Sjálfbærni er leiðarljósið
Ávarp flutt á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 3. október 2019
Fundarstjórar – ágætu ráðstefnugestir.
Bestu þakkir fyrir að vera boðin að ávarpa fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna. Þetta er mikilvægur vettvangur fyrir sveitarstjórnarfólk til þess að fara yfir sviðið, ræða stöðuna í búskap sveitarfélaganna og hins opinbera í heild. Hér eru saman komnir kjörnir fulltrúar, starfsmenn sveitarfélaga, fulltrúar ríkisins, landshlutasamtaka, fyrirtækja og atvinnulífs – og fyrir löngu uppselt!
Samband íslenskra sveitarfélaga standur vel að verki, þetta er gott skipulag og frumkvæði, mörg áhugaverð og brýn erindi sem eru til umræðu – og svo hlökkum við líka til kvöldsins þegar við komum saman í mismunandi einingum, borðum saman og erum saman – sveitarstjórnarfjölskyldan. Ég hlakka alltaf til og er þakklátur fyrir að fá að vera þátttakandi með ykkur á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.
Sjálfbærni - heimsmarkmiðin
Ákall dagsins er sjálfbærni. Hvað sem við gerum, hvert sem við förum, allar okkar athafnir þurfa að hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Það á við um okkur og það á við um heiminn allan. Sautján heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru sjálfbærnimarkmið sem þjóðir heims eru hvattar til að innleiða í alla sína ákvarðanatöku og stefnumótun.
Ríkisstjórnin er áfram um að vinna vel að þeim og í góðu samstarfi við alla, ekki síst sveitarfélögin sem eru mikilvægur aðili þegar kemur að því að tryggja árangur.
Mörg sveitarfélög hafa líka tekið gott frumkvæði sjálf og eru þegar farin að vinna markvisst að því að innleiða heimsmarkmiðin í sína stefnumótun og áætlanagerð. Komið hefur verið á fót samráðsvettvangi sambandsins um þessi mál og þar býðst öllum sveitarfélögum að takak þátt.
Ég hef lýst yfir vilja mínum til að styðja við þessa vinnu ykkar. Það er t.d. mikilvægt að þróa sameiginlega mælikvarða fyrir sveitarfélögin til að meta árangur og framvindu þeirra markmiða sem skilgreind eru og tengjast starfsemi sveitarfélaga.
Í nýlegri úttekt OECD á árangri Kópavogsbæjar á innleiðingu heimsmarkmiða er einmitt bent á það atriði, að það ætti að vera forgangsverkefni að þróa gagnavinnslu sem gefur tækifæri til að mæla framvindu og árangur sveitarfélaga. Þeir leggja því til að komið verði á fót sameiginlegri verkefnisstjórn ríkis og sveitarfélaga sem fái sterkt umboð til að vinna að slíku mælaborði og tengja heimsmarkmiðin enn betur við alla starfsemi sveitarfélaga.
Þetta vil ég gjarnan ræða við ykkur kæra sveitarstjórnarfólk á komandi vetri og leggja mitt af mörkum.
Sjálfbærni - loftslagsmál
Loftslagsmál og umhverfismál eru mál málanna – hér er um risa áskoranir að ræða sem heimurinn allur stendur frammi fyrir og enginn er eyland í þeim efnum. Ríkisstjórnin er staðráðin í að láta ekki sitt eftir liggja, enda mikið í húfi fyrir okkur Íslendinga og alla sem búa á norðurslóðum.
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018 - 2030 var kynnt í fyrstu útgáfu 10. september 2018.
Markmiðið með áætluninni er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.
Þetta er heildstæð áætlun sem samanstendur af 34 aðgerðum á mörgum sviðum. Megináherslurnar eru tvær:
- Í fyrsta lagi orkuskipti í samgöngum, með sérstakri áherslu á rafvæðingu í vegasamgöngum.
- Í öðru lagi átak í kolefnisbindingu þar sem skógrækt og landgræðsla gegna lykilhlutverki og markvisst verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis.
Verulega verður aukið við fjárfestingar og innviði vegna rafvæðingar í samgöngum en áætlað er að verja 1,5 milljarði króna á næstu fimm árum til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla, rafvæðingu hafna og fleiri nauðsynlegra aðgerða í orkuskiptum hér á landi.
Ný samgönguáætlun sem lögð verður fyrir Alþingi fljótlega tekur m.a. mið af þessum áherslum ríkisstjórnarinnar.
Hér – eins og á öðrum sviðum – þurfa sveitarfélögin að hafa öfluga og markvissa aðkomu, árangri verður ekki náð nema allir leggist á eitt. Og það eru víða eru tækifæri fyrir sveitarfélögin til að gera betur í loftslagsmálum.
Mörg sveitarfélög hafa tekið gott frumkvæði, má þar t.d. nefna Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ. Samband sveitarfélaga gegnir síðan mikilvægu hlutverki við að virkja öll sveitarfélögin og sú vinna er farin af stað – menn binda miklar vonir við hinn nýja samráðsvettvang.
Við ríkisins megin þurfum líka að huga því að tryggja náið og gott samstarf við sveitarfélögin – það má örugglega vera meira og þéttara– t.d. í allri stefnumótun, aðgerðaráætlunum og fleira. Ríkið getur einnig hjálpað mikið til með stuðningi við fjárfestingar í innviðum, við erum t.d. að hefja samráð um mögulegan stuðning ríkisins við uppbyggingu fráveitna sveitarfélaga og í síðustu viku var höfuðborgarpakkinn kynntur sem er risa samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga – ekki síður á sviði umhverfis og loftslagsmála en samgöngumála.
Sjálfbær sveitarfélög
Þess vegna er sjálfbærni kjarninn í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga.
Markmið stefnunnar eru skýr, en þau eru
- að sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi,
- að sjálfsstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt og að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.
Stefnumörkuninni fylgir aðgerðaráætlun til fimm ára og tilgreindar eru ellefu aðgerðir sem vinna ber að til að ná settum markmiðum.
Stefnuna og aðgerðaráætlunina skal svo endurskoða að þremur árum liðnum og þá gefst tækifæri til að bæta við aðgerðum og skerpa á leiðum til að ná enn betur settum markmiðum.
Tillaga um lágmarksíbúafjölda
Sennilega er fyrsta aðgerðin sú róttækasta – og þar af leiðandi umdeildust – en hún felur í sér að sett verði að nýju ákvæði í sveitarstjórnarlög um lágmarksíbúafjölda. Slíkt ákvæði var í lögum frá 1961 til ársins 2011.
Lagt er til að lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022, en 1.000 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2026.
Í aðalatriðum er um sambærilega tillögu að ræða og verkefnisstjórn um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga lagði til fyrir tveimur árum – líka að undangengnu víðtæku samráði um allt land.
Áhrif þessarar tillögu yrðu miklar, því yfir helmingur sveitarfélaga í dag hefur færri en eittþúsund íbúa. Gangi þetta eftir svona gæti sveitarfélögum hér á landi fækkað um helming á tímabilinu.
Ávinningurinn
Í mínum huga er ávinningurinn af þessari einstöku aðgerð mikill. Sveitarfélögin verða betur í stakk búin til að sinna skyldum sínum og þjóna íbúunum sem best. Þau munu ráða betur við verkefni sín án þess að þurfa að reiða sig á umtalsverðan stuðning úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða reka sín mál í gegnum frumskóg byggðasamlaga og samstarfssamninga. Sjálfbærni þeirra eykst – lýðræðislegt umboð styrkist – og stjórnsýsla verður enn betur í stakk búin að mæta auknum kröfum um gæði og skilvirkni.
Hagræn áhrif verða einnig umtalsverð nái þessi tillaga fram að ganga, á það hefur margoft verið bent meðal annars af Samtökum atvinnulífsins. Í nýrri greiningu tveggja sérfræðinga er talið að fjárhagslegur ávinningur í kjölfar þessarar aðgerðar gæti numið á bilinu þriggja og hálfs til fimm milljarða króna á ári. Hver slær hendinni á móti því – þá fjármuni væri hægt að nota til að bæta þjónustu við börn og unglinga eða greiða niður skuldir og lækka þar með kostnað.
Þá skapar tillagan frekari grundvöll til að færa fleiri verkefni frá ríki til sveitarfélaga, sem eykur sjálfsábyrgð og lýðræðislega aðkomu á sveitarstjórnarstigi að staðbundnum málefnum.
Ennfremur tel ég að þessi tillaga muni skapa betri skilyrði fyrir einstök svæði og sveitarfélög að sækja fram á sviði byggðamála og atvinnusköpunar, í samskiptum við ríkisvaldið um forgangsröðun verkefna t.d. á sviði samgöngumála.
Fleira mætti nefna, en í mínum huga eru augljós sóknarfæri í þessu fyrir íbúa landsins.
Það sem þarf að passa
Síðan er ýmislegt sem þarf að huga að við þessa framkvæmd.
Ýmsir hafa t.d. áhyggjur af því að minni byggðalög kunni að fara halloka í stærri sveitarfélögum, að allt vald færist til stærri staðanna í sameinuðu sveitarfélaga.
Það er auðvitað ekki gott ef mál skipast á þann hátt og það er ábyrgðarhluti og skylda hverrar sveitarstjórnar að sjá til þess að svo verði ekki – að valdi sé dreift, að íbúar séu hafðir með í ráðum, að gæðum samfélagsins sé skipt á sanngjarnan hátt.
Byggðastofnun hefur bent á að það gæti leitt til meiri sáttar um lágmarksíbúafjölda ef hlutverk sveitarfélaga til að verja hinar veikari byggðir væri skilgreint og sett fram jafnhliða ákvörðun um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. Að mati Byggðastofnunar er eðlilegt að gera kröfu um það að sveitarfélög móti sjálf og geri grein fyrir sinni stefnu varðandi aðsteðjandi vanda um þróun byggðar innan marka viðkomandi sveitarfélags.
Þetta finnst mér góðar og uppbyggilegar ábendingar sem vert er að skoða.
Þá er í þróun mjög áhugavert módel í tengslum við tillögu um sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi. Það er hugsað sem tilraunaverkefni til nokkurra ára en þar sem reynt er að tryggja að minni samfélögin haldi áfram tiltekinni heimastjórn. Rafræn stjórnsýsla og hagnýting nýrrar tækni til að miðla upplýsingum og tryggja samráð og samskipti koma þar til sögu.
Þetta gæti verið fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög og hvet ég til þess að það verði skoðað, en það er heimild í sveitarstjórnarlögum fyrir ráherra að veita undanþágur frá ýmsum ákvæðum laganna í því skyni að gera tilraunir á sveitarstjórnarstigi. Þann möguleika ættu fleiri að skoða.
Sjálfbærni í fjármálum sveitarfélaga
Önnur aðgerð áætlunarinnar nær einnig til fjármálanna, en fátt er mikilvægara fyrir sveitarfélög en traustur og góður fjárhagur. Markmið aðgerðarinnar er að tryggja sjálfbærni fjármála sveitarfélaga og lækkun skuldaviðmiðs sveitarstjórnarlaga fyrir A- og B-hluta reikningsskila sveitarfélaga. Hér er lagt til að viðmið fyrir A-hluta verði 100% frá 1. janúar 2027, en veittur verði tíu ára aðlögunartími til að ná nýju viðmiði.
Þetta er raunhæft markmið, sveitarfélögin hafa náð góðum árangri á síðustu árum við að lækka skuldir og tryggja þar með aukna fjárhagslega sjálfbærni.
Árið 2012 voru um 25 sveitarfélög yfir þessum mörkum, nú eru þau hins vegar innan við 10. Þetta eru góðar fréttir og við ætlum að halda áfram á sömu braut.
Nefnd er að störfum sem ætlað er að útfæra nánar ýmsar breytingar á fjármálakafla sveitarstjórnarlaga, meðal annars þessum þætti og ég á von á tillögum frá henni fyrir áramót. Við gætum t.d. þurf að skoða samhliða heimildir til að víkja frá reglum við sérstakar aðstæður, t.d. vegna áfalla eða sérstakra uppbyggingarverkefna.
Aðalatriðið er þó það, að sú endurskoðun sem gerð var á sveitarstjórnarlögum fyrir um 7 árum síðan hvað fjármál sveitarfélaga varðar hefur skilað góðum árangri. Fjármálareglur sveitarstjórnarlaga setja skýr viðmið og nú er kominn tími til að endurskoða þau, setja okkur ný markmið um enn betri árangur.
Nýjar reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um framlög til sameinaðra sveitarfélaga styðja síðan við þessi markmið, því þar er lagður til aukinn stuðningur til skuldalækkunar. Reglurnar eru til umsagnar í samráðsgátt Stjórnarráðsins og þar er hægt að kynna sér nánar hvernig þær nýtast til að ná þessum markmiðum, sem og varðandi það hvernig sjóðurinn gæti stutt myndarlega við sameiningar sveitarfélaga á komandi árum.
Samkvæmt tillögunni geta sveitarfélög séð fyrir fram hvað fylgir þeim í sameiningu óháð því hvaða sveitarfélagi eða sveitarfélögum er sameinast. Íbúarnir eru því vel upplýstir og geta betur tekið afstöðu til sameiningartillagna.
Er Jöfnunarsjóður jöfnunarsjóður?
Ágætu gestir á fjármálaráðstefnu.
Hlutverk og verkefni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eru stöðugt umfjöllunarefni og það er skiljanlegt. Hann er einn af tekjustofnum sveitarfélaga og á að gegna sérstöku hlutverki við að tryggja jöfn skilyrði sveitarfélaga til að rækja sín lögbundnu verkefni, að veita íbúum sínum þjónustu sem þeir eiga rétt á og þarfnast. Það er alla vega skilmerkilega skrifað inn í tekjustofnalögin.
En er Jöfnunarsjóður jöfnunarsjóður?
Þessi spurning kemur eðlilega upp í hugann þegar horft er á eftir fúlgum fjár úr sjóðnum til sveitarfélaga sem augljóslega hafa tekjur langt umfram það sem gerist og gengur á landsvísu.
Fimm tekjuhæstu sveitarfélög landsins voru að fá niðurstöðu í dómsmáli sem gerir að verkum að greiða hefur þurft til þeirra ríflega 1300 milljónir króna.
Vissulega harma allir þau lagatæknilegu mistök sem er grundvöllur dómsniðurstöðunnar, að heimildir til skerðingar hafi ekki verið nægjanlega skýrðar í efnisákvæðum laganna, heldur aðeins í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum.
Þessi aðgerð var hins vegar niðurstaða af samtali milli ríkis og sveitarfélaga um leiðir til að bæta gæði jöfnunar, til að skipta kökunni réttlátar og nýta fjármuni hins opinbera betur.
Og þá getur maður spurt – á Jöfnunarsjóður að vera jöfnunarsjóður.
Ef svarið er nei, þá getum við allt eins lagt hann niður og fært þessa fjármuni til sveitarfélaganna eftir einhverjum almennum leiðum, t.d. eftir útsvarstofni þeirra eða öðrum skatttekjum.
Við vitum hins vegar að það myndi hafa mjög alvarlega afleiðingar fyrir sveitarstjórnarstigið, ekki síst úti á landsbyggðinni. Misskipting tekna og aðstöðumunur yrði slíkur að ekki væri við það unað, grundvöllur þessa stjórnsýslustig er brostin víða um land.
Ef svarið er já, þá verðum við að berja í brestina og reyna að halda áfram að styrkja stoðirnar í samræmi við hlutverkið – sem er að jafna og styðja.
Frumvarp um tekjustofna
Þess vegna hef ég nú lagt fram í samráðsgátt Stjórnarráðsins frumvarp til breytinga á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem tryggja þennan tilgang sjóðsins – að vera jöfnunarsjóður.
Frumvarpið felur í sér að umrædd skerðingarheimild til tekjuhæstu sveitarfélaganna er nú fell inn í meginmál laganna. Ennfremur eru gerðar breytingar á öðrum ákvæðum til að styrkja enn frekar ýmsar stoðir fyrir útreikningi einstakra framlaga. Þá felur frumvarpið í sér tillögur um aðlögun á endurgreiðslum annarra sveitarfélaga á ofgreiddum framlögum vegna þessarar dómsniðurstöðu. Að endingu eru tillögur um að hægt verði að leggja til hliðar allt að einn milljarðar árlega í sjóð sem rennur til sameinaðra sveitarfélaga á grundvelli nýrra reglna.
Það getur vel verið að verði hægt að einfalda þetta jöfnunarkerfi enn frekar í náinni framtíð, t.d. í tengslum við árangur sem við vonandi náum í tengslum við þingsályktunartillöguna um stefnumótun í málefnum sveitarfélaga.
Þangað til verðum við að tryggja að Jöfnunarsjóður, miðað við núverandi skipulag og núverandi aðstæður hjá sveitarfélögum vítt og breytt um landið, mismunandi tekjur þeirra og útgjaldaþörf, geti sinnt sínu lögbundna hlutverki – að vera jöfnunarsjóður.
Ég hvet alla sveitarstjórnarmenn, allar sveitarstjórnir, til að virða þessi meginsjónarmið.
Lokaorð – sjálfbærni
Ágætu ráðstefnugestir.
Ég hef lagt út af sjálfbærni í þessu árvarpi mínu.
Það er lykilorð dagsins – samfélagsleg, umhverfisleg og efnahagsleg sjálfbærni er það sem við viljum búa við. Við þurfum mælikvarða, tæki og tól af ýmsu tagi, til að máta okkur við og mæla árangur. Við þurfum samtal og samstöðu um framkvæmd og aðgerðir. En umfram allt þurfum við sameiginlega sýn og markmið að stefna að.
Ég tel að tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga sé einmitt það tæki sem við þurfum á að halda. Þetta er fyrsta áætlun fyrir sveitarstjórnarstigið sem lögð er fyrir Alþingi og ég hlakka til að mæla fyrir henni í næstu viku.
Afgerandi stuðningur aukalandsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga við tillöguna var mjög mikilvægur og gefur góð fyrirheit um framhaldið.
Bestu þakkir.