Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. nóvember 2019 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ávarp á minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

 

Forseti Íslands, aðstandendur, fulltrúar heilbrigðisstétta, lögreglu, björgunarsveita, samgöngustofnana og aðrir gestir.

 

  • Í dag minnumst við þeirra sem hafa látist í umferðarslysum í heiminum og höldum alþjóðlegan minningardag sem helgaður er þeim.
  • Ég vil segja það í upphafi að við erum hér bæði vegna þeirra og einnig vegna allra hinna sem eftir standa og syrgja. Við erum hér saman komin vegna hvers annars. Því þó við viljum oft syrgja ein þá erum við mannfólkið þannig gert að hluti af því að syrgja er að deila þeirri tilfinningu með öðrum.
  • Ég vil líka nefna sérstaklega þátt þeirra sem koma að því að líkna og liðsinna eftir umferðarslys. Þetta er ekki síst ykkar dagur. Þið eigið stóran þátt í að draga úr tíðni dauðaslysa.
  • Það eru alltaf einhverjir sem þola, einhverjir sem gera og aðstoða og einhverjir sem málið snertir með öðrum hætti. Það er alltaf samfélag. Við erum þetta samfélag. Þetta er okkar dagur.
  • Umferðarslys eru sorglegur hluti af tilveru okkar og það sárgrætilegasta við það er að stórt hlutfall sem látast eða örkumlast í umferðarslysum eru ungt fólk. Þau hafa fylgt okkur í yfir heild öld. En fyrr á þessu ári höfðu tæplega 1.580 látist í umferðinni hér á landi frá því að fyrsta banaslysið varð árið 1915 samkvæmt samantekt Óla H. Þórðarsonar.
  • Þegar ég stóð hér á þessum stað fyrir um ári síðan höfðum við misst 13 manns í umferðarslysum það árið. Í ár höfum við misst 5 manns. Það eru 5 of margir, þrátt fyrir að umferðarslysin séu færri í ár. Við eigum aldrei að þurfa að sætta okkur við slys. Baráttunni lýkur seint eða kannski aldrei. Því ef ekki verður brugðist við með afgerandi hætti í baráttunni gegn umferðarslysum í heiminum er því spáð að árið 2030 verði banaslys í umferðinni sjöunda algengasta dánarorsökin.

    Að meðaltali slasast árlega 178 manns alvarlega í umferðinni hér á landi og því miður er það svo að vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni.

    Ljóst er umferðarslys eru eitt af þurftarfrekustu heilbrigðisvandamálum þjóðarinnar og kosta samfélagið bæði mikla fjármuni og vinnu. Þá eru ótaldar allar sálarkvalirnar, sorgin og vonbrigðin sem eru óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að fólki í blóma lífsins er skyndilega kippt í burtu eða það svipt færninni til þess að lifa og starfa með eðlilegum hætti.

    Tjónið sem þjóðir heims bera af völdum umferðarslysa nemur um 3% af vergri landsframleiðslu hvers árs. Árið 2018 lætur nærri að sú upphæð sé 84 milljarðar króna hér á landi. Að baki þessum köldu tölum eru sögur af föður eða móður, syni eða dóttur, bróður eða systur, barni eða barnabarni, samstarfsélaga, vini eða skólafélaga sem hafa orðið fórnarlömb umferðarslysa. Að baki einum slösuðum eða látnum er fjöldi ástvina sem einnig eru skertir lífsgæðum og munu stríða við sorg og missi sem varið getur alla ævi.

  • Einn þessara einstaklinga kemur hér fram í dag sem fulltrúi þeirra tugþúsunda aðstandenda sem eiga um sárt að binda. Ása Ottesen mun segja okkur sögu sína en fyrir 22 árum missti hún 2 ára gamlan bróður sinn í umferðarslysi. Nú síðast liðið sumar slasaðist systir hennar alvarlega í umferðarslysi.

     

    Ég sagði áðan að baráttunni gegn umferðarslysum má aldrei ljúka. Margir þættir spila inni og er vegakerfið einn hluti þess sem þarf að halda áfram að laga og bæta.

    Við hönnun og smíði umferðarmannvirkja er áhersla lögð á öryggi þeirra, þ.e. að þau þyrmi þeim sem um þau fara ef eitthvað fer úrskeiðis. Dæmi um þetta er aðskilnaður akstursstefnu sem Vegagerðin leggur í dag mikil áhersla á. Uppsetning vegriða er annað mikilsvert atriði og fækkun einbreiðra brúa í vegakerfinu.

    Með öflugri fræðslu og kynningum Samgöngustofu og fleiri aðila hefur áunnist mikið í því að fækka slysum. Þá bera að minnast sérstaklega á það sem hefur áunnist í því að breyta viðhorfi okkar til umferðarinnar. Það sem sumum þótti áður vitna um hugrekki og djörfung þykja nú dæmi um hættulegt athæfi.

  • Ábyrgðin er þó ætíð okkar vegfarendanna sjálfra. Við getum ekki komið henni á aðra. Hún er okkar sjálfra. Því miður er það enn þannig að flest slys eru afleiðing mannlegrar hegðunar. Algengustu orsakir umferðarslysa eru of mikill hraði, akstur undir áhrifum, að bílbelti eru ekki notuð, að athygli ökumanna er við annað en aksturinn t.d. við að nota síma eða annað snjalltæki. Þannig mætti lengi telja. Þetta er áhættuhegðun sem við verðum að stöðva.

 

Nokkur orð til viðbragðsaðila

Til ykkar sem takið þátt í þeim viðbrögðum sem verða þegar slys á sér stað.

  • Þakka ykkur fyrir. Þakka ykkur fyrir það sem þið gerið og að gera það við erfiðar og stundum óbærilegar aðstæður.Þakka ykkur fyrir öll erfiðu augnablikin sem þið þurfið að takast á við. Þakka ykkur fyrir það sem þið þurfið að bera og getið ekki deilt nema innan ykkar hóps. Þakka ykkur fyrir að vera okkur fyrirmyndir. Þakka ykkur fyrir að láta okkur finna að í okkar samfélagi er fólk sem telur ekki eftir sér að taka þátt því að gera samfélagið betra. Samfélagi þar sem hver og einn skiptir máli. Starf ykkar skiptir okkur miklu máli. Þið skiptið okkur miklu máli.
  • Þið öll sem hér standið. Einnig þið öll sem tilheyrið þessum hópi en eruð ekki hér í dag. Þakka ykkur kærlega fyrir.

    Minningarreitur

  • Mig langar til að minnast á þá hugmynd sem fram hefur komið að láta gera hér við þennan stað minningarreit um þá sem hafa látist í umferðarslysum.
  • Við í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu sendum borgarstjóra Reykjavíkur erindi þar sem farið var þess á leit að borgin ráðstafaði reit í þessum tilgangi. Borgin tók því afar vel. Minningareiturinn verður við nýjan Landspítala við Hringbraut. Hann verður þar sem minningarreitur fyrir fórnarlömb umferðarslysa en ekki síður athvarf og friðarreitur fyrir þá sem eiga um sárt að binda.

Góðir gestir

Missir þeirra sem átt hafa ástvini í banaslysum er mikill. Honum er erfitt að lýsa með orðum. Honum er lýst með tilfinningum. Tilfinningu sem við sem hér erum saman komin skiljum ofur vel. Við erum hér með öðrum sem deila sömu reynslu. Við skiljum hvert annað. Látum ekki þar staðar numið. Setjum fordæmi. Leggjum í hverja ferð minnug þess sem getur gerst, bætum hegðun okkar allra og strengjum þess heit að koma heil heim.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta