Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. nóvember 2019 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Framtíð fjarskipta á Íslandi - ávarp á hádegisfundi SKÝ

Framtíð fjarskipta á Íslandi

Hádegisfundur Ský, um framtíð fjarskipta á Íslandi.
20. nóvember 2019, Grand Hótel Reykjavík

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

 

Ágætu fundarmenn,

árið 2017 fór Ísland í efsta sæti á lista Alþjóða fjarskiptasambandsins (ITU) yfir þær þjóðir sem lengst hafa náð við uppbyggingu og nýtingu upplýsinga- og fjarskiptatækni. Þessi kvarði er nefndur „ICT Development Index“. Að baki kvarðanum eru 11 þættir sem ekki eru allir tæknilegir. Til dæmis skipta þættir eins og læsi og menntunarstig máli en einnig hlutfall þeirra sem nota internetið, hlutfall heimila með fastar tengingar, hlutfall farsímaáskrifta og heimila sem eiga tölvu. Einnig skiptir máli hve góða tengingu landið hefur við internetið metið í bitum á sekúndu fyrir hvern íbúa.

Að setjast í efsta sæti listans má telja undraverðan árangur hjá þjóð sem býr í stóru landi í N-Atlantshafinu langt frá öllum meginleiðum internetsins. Til dæmis eru internettengingar Íslendinga kostnaðarsamari en flestra nágrannaþjóða af því að okkar tengingar þurfa að fara um ljósleiðarastrengi neðansjávar inn á tengistaði internetsins, strengi sem eru miklu lengri en hjá flestum nágrannaþjóðum. Strjálbýlið og fámennið á Íslandi vinna einnig á móti netvæðingu enda er augljóst að kostnaðarsamt er að tengja fjarlægar byggðir með hröðum netum og fámennið veldur því að kostnaðurinn skiptist á fáa.

Við erum í einstakri stöðu hvað varðar nýtingarmöguleika netsins. Hins vegar höfum við ekki nýtt okkur þessa möguleika sem skyldi og stöndum þar talsvert að baki þeirra þjóða sem lengst eru komnar á því sviði. Til dæmis er ýmis þjónusta hins opinbera ekki orðin nægilega rafræn til þess að hægt sé að veita hana um okkar frábæru fjarskiptanet. Við erum meðvituð um þetta og unnið er hörðum höndum víða í stjórnkerfinu að því að bæta úr. Ég á von á því að á næstu misserum verði umtalsverðar breytingar til batnaðar á þessu sviði. Við Íslendingar búum yfir frábærum fjarskiptanetum og kannski eigum við að staldra við og huga að því hvernig við getum nýtt þau enn betur. Hér bíða ótal kostir, bæði í þjónustu opinberra og einkaaðila. Við þekkjum þegar ýmsa nýja fjármálaþjónustu sem fer alfarið gegnum netið en einnig eru margir ónýttir möguleikar í heilbrigðisþjónustu, menntun og gagnvart fjarvinnu. Til dæmis heyrði ég nýlega af þeim möguleika að stunda sjúkraþjálfun gegnum netið, sem getur hentað vel fyrir sumar tegundir meðferðar. Allt stuðlar þetta að meiri þægindum landsmanna, fækkar ferðum, lengir tímann sem við höfum til annarra hluta og minnkar kolefnissporið.

Við vinnum nú eftir nýrri fjarskiptaáætlun sem gildir fyrir árin 2019-2033 og var samþykkt á Alþingi sl. vor. Í henni er sett fram framtíðarsýn og meginmarkmið stjórnvalda á sviði fjarskipta. Þau eru að Ísland verði áfram í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tækni tengi saman byggðir landsins og Ísland við umheiminn með umhverfissjónarmið í huga. Áherslur til þess að ná þessum markmiðum felast m.a. í því að

  • Aðgengi lögheimila og atvinnuhúsnæðis að ljósleiðara verði 99,9%.
  • Þrír virkir fjarskiptastrengir tengi landið við Evrópu frá mismunandilandtökustöðum.
  • Við styrkta lagningu ljósleiðarakerfa verði hugað sérstaklega að stofnleiðum, radíófjarskiptastöðum og samtengingu kerfa.

Á sviði farneta felast markmiðin í því að

  • Íslendingar verði meðal forystuþjóða í hagnýtingu fimmtu kynslóðar farneta, 5G.
  • Farnetssamband verði tryggt, meðal annars í þéttbýli, á þjóðvegum, fjölsóttum ferðamannastöðum og við strendur landsins.

Fjarskiptaáætlunin hefur einnig að geyma markmið um örugg fjarskipti. Við höfum því miður fengið sífellt fleiri fréttir af miklu tjóni fyrirtækja sem hafa orðið fyrir netglæpum og tjón einstaklinga er einnig tilfinnanlegt þó að það fari ekki hátt í fréttum. Netglæpir eru ekki lengur stundaðir af einstaka „nördum“ sem hafa ekki aðrar hvatir en þær að sýna hve klárir þeir eru. Nú eru netglæpir framdir af samtökum glæpamanna sem búa oft yfir mikilli og djúpri þekkingu á upplýsinga- og fjarskiptatækni og jafnframt þeirri starfsemi sem þeir ráðast á. Tjón okkar Íslendinga vegna glæpa af þessu tagi er mjög vaxandi og brýnt er að þjóðfélagið bregðist við bæði hart og fljótt. Á sl. vori samþykkti Alþingi ný lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða og taka þau gildi 1. september á næsta ári. Nú er unnið að undirbúningi gildistöku þessara laga í ráðuneytinu í samvinnu við eftirlitsstofnanir. Mjög brýnt er að auka vitund fólks og fyrirtækja um netöryggismál og stuðla að víðtæku samstarfi opinberra aðila og einkageirans til að ná fram sem bestum árangri í baráttunni gegn netglæpum.

Góðir gestir,

stærsta lagalega verkefnið sem nú er í vinnslu í stjórnsýslunni á sviði fjarskipta er undirbúningur nýrrar heildarlöggjafar um fjarskipti. Þessi löggjöf er í daglegu tali kölluð Kóðinn. Um er að ræða stórt og flókið verkefni sem felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins -  og er starfandi vinnuhópur sem í eiga sæti fulltrúar ráðuneytisins og Póst- og fjarskiptastofnunar. Í lok ágúst var haldinn opinn fundur um þetta frumvarp hér á Grand Hótel og segja má að þar hafi hafist opið samtal milli þeirra sem skrifa frumvarpið og hagsmunaaðila. Þegar kemur að því að frumvarpsdrög verði lögð fram til umsagnar í samráðsgáttinni vil ég hvetja ykkur til að leggja inn umsagnir þannig að hægt sé að bregðast við þeim og eftir atvikum breyta frumvarpinu áður en frumvarpið gengur til ríkisstjórnar og Alþingis.

Við búumst við að frumvarpsdrögin verði birt í samráðsgáttinni innan fárra daga en stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fram á vorþingi 2020.

Með nýju lögunum færum við löggjöf hér á landi til samræmis við nýendurnýjað samevrópskt regluverk á sviði fjarskipta og uppfyllum þar með tímanlega fyrirsjáanlegar skuldbindingar íslenska ríkisins að þjóðarrétti.

Að lokum,

á vegum verkefnisins Ísland ljóstengt er nú verið að ljúka við ljósleiðara-tengingu til Mjóafjarðar, sem verður seinasti byggðakjarninn í landinu sem fær slíka tengingu. Þar með opnast öll undur internetsins þessum afskekktu landsmönnum okkar og þeir munu m.a. geta fengið þjónustu sjúkraþjálfara sem geta verið staddir í mörg hundruð km fjarlægð.

Það er ánægjulegt að segja frá því að Ísland ljóstengt hefur verið áherslumál Framsóknarflokksins. Segja má að kveikjan að alvöru umræðu og undirbúningi þessa mesta byggðaverkefnis seinni ára, sé grein sem ég skrifaði í mars 2013 og bar yfirskriftina ,,Ljós í fjós“. Þá var mér og öðrum þegar orðið ljóst að ljósleiðaratæknin væri framtíðarlausn fyrir landið allt og ekki síst fyrir dreifbýlið þar sem erfiðara eða jafnvel ógjörningur er að beita annarri þráðbundinni aðgangsnetstækni. Það kom líka seinna í ljós að það þurfti samvinnuleið til að klára landsátakið á skynsamlegan hátt.

Ég óska ykkur góðs og gagnlegs fundar og þakka áheyrnina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta