðismál, það er eitt af meginviðfangsefnum landsþings ykkar og var umfjöllunarefni fyrir hádegi.

Atburðir gærdagsins eru vissulega vonbrigði að ekki hafi tekist að tryggja rekstur félagsins. Áfallið er fyrir starfsfólk fyrirtækja í flugtengdum rekstri sem missa vinnuna og þurfa nú að leita annað.

Áfallið nær einnig inn í fjöldamörg fyrirtæki tengd ferðaþjónustu sem eru víðsvegar um landið.

Áfallið er einnig fyrir ríkissjóð sem mun trúlega þurfa að endurskoða afkomumarkmiðin til skemmri tíma. Óvissuþættirnir við smíði fjármálaáætlunar voru Wowair, loðnan og kjarasamningar. Nú er ljóst að tveir þeirra hafa skýrst.

Ég vil þó undirstrika að þó að landsframleiða muni taka einhverja dýfu þá er efnahagurinn sterkur og við horfum bjartsýn til framtíðarinnar og að ferðaþjónustan nái sér á strik fljótt aftur.

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar
Þrátt fyrir óvissu þá megum við ekki tapa sjónar á markmiðum þessarar ríkisstjórnar sem var mynduð um uppbyggingu á innviðum og  hefur lagt ríka áherslu á mikilvægi samgöngumála sem er undirstaða fyrir þróun byggðar og búsetu um allt land.

Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að hraða uppbyggingu í vegamálum og öðrum samgönguinnviðum bæði með nýframkvæmdum og viðhaldi.

Við viljum gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna og teljum nauðsynlegt að byggja upp almenningssamgöngur um land allt.

Þá styður ríkisstjórnin uppbyggingu borgarlínu og það þarf að gera í nánu samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta vildi ég nefna því að öllu þessu hefur markvisst verið unnið frá því að ríkisstjórnin tók til starfa.

Tíminn hefur verið nýttur vel og það er vel til fundið að gera stöðumat á landsþingi ykkar nú.

Samgönguáætlun – aukið fé til framkvæmda
Ef við byrjum á fjármögnun samgöngumannvirkja þá var okkur það strax ljóst að ráðast þyrfti í mikla fjárfestingu. Mikil þörf var fyrir auknu viðhaldi og nýframkvæmdir eftir mörg niðurskurðarár.

Veruleg stórsókn er fram undan.

Þar ber hæst 20 milljarða aukning til framkvæmda á vegakerfinu. Má segja að þessi vilji og ásetningur sé varanlega rammaður inn. Þar er dregin fram sú staðreynd að framlög til samgönguinnviða hafa ekki verið hærri að raunvirði frá árinu 1998, að undanskildum árunum 2008 og 2009.

Er það viðbót við 16,5 milljarða aukningu frá gildandi áætlun, og tæplega 4 milljarða króna viðbót til að flýta fyrir nauðsynlegum nýframkvæmdum og viðhaldi. Samtals rúmlega 40 milljarðar.

Fjárfesting í samgöngumannvirkjum mun því nema ríflega 120 ma.kr. á tímabili fjármálaáætlunar. Þessi fjárfesting kemur líka á góðum tíma þegar svo kann að vera, að eitthvað sé að hægjast um í hagkerfinu hjá okkur. En mestu máli skipir að vegfarendur munu innan tíðar aka á öruggari vegum víða um land.

Meðal framkvæmda sem unnið verður að eru Vestfjarðavegur um Gufudalssveit, tvöföldun Reykjanesbrautar að Reykjanesbæ, breikkun Suðurlandsvegar að Selfossi og Vesturlandsvegar um Kjalarnes. Þá verður lokið við gerð Dýrafjarðagangna og Dettifossveg.
Fleiri verkefni væri hægt að telja upp, en allt er þetta tíundað í nýsamþykktri samgönguáætlun. Hana þarf hins vegar uppfæra með haustinu í ljósi nýju fjármálaáætlunarinnar. Svigrúmið hefur verið aukið, eins og ég kom inn á, og það verður nýtt til að hraða framkvæmdum á stofnbrautum sem þola ekki bið.

Þá er rétt að geta þess að endurgerð samgönguáætlunar mun einnig taka mið af niðurstöðum starfshóps um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu – en viðræðuhópi var falið að leiða þau málefni til lykta, m.a. varðandi Sundabraut. Gert er ráð fyrir að hann skili tillögum sínum á næstu vikum.

Flýtiframkvæmdir - veggjöld
Það verður líka verkefni nýrrar samgönguáætlunar að taka mið af niðurstöðu starfshóps um flýtiframkvæmdir með gjaldtöku.

Þar yrði einnig fjallað um möguleg samstarfsverkefni (PPP) í samgönguframkvæmdum þar sem umferð er næg til að standa undir slíku.

Eins og þið þekkið mæta vel þá er enn verk að vinna í samgöngumálum – betur má ef duga skal. Víða er þörf og brýnt að halda vel á spöðunum. Álag á vegi landsins hefur aukist mikið á undanförnum árum meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna til að stuðla að fækkun slysa og auka umferðaröryggi.

Vegagerðin telur nauðsynlegt að fara í um 200 verkefni á næsta aldarfjórðungi sem áætlað er að kosti yfir 400 milljarða króna. Þó að aukið fjármagn hafi komið til vegagerðar í gildandi fjármálaáætlun þá dugar það engan veginn til að fullnægja þörfinni. Það þarf því að finna leiðir til þess að fjármagna og forgangsraða framkvæmdum og flýta þeim eins og kostur er.

Það eru nokkrir kostir í boði þegar kemur að því að fjármagna vegakerfið. Mitt markmið hefur alltaf verið að byggja upp vegakerfið. Mitt markmið hefur ekki verið veggjöld í sjálfu sér. Ég hef sagt að æskilegt er að nýta arðgreiðslur Landsvirkjunar og bankanna. Sú leið er hagkvæmari fyrir ríkið en aðrir kostir vegna lægri fjármagnskostnaðar.

Hins vegar geta samvinnuverkefni (PPP) hentað vel í stórum og vel skilgreindum nýframkvæmdum. Dæmi um slík verkefni eru Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga. Þá væri hægt að flýta brú yfir Hornafjarðafljót og veg yfir Öxi með gjaldtöku að hluta, sé vilji til þess. Á þessum leiðum skiptir máli að hafa val um aðra leið.

Tillögur starfshóps um fjármögnun á vegakerfinu verða síðan kynntar formlega í næstu viku.
 
Verkefnið er hins vegar stórt og hvaða leið sem við förum þá þarf að fjárfesta í samgönguinnviðum umfram það sem lagt er upp með í fjármálaáætlun þeirri sem nú liggur fyrir. Það er sameiginlegt verkefni stjórnmálanna að finna leiðirnar að sameiginlegu markmiði.

Almenningssamgöngur
Oft þegar rætt er um almenningssamgöngur á landsbyggðinni reikar hugurinn að rútum og það  gleymist að almenningssamgöngur eru allir reglubundnir fólksflutningar hvort sem er með áætlanabíl, flugi eða ferjum.

Almenningssamgöngur hafa margþætt og mikilvægt samfélagslegt hlutverk. Vegur þar þyngst að tryggja aðgengi að nauðsynlegri opinberri þjónustu og atvinnu.  Þá eru almenningssamgöngur öruggur ferðamáti og tryggja möguleika ungmenna og aldraðra, sem annarra sem ekki geta ekið eða eiga bíl að þjónustu og afþreyingu til að nefna fátt eitt.

Almenningssamgöngur þurfa að vera raunhæfur valkostur sem styrkja hreyfanleika og aðgengi, ekki bara að þjónustu heldur að menntun, menningu og afþreyingu.

Síðast en ekki síst skila þær betri umhverfisgæðum með því að draga úr neikvæðum svæðis- og staðbundnum áhrifum svo sem hljóðvist, svifryk og almenn loftgæði.

Á árinu 2012 var fallið frá sérleyfiskerfinu í akstri áætlanabíla og kerfið fært með samningum til landshlutasamtaka sveitarfélaga með það að markmið að bæta þjónustuna og færa nær notendum með þá von í brjósti að fjölga farþegum.

Sú breyting hefur skilað árangri, ekki hvað síst í viðhorfum íbúa á landsbyggðinni sem almennt eru ánægðir með þjónustuna.

Almennt hefur reksturinn gengið vel, farþegum fjölgað töluvert á nánast öllum leiðum og það er mikil ánægja með hið nýja kerfi.

Vandamál hafa snúið að fjármögnun og rekstrarfyrirkomulagi og hafa viðræður farið fram um þau mál á milli ríkisins og landshlutasamtaka.

Við þurfum hins vegar að huga að framtíðinni og í nýrri stefnu um almenningssamgöngur, Ferðumst saman, er lagt til samhæft, heildstætt kerfi  sem sé jafnframt hagkvæmt og skilvirkt, með sameiginlegri upplýsingagátt fyrir áætlanabíla, flug og ferjur með rauntíma upplýsingamiðlun og skýru fargjaldakerfi.

Drögin að stefnunni voru til samráðs á samráðsgátt stjórnvalda og er nú verið að vinna úr umsögnum.  Eftir að unnið hefur verið úr ábendingum og athugasemdum hefst vinna við að koma stefnunni í framkvæmd. Fyrsta viðfangsefnið er að semja við landshlutasamtök um rekstur á almenningsvögnum milli byggða. Væntum við þess að landshlutasamtökin muni þar koma sameinuð að borði í einu félagi.

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu - borgarlínan
Í september 2018 vil ég segja að hafi orðið þau tíðindi að ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu settust niður til að móta framtíðina í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta gerðist eftir ára- eða áratugaþref þar sem ríkið talaði um stofnbrautir og höfuðborgin um almenningssamgöngur. Út úr sameiginlegum starfshópi kom framtíðarsýn um blandaða leið uppbyggingar stofnbrauta og Borgarlínu.

Niðurstöður viðræðnanna um framkvæmdapakka á höfuðborgarsvæðinu voru teknar inn í meðferð Alþingis á tillögu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um samgönguáætlun 2019-2034. Í þeim var meðal annars gerð tillaga um ýmsar framkvæmdir á stofnvegakerfinu, stóraukið fé til uppbyggingar hjólreiðastíga og um uppbyggingu fyrsta áfanga Borgarlínu. Í kjölfarið samþykkti Alþingi að verja samtals 800 m.kr. gegn samsvarandi mótframlagi fyrstu tvö árin til undirbúnings Borgarlínu.

Í gær var ákveðið í samstarfi ríkisstjórnarinnar og SSH að stofna vinnuhóp sem hefur það að markmiði að finna fjármögnunarleiðir fyrir stórframkvæmdirnar á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir sumarið verða því komin samningsdrög um hvernig ríkið og sveitarfélögin skipta með sér fjármögnun verkefnisins. Þetta verða mikil tímamót enda verður á grunni væntanlegs samkomulags hægt að hefjast handa við ríflega 100 milljarða uppbyggingu á þéttbýlasta svæði landsins.

Húsnæðismál
Ég vil leyfa mér í lokin að koma aðeins inn á húsnæðismálin. Ég veit að þau voru til umfjöllunar hjá ykkur í morgun og það er ánægjulegt að þið takið þau sérstaklega fyrir.

Ríkisstjórnin hefur frá upphafi verið með skýra stefnu í húsnæðismálum sem er að tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði og nægjanlegt framboð af viðunandi húsnæði fyrir alla, óháð efnahag og búsetu. Þetta er ein af grundvallarforsendum fyrir því að við getum byggt upp og viðhaldið öflugu samfélagi á landinu öllu.

Í dag er staðan sú að stór hópur fólks býr við þröngan kost og óöryggi í húsnæðismálum og margir, og þá einkum þeir tekjulægri, hafa slæmt aðgengi að viðunandi húsnæði og verja of háum hluta af tekjum sínum í húsnæði. Það er alveg ljóst að við þetta ástand verður ekki unað.

Til þess að skapa aukin stöðugleika á húsnæðismarkaði þurfum við breytta umgjörð í húsnæðismálum, umgjörð sem grundvallast á stefnumótun og áætlanagerð til langs tíma og er byggð á áreiðanlegum upplýsingum.

Mörg mikilvæg skref hafa verið stigin í þá átt á síðustu mánuðum og hefur Íbúðalánasjóði til að mynda verið falið mikilvægt hlutverk í þeim efnum með breytingu á lögum um húsnæðismál og er það fagnaðarefni að sterk stofnun fari nú með samhæfingu og framkvæmd húsnæðismála á landsvísu.

Þá hefur sveitarfélögunum landsins einnig verið falið veigamikið hlutverk við gerð húsnæðisáætlana en þær eru lykilþáttur í stefnumótun stjórnvalda í húsnæðismálum. Með því kristallast mikilvægi þess að gott samstarf sé á milli ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að húsnæðismálum.

Unnið er að ýmsum forgangsverkefnum til þess að bregðast við stöðunni á húsnæðismarkaði.

Ég vil sérstaklega nefna mikilvægi þess að auka möguleika til fyrstu íbúðakaupa og lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Starfshópur var skipaður í desember síðastliðnum sem unnið hefur að því að útfæra sértækar aðgerðir til þess að auðvelda ungu og tekjulágu fólki að kaupa sér íbúðarhúsnæði. Þar er m.a. horft til þess að endurskoða húsnæðisstuðning hins opinbera þannig að tryggt verði að hann nýtist fyrst og fremst þessum hópum. Ég bind miklar vonir við tillögur þessa hóps og á von á að þær verði kynntar innan skamms.

Þá hefur markvisst verið unnið að fjölgun hagkvæmra leiguíbúða á síðustu árum í gegnum uppbyggingu almenna íbúðakerfisins með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga. Almenna íbúðakerfið mun auka aðgengi tekju- og eignalágra einstaklinga og fjölskyldna að öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði og er ljóst að mikil þörf er á úrræði sem þessu.

Í fjármálaáætlun kemur fram að fjármagn til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins hafið verið aukið um 2,1 milljarð á næsta ári til þess að bregðast við þeirri erfiðu stöðu sem margir leigjendur eru í.

Ég er þess fullviss að þau skref sem við höfum stigið síðustu misseri marki ákveðin vatnaskil, leggi grunninn að bættri umgjörð í húsnæðismálum og færi okkur í áttina að því markmiði að tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði ásamt nægjanlegu framboði af húsnæði fyrir alla, óháð efnahag og í öllum byggðum landsins.

Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við sveitarfélögin á þessu sviði.

Ég vil þakka aftur fyrir tækifærið til að fá að tala við ykkur á aðalfundi Sambandsins. Eins og ég hef áður sagt standa sveitarstjórnarmálin mér afskaplega nærri. Hlutverk sveitarstjórnarstigsins er ekki síst mikilvægt í þeim pólitísku hræringum sem við sjáum á heimsvísu. Það er á sveitarstjórnarstiginu sem stjórnmálamenn eru í mestri nánd við umbjóðendur sína, kjósendur. Á sveitarstjórnarstiginu geta íbúar haft mikil áhrif á nærumhverfi sitt. Það er að mínu viti ljóst að hluti, kannski stór hluti, af pólitískum hræringum austan hafs og vestan stafar af því að almenningur upplifir sig vald- og áhrifalítinn og jafnvel áhrifalausan. Það vitum við sem höfum starfað í stjórnmálum á Íslandi að er fjarri sanni. Verum því dugleg að hvetja íbúa til þátttöku í ákvörðunum sveitarfélaga og ekki síður í skipulögðu starfi stjórnmálaflokkanna. Það er enginn annar sem kemur til með að bæta ímynd stjórnmálanna og traust á þeim en við sjálf.

Takk fyrir og til hamingju með góðan fund.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta