Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. október 2019 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Öruggar samgöngur eru forgangsmál

Ávarp flutt á ráðstefnu Landsbjargar Slysavarnir 2019 föstudaginn 11. október

Ágætu gestir. 

Öruggar samgöngur eru forgangsmál. Í tillögu að samgönguáætlun sem ég mun mæla fyrir á Alþingi í nóvember er ríkuleg áhersla á öryggi sem í grundvallar atriðum gengur það út á að banaslys í samgöngum séu ekki ásættanleg og að allt skuli gert sem í mannlegu valdi stendur til að koma í veg fyrir þau.

Á undanförnum árum hefur verulegur árangur náðst í öryggismálum og eiga viðbragðsaðilar; lögregla, slökkvilið, Landhelgisgæslan, heilbrigðisstarfsmenn og síðast en ekki síst sjálfboðaliðar björgunarsveitanna, ríkulegan þátt í þeim árangri.  

Ísland hefur með ykkar aðstoð náð eftirtektarverðum árangri í siglingum þar sem banaslys eru orðin afar fátíð og í nokkur ár hefur engin látið lífið á sjó. Þar vegur gæfuríkt samstarf við Slysavarnafélögin þungt, að ekki sé minnst á Slysavarnaskóla sjómanna sem hefur lagt grunninn að þeim frábæra árangri. 

Slysavarnafélögin hafa unnið þrekvirki við björgun á sjó, af því tilefni hefur ríkisstjórnin nú sett á laggirnar starfshóp sem í samstarfi við þau mun vinna tillögu að eflingu björgunarskipanna sem mörg hver eru komin til ára sinna. 

Eftir mörg  góð ár í flugi urðu á þessu ári tvö slys með sorglegum afleiðingum. Viðbragðsaðilarnir voru mættir um leið og köllin bárust og sinntu þeim sem af komust og veittu ómetanlega aðstoð við rannsókn á vettvangi. 

Því miður höfum við ekki borið gæfu til að koma í veg fyrir umferðarslys. Þar er mannlegi þátturinn helsti sökudólgurinn. Árlega slasast um 200 manns alvarlega í umferðinni og margir látið lífið sem er ekki ásættanlegt með öllum þeim sársauka og sorg sem slysunum fylgja. 

Árlegur samfélagslegur kostnaður af umferðarslysum er metinn um 40 til 60 ma.kr. fyrir utan tilfinningalegt tjón.

Aukið öryggi á vegum skiptir höfuðmáli og að því er unnið með flýtingu vegaframkvæmda sem birtist í samgönguáætlun. Ég legg áherslu á að mannslíf og heilsa séu ávallt höfð í öndvegi  og  öryggi metið framar í forgangsröðun aðgerða en ferðatími, þægindi eða önnur markmið framkvæmda og aðgerða í samgöngumálum. 

En hvað veldur alvarlegustu slysunum og hvernig komum við í veg fyrir þau? Ávallt þarf að hafa í huga að  mannleg mistök eru óhjákvæmileg  og það er mikilvægt að við allt skipulag, hönnun og gerð allra samgöngumannvirkja sé tekið mið af því.  

Vissulega veldur óblíð náttúran stundum og óhjákvæmilega slysum. Ástæðan getur einnig verið augnabliks ógát eða andvaraleysi en allt of oft koma aðrir þættir við sögu svo sem notkun snjalltækja undir stýri, áfengis og fíknefnaneysla eða hraðakstur langt umfram getu ökumanns til að stýra tæki sínu.  

Til að breyta hegðun þarf markvissa og góða fræðslu. Einnig hér hefur samstarfið ráðuneytisins og Samgöngustofu við sveitir Landsbjargar verið ómetanlegt. Það eitt að vekja athygli á og stuðla að notkun almennings, ekki hvað síst skólabarna er mikilvægt. 

Verkefni sem hvetja ökumenn til að huga að aksturshæfni sinni þegar þeir eldast, sjónin daprast og viðbragðið lengist.

Verkefnið „Vertu  snjall undir stýri“ er þörf áminning um að nota aldrei snjalltæki undir stýri.  Loks njótum við aðstoðar Landsbjargar við að framkvæma kannanir á hegðun ökumanna um allt land, þar sem m.a. er skoðuð beltanotkun og öryggi barna í bílum, gera úttektir á öryggismálum tengdum umferðinni, halda fræðsluerindi fyrir 10. bekki grunnskólans, ásamt því að vera með fræðsluefni og námsefni um umferðaröryggi. 

Á fundi sem þessum er einnig mikilvægt að minnast á vaxandi hlutverk viðbragðsaðila vegna mikillar fjölgunar ferðamanna.  

Á undanförnum árum hefur gríðarleg breyting orðið á notkun vegakerfisins. Umferðin aukist um nærri 40% og því fylgja áskoranir, miklar áskoranir. Um vegina ferðast, auk íbúa, tugþúsundir ferðamanna dag hvern. 

Segja má að íslenskir þjóðvegir þjóni nú tvennum tilgangi; að vera samgönguæðar milli staða og að vera upplifunarvegir ferðamanna, hlutverk sem oft fara illa saman. 

Brýnt er að fræðsla skili sér til erlenda ökumanna um íslenskar aðstæður. Akstur á malarvegum, um óbrúaðar ár og hálendisslóða eru aðstæður sem margir erlendir ferðamenn eru að upplifa í fyrsta skipti á ævinni. Ég tala nú ekki um þau óvæntu veðrabrigði sem hér geta skollið á fyrirvaralítið svo akstursskilyrði breytast á augabragði.  

Í þessu sambandi vil ég nefna þær góðu ábendingar sem finna má á stýrispjöldunum sem nú fylgja hverjum bílaleigubíl og fjalla um öryggismál sem við teljum sjálfsögð eins og að nota öryggisbelti, því „beltin bjarga“. 

Ekki má heldur gleyma verkefnum eins og SafeTravel og Hálendisvaktinni  sem skipt hafa sköpum fyrir öryggi ferðafólks sem og aðstoð björgunarsveitanna við Vegagerðina í vetrarófærð eða aðrar illar aðstæður.

Við erum heppin á Íslandi. Þegar slys ber að höndum er rétt að muna að við eigum góða að. Hér eru í dag staddir margir fulltrúar þeirra sem ávallt eru viðbúnir að bregðast við þegar kallið kemur og slys hefur orðið. Eldsnögg á  vettvang, í hvaða veðri sem er og yfirgefa ástvini jafnvel á stórhátíðum til að bjarga, hlúa að og koma okkur undir læknishendur, oft við afar erfiðar aðstæður. 

Björgunarsveitirnar láta ekkert aftra sér og eiga margfaldar þakkir skyldar. 

Ég vil þakka Slysavarnafélaginu Landsbjörg og þeim þúsundum sjálfboðaliða sem þar vinna af ósérhlífni og fórnfýsni við fræðslu og forvarnir, leit eða björgun til þess að við hin komumst örugg heim. Við starfsmönnum þeirra blasa við þau stóru og krefjandi verkefni að auka öryggi allra vegfarenda hvort sem þeir fara gangandi, hjólandi akandi , eða ríðandi um vegi landsins, á láglendi jafnt sem hálendi, í þéttbýli sem dreifbýli, sem og þeirra sem sigla eða fljúga um loftin blá.

Ég veit ég tala fyrir hönd allra landsmanna þegar ég  færi ykkur öllum, viðbragðsaðilum og heilbrigðisstarfsfólki þakkir okkar allra fyrir þjónustu þeirra – og einstakt framlag. 

Framundan er spennandi og fræðandi dagskrá. Ég óska ykkur öllum góðra stunda hér á Slysavarnaþingi. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta