Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. september 2019 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Betri tímar í umferðinni

Greinin birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 27. september 2019

Í gær skrifuðu ríkisstjórn og stjórnendur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu undir tímamótasamkomulag um stórsókn til bættra samgangna. Tímamótin felast ekki síst í því að ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa náð saman um sameiginlega sýn um fjölbreyttar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu en samskipti þessara aðila hafa nánast verið í frosti áratugum saman þegar kemur að samgöngum. Borgin hefur barist fyrir einni leið og Vegagerðin fyrir annarri en báðir hafa haft sama markmið: að bæta og auðvelda umferð á svæðinu.

Ekki lausn, heldur lausnir

Niðurstaðan sem kynnt var í gær er ávöxtur þess að strax þegar ég settist stól ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála ákvað ég að leiða saman þessa andstæðu póla til vinna að lausn málsins. Útkoman er hagstæð fyrir alla, hvort sem þeir vilja aka sínum fjölskyldubíl, nýta almenningssamgöngur, ganga eða hjóla. Ríflega 52 milljarðar króna fara í stofnvegi, tæplega 50 milljarðar í uppbyggingu innviða fyrir hágæða almenningssamgöngur, rúmlega 8 milljarðar í göngu- og hjólastíga, brýr og undirgöng og rétt rúmir sjö milljarðar í umferðarstýringu.

Fjölbreytt fjármögnun

Lykillinn að því að hægt sé að ráðast í svo stórkostlegar framkvæmdir er að fjármagn sé tryggt. Ríkið leggur til 45 milljarða, sveitarfélögin 15 milljarða og sérstök fjármögnun verður 60 milljarðar. Sérstök fjármögnun verður að einhverju leyti í formi umferðargjalda sem verður hluti af þeirri vinnu sem unnið er að í fjármálaráðuneytinu varðandi endurskipulagningu fjármögnunarkerfis í samgöngum vegna orkuskiptanna. Samgöngukerfið er nú fjármagnað með bensín- og olíugjöldum sem fara hratt minnkandi vegna örrar fjölgunar vistvænna ökutækja.

Sundabraut

Eitt af því sem samkomulagið rennir stoðum undir er bygging Sundabrautar sem lengi hefur verið í umræðunni en ekki hefur náðst samkomulag um. Með þessum framkvæmdum er lagður grunnur að betri tengingu höfuðborgarsvæðisins við landsbyggðina með veglagningu yfir sundin upp á Kjalarnes. Sú tenging myndi létta á umferð í Ártúnsbrekku og með sterkari stofnvegum á höfuðborgarsvæðinu auðvelda mjög umferð í gegnum svæðið til Keflavíkurflugvallar.

Tíminn er dýrmætur

Samgöngur snúast fyrst og fremst um lífsgæði. Tíminn er stöðugt mikilvægari þáttur í  lífsgæðum, við viljum ráða því sem mest sjálf hvernig við verjum tíma okkar. Tíminn sem fer í umferðarflækjur er ekki aðeins óhagstæður fyrir efnahaginn heldur gengur hann á þann tíma sem við ætlum okkur með fjölskyldu og vinum. Betri umferðarmannvirki stuðla einnig að bættri umferðarmenningu og öruggari umferð, færri slysum. Áhersla mín á öflugar samgöngur um allt land er komin til vegna þess að ég trúi því að öflugar samgöngur séu hluti af sterkara samfélagi. Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins er mikilvægur hluti af þeirri sýn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta