Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. nóvember 2019 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Aðalfundur Eyþings

Ávarp
Sigurðar Inga Jóhannssonar,
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra,
á aðalfundi Eyþings, 15. nóvember 2019

 

Ágæta sveitarstjórnarfólk.

Ég þakka fyrir boðið um að ávarpa aðalfund Eyþings hér á Dalvík.

Það er alltaf gott að koma hingað og eiga með ykkur samtal og skiptast á skoðunum um málefni líðandi stundar.

Íbúaþróun og atvinnulíf

Það er iðandi og blómlegt mannlíf á Norðurlandi eystra – hér er stærsti einstaki þéttbýlisstaðurinn utan höfuðborgarsvæðisins og þannig séð ákveðið mótvægi við þéttbýlismyndunina syðra. Hér eru myndarleg landbúnaðarhéruð og framsækin matvælaframleiðsla sem er í sérflokki. Stærstu fyrirtæki landsins í sjávarútvegi eiga hér bækistöð sem skapa gríðarleg verðmæti fyrir landið allt. Við höfum séð ánægjulega uppbyggingu í stóriðnaði sem búa til ný tækifæri í atvinnulífi og stuðla að fjölbreytni hér á svæðinu. Þá hefur ferðaþjónustan blómstrað enda er hér á svæðinu að finna nokkrar af eftirsóttustu náttúruperlum landsins.

Það eru hins vegar ýmsar áskoranir sem þarf að takast á við og nýta má enn betur tækifærin sem svæðið og mannauðurinn hér hefur upp á að bjóða.

Það er t.d. áhyggjuefni að íbúaþróun landshlutans hefur ekki haldið í við íbúaþróunina á landsvísu.

Síðustu 10 ár hefur Íslendingum fjölgað um 12% en á ykkar svæði hefur fjölgunin verið innan við 5%. Íbúum hefur fjölgað mest við Eyfjörðinn og í Skútustaðahreppi, en það er samt áhyggjuefni að Akureyri er rétt rúmlega hálfdrættingur á við þróunina á landsvísu.

Mér finnst koma til greina að Akureyrarbær og sveitarfélögin við Eyjafjörð og ríkið ræði leiðir til að styrkja svæðið enn frekar sem mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Í gildandi byggðaáætlun eru tvær aðgerðir sem annars vegar er ætlað að móta stefnu fyrir höfuðborgarsvæðið og hins vegar að stuðla að betri samvinnu milli vaxtarsvæða og ríkisvaldsins.

Ég sé fyrir mér að við gætum farið í verkefni með Akureyrarbæ sem væri nokkurs konar blanda af þessum tveimur aðgerðum. Í því fælist að við myndum greina tækifærin og leiðir til að styrkja sveitarfélagið og nærsvæðið og móta aðgerðaráætlun til segjum 15 ára til að vinna eftir.

Það er mikilvægt að við höldum áfram að vinna að því að bæta samkeppnishæfni landsbyggðarinnar á sem flestum sviðum, eflum byggð og búsetu sem víðast. Það að hafa sterka og samkeppnishæfa bæi á borð við Akureyri, Húsavík, Dalvík, Ólafsfjörð og Siglufjörð skiptir okkur öll miklu máli.

Nýsköpun er lykilorð á flestum sviðum. Við þurfum að  hugsa í nýjum lausnum – leita leiða til að skapa og endurhanna í okkar samfélagi, til að bæta þjónustuna við íbúana, til að styrkja stoðir atvinnulífs, til að laða að nýja íbúa – til að vaxa og dafna á sjálfbæran hátt.

Sóknaráætlanir landshluta

Og hér skipta sveitarfélögin miklu máli – þið kæra sveitarstjórnarfólk hafið verið valin til að leiða ykkar samfélög áfram og sækja fram fyrir íbúana. Það getið þið auðvitað gert á forsendum hvers sveitarfélags en samstarfið er líka mikilvægt, sameinuð eruð þið sterkari og það eru ótal dæmi um það.

Ég er mjög ánægður með hvernig samvinna sveitarfélaga á vettvangi sóknaráætlana landshluta hafa verið að þróast og hvernig almennt til hefur tekist.

Nýleg úttekt á sóknaráætlunum landshluta kemst að þeirri niðurstöðu að stoðir menningar í landshlutum hafi styrkst og að einhverju leyti samkeppnishæfni þeirra. Margar góðar ábendingar er að finna í úttektinni sem ég geri ráð fyrir að þið haftið horft til við mótun nýrrar sóknaráætlunar fyrir ykkar svæði. Meðal annars er bent á að skynsamlegt væri að búa til hvata í uppbyggingarsjóði, sérstaklega þann hluta sem snýr að atvinnuþróun- og nýsköpun, og nota þannig sóknaráætlanir sem tæki til að auka samkeppnishæfni landshlutanna.

Þá er í úttektinni bent á að áhersluverkefni séu almennt of mörg í hverjum landshluta. Ég vil nota tækifærið til að hvetja ykkur til að skoða hvort vænlegra er til árangurs að velja færri verkefni og sem setja mætti meira fjármagn til og gefa þeim aukin slagkraft og athygli.

Það er líka mikið í húfi því á síðasta ári runnu samtals tæplega 200 milljónir til sóknaráætlunar Norðurlands eystra og þar af var framlag frá ríkinu um 185 milljónir. Fjármagnið fór í menningartengda þætti, styrkingu innviða, uppbyggingar ferðaþjónustu og til nýsköpunar.

Með sóknaráætlunum kemur fram raunverulegur vilji ríkisins til að fela heimamönnum í hverjum landshluta aukið vald og aukna ábyrgð.

Fimm ára gildistími sóknaráætlana er að renna sitt skeið um komandi áramót. Allir landshlutarnir eru að undirbúa nýjar sóknaráætlanir sem gilda munu til ársloka 2024. Sú skiptaregla fjármagns sem stuðst hefur verið við síðustu fimm árin hefur verið endurskoðuð. Grunnframlag ríkisins til Norðurlands eystra verður 118 milljónir króna árið 2020. Til viðbótar koma viðaukasamningar og framlag sveitarfélaganna.

Ég veit að þið eruð langt komin með að vinnu við nýja sóknaráætlun og ég hef líka heyrt að sú vinna gangi vel og að ný sóknaráætlun Norðurlands eystra verði jafnvel enn betra og öflugra tæki.

Byggðaáætlun

Byggðaáætlun gengir einnig lykilhlutverki í að vinna að umbótum og nýsköpun í atvinnulífi. Hún er mikilvægt stjórntæki fyrir ríkisvaldið og einnig sveitarfélögin, og með henni viljum við leita leiða til að tvinna  byggðamál saman við alla málaflokka.

Ég hef talað um að við þurfum að setja upp byggðagleraugun sem víðast – líkt og talað er um jafnréttismálin. Byggðamál eru allsherjarmál, hér bera allir ábyrgð. Ekki bara ríki, eða sveitarfélög, heldur einnig atvinnulífið.

Á því rúma ári sem liðið er frá samþykkt nýrrar byggðaáætlunar hefur margt jákvætt gerst. Okkur hefur tekist á mörgum sviðum að styðja við mörg brýn verkefni á landsbyggðinni.

 Ég er til dæmis stoltur af því hvernig til hefur tekist við framkvæmd á aðgerðinni „sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða“ en þar höfum við á síðustu tveimur árum úthlutað samtals 220 milljónum í gegnum samkeppnissjóð sem eingöngu landshlutasamtök sveitarfélaga sem geta sótt í. Ég hvet ykkur til að skoða það vel þegar auglýst verður næst, sem verður í byrjun næsta árs.

Við þekkjum öll hve vel hefur tekist til við að vinna að framgangi verkefnisins Ísland ljóstengt, en þar hefur byggðaáætlun lagt 100 m.kr. til árlega sem hefur haft það í för með sér að við erum að ná mjög góðum árangri í þessu verkefni.

Næsta stórátak í innviðauppbyggingu sem byggðaáætlun kemur að tengist þrífösun rafmagns og vonandi fáum við fljótlega að heyra nánar um þau áform þegar líður á veturinn.

Byggðaáætlun styður einnig verkefni á sviði félags- og heilbrigðismála. Þannig má nefna tvær aðgerðir sem áætlunin leggur til fé til, annars vegar að jafna aðgang að sérfræðilæknum og hins vegar innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu. Í þessum verkefnum felast raunveruleg tækifæri til að bæta aðstæður fólks um land allt, tryggja betra aðgengi að þjónustu og lækka kostnað við ferðalög.

Þannig að ég get bara verið sáttur við hvernig til hefur tekist við framgang áætlunarinnar og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf á því sviði.

Áskoranir í atvinnulífi

Ágæta sveitarstjórnarfólk.

En þó vel hafi gengið í atvinnulífi þjóðarinnar á umliðnum árum, með tilkomu stóraukins fjölda ferðamanna og nýsköpunar á mörgum sviðum atvinnulífsins, m.a. í sjávarútvegi og líftækni, þá vitum við að góðu árin koma og fara.

Það hafa verið ýmsar blikur á lofti sem þarf að horfa til við stjórn efnahagsmála og á sumum sviðum er samdráttur kominn fram.

Þetta sýnir þó að hlutirnir geta breyst hratt og samfélagið allt, ekki síst ríki og sveitarfélög, þurfa á hverjum tíma að vera í stakk búin til að mæta áföllum, til að takast á við óvæntar uppákomur í atvinnulífi, eða almennt að geta stutt við samfélagið sama hvernig árar.

Ríkisstjórnin er að takast á við þessar áskoranir fyrir landið í heild.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2020 endurspeglar markmið ríkisstjórnarinnar um að vinna gegn skammvinnri niðursveiflu í hagkerfinu í kjölfar samdráttar í ferðamennsku og loðnubrests.

Það er gert án þess að hverfa þurfi frá áformum um uppbyggingu innviða og grunnþjónustu ríkisins við samfélagið á grundvelli þess góða árangurs sem náðst hefur undanfarin ár við að byggja upp fjárhagslegan styrk ríkissjóðs.

Í samræmi við nýlega endurskoðun á fjármálastefnu til fimm ára verður dregið úr áður fyrirhuguðum afgangi af rekstri ríkissjóðs á meðan hagkerfið leitar jafnvægis og fær fótfestu fyrir nýtt hagvaxtarskeið. Leiðarljós þeirrar hagstjórnar er að stuðla að stöðugleika og bættum lífskjörum.

Hér skiptir ábyrg fjármálastjórn sköpum, en um leið þarf að horfa til heildarhagsmuna samfélagsins og til framtíðar, um leið og við forgangsröðun.

Sem fyrr er það ásetningur ríkisstjórnarinnar að standa vörð um mikilvæga uppbyggingu innviða og þjónustu ríkisins. Aukin framlög til opinberra framkvæmda í fjárlagafrumvarpinu vega upp á móti minnkandi atvinnuvegafjárfestingu og eru liður í aðgerðum til að milda áhrif niðursveiflu.

Hlutfallsleg útgjaldaaukning hefur verið mest í samgöngu- og fjarskiptamálum á kjörtímabilinu, eða 25% að raungildi. Á árinu 2020 er gert ráð fyrir ríflega 28 ma.kr. framlögum til fjárfestinga í samgöngum. Þetta eru góðar fréttir, því ekki veitir af eins og þið vitið öll.

Samgöngumál almennt

Fyrir skemmstu kynnti ég drög að nýrri samgönguáætlun. Í samgönguáætluninni er sérstök áhersla lögð á að flýta framkvæmdum innan tímabilsins frá því sem áður var. Einnig eru nýjar stefnur kynntar um flug á Íslandi og almenningssamgöngur milli byggða.

Bein framlög til samgöngumála nema alls tæpum 633 milljörðum króna á fimmtán ára tímabili samgönguáætlunar. Til vegagerðar falla tæp 560 milljarðar, um 37 milljarðar til flugvalla og flugleiðsögu, rúmir 14 milljarðar til hafnamála, rúmir 19 milljarðar í stjórnsýslu, öryggi og eftirlit og rúmir 2,5 milljarðar til Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Þetta er mikil aukning frá því sem fyrri áætlun gerði ráð fyrir, og í sögulegu samhengi er hér um eina mestu fjárfestingaráætlun í samgönguinnviðum sem um getur.

Fjölmörgum framkvæmdum er flýtt á tímabili áætlunarinnar með sérstakri áherslu á að bæta umferðaröryggi og tengingar milli byggða. Á tímabilinu verður framkvæmdum, sem í heild eru metnar á um 214,3 milljarða króna, flýtt. Þar af eru framkvæmdir fyrir um 125,5 milljarða króna utan höfuðborgarsvæðisins og 88,8 milljarða króna í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. 

Auk þess sem fjármagn til viðhalds vega verður aukið talsvert sem mun nýtast vel um allt land.

Samgöngumál Norðausturland

Flugstefna Íslands lítur nú dagsins ljós í fyrsta sinn og er hluti af uppfærðri samgönguáætlun. Fjöldamargar umsagnir bárust í samráðsgátt stjórnvalda nú í október sem varðaði flugstefnuna sérstaklega. Slíkt sýnir mikilvægi þess að flugsamgöngur verði að mæta þörfum fólks, sama hvar er á landinu. Flugsamgöngur skipta Íslendinga miklu sem atvinnugrein, sem lifibrauð fólks. Millilandaflug íslenskra flugfélaga er undirstaða ferðaþjónustunnar auk þess sem erlend flugfélög hafa á síðustu árum aukið markaðssetningu sína með Íslandsferðum. Áætlunarflugferðir til og frá landinu styðja við marga aðra þætti efnahagslífsins og stuðla að verðmætaaukningu í framleiðslugreinum á borð við sjávarútveg og landbúnað. Flugstefnan fjallar um þessar áherslur, að það verði skilvirkt kerfi alþjóðaflugvalla hér á landi sem er samþætt og á einni hendi.

Í því sambandi er mikilvægt að hafa í huga að landfræðileg staða landsins gerir það að verkum að þegar flogið er til Íslands þarf að skrá varaflugvelli erlendis ef annarra varaflugvalla hér á landi nyti ekki við. Með öðrum orðum að uppbygging varaflugvalla á Íslandi er flugöryggisverkefni fyrir þá sem fljúga um Keflavíkurflugvöll. Við erum eyja langt út í ballarhafi og sitjum því ekki við sama borð og margar aðrar þjóðir á meginlandinu. Við þurfum að vera sjálfbær með okkar eigin varaflugvelli.

Flug á varaflugvellina hvort sem er á Akureyri eða Egilsstaði tekur mun skemmri tíma en flug til Skotlands, það er aukakostnaður fyrir flugrekendur að bera viðbótareldsneytisbirgðir til landsins og að fljúga til Skotlands þegar neyðir kallar.

Ein af áherslum flugstefnunnar er að stutt verði við uppbyggingu Akureyrar- og Egilsstaðarflugvalla sem alþjóðlegra fluggátta. Við uppbyggingu verði lög áhersla á að mæta sem best þörfum flugrekanda fyrir varaflugvelli og Egilsstaðaflugvöllur verði að því leyti í forgangi.

Fjármagni til framkvæmda á flugvöllum landsins er forgangsraðað í þágu flugöryggis sem Isavia vinnur fyrir ráðuneytið.

Undanfarna mánuði höfum við verið að skoða með Isavia þann möguleika að Isavia taki að sér það hlutverk að sjá um rekstur og uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar. En um flugöryggismál er að ræða og þörfin fyrir framkvæmdirnar og þjónustuna miðast við að skapa aðstöðu til að taka við nægu magni af fjölda véla í neyðarástandi.

Það að Isavia taki við rekstri og uppbyggingu Egilsstaðarflugvallar býr til svigrúm strax á næsta ári sem felst í viðbótarfjármagni sem nýtist til viðhalds á öðrum flugvöllum. Ástandið er vægast sagt orðið mjög bágborið víða og má sem dæmi nefna að sérstaklega voru gerðar athugasemdir við að lítið fjármagn sé ætlað til slíkra framkvæmda á Akureyrarflugvelli þrátt fyrir mikla og aukna þörf.

Samhliða þessu er unnið að því að finna leiðir til þess að auka fjármagn og nýta í viðhald á flugvöllum landsins og jafna aðstöðumun landsmanna. Þá er mikilvægt að náðst hefur samstaða um aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu, sem einnig hafa jákvæð áhrif á tengingar þess við landsbyggðina. Sáttmáli ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu felur í sér sameiginlega sýn og heildarhugsun fyrir fjölbreyttar samgöngur á svæðinu.

Það er þörf á samgöngubótum um land allt og það er bjargföst trú mín að með betri og fjölbreyttari samgöngum megi byggja sterkara samfélag. Aukið öryggi á vegum skiptir höfuðmáli en sömuleiðis framkvæmdir til að stytta leið fólks milli byggðarlaga sem aftur eflir atvinnusvæðin.

Sjálfbær sveitarfélög

Nýrri tillögu til þingsályktunar um stefnumótun ríkisins í málefnum sveitarfélaga er ætlað að auka sjálfbærni sveitarstjórnarstigins á landsvísu. Sjálfbærni þarf að vera leiðarljós fyrir okkur á öllum sviðum, í umhverfismálum, félagsmálum og efnahagsmálum, öll okkar stefnumótun og aðgerðir þurfa að miða við það.

Markmið stefnunnar eru skýr, en þau eru

•           að sveitarfélög á Íslandi verði öflugur og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi,

•           að sjálfsstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt

og að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.

Stefnumörkuninni fylgir aðgerðaráætlun til fimm ára og tilgreindar eru ellefu aðgerðir sem vinna ber að til að ná settum markmiðum.

Þetta er metnaðarfull áætlun – og við það stend ég þó ég viti að mörgum finnist tillagan sumpart ganga of skammt og öðrum of langt.

Ég er hins vegar sannfærður um það, gangi þessi tillaga fram og fái stuðning Alþingis, þá er stigið mjög mikilvægt skref í þá átt að efla sveitarstjórnarstigið og bæta þjónustu við íbúana.

Það var því mjög ánægjulegt að aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga skyldi bakka stefnumörkunina upp með svo afgerandi hætti sem raun bar vitni, það gefur mjög góð fyrirheit um framhaldið.

Ég vil líka hrósa forystu sambandsins fyrir framsýni og faglega nálgun í þessu verkefni öllu.

Lokaorð

Kæra sveitarstjórnarfólk.

Verum bjartsýn og jákvæð, framtíðin ef björt og ef við stöndum saman og vöndum okkur við það sem við erum að gera.

Við erum að þjóna íbúum sveitarfélaganna, einstaklingum, fjölskyldum, fullorðnum en ekki síst börnum. Það er okkar metnaður að vinna af dugnaði og heiðarleika fyrir land og þjóð með samvinnuna sem leiðarljós.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta