Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. janúar 2020 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ísland tækifæranna 2020

Greinin birtist í nýársblaði Fréttablaðsins fimmtudaginn 2. janúar 2020

Nú er upp runnið árið 2020. Þetta er fallegt ártal og ég heyri á mörgum að þeir hafa góða tilfinningu fyrir þessu ári. Ég er einn þeirra.

Árið 2019 var mikill prófsteinn á styrk ríkisstjórnarinnar og þá ekki síður íslenska hagskerfisins. Við stóðum fyrir réttu ári frammi fyrir hörðum deilum á vinnumarkaði sem leystar voru með tímamótasamningum sem kallaðar hafa verið Lífskjarasamningurinn. Það var mikið högg þegar Wow air varð gjaldþrota og ekki var það síður mikill skellur þegar loðna fannst ekki við strendur Íslands. Það sýndi svo ekki verður um það deilt að íslenskt hagkerfi er sterkt að þola slík áföll. Við höfum frá hruni náð að byggja okkur upp þannig að kaupmáttur hefur aldrei verið meiri og lífsgæði almennt með því besta sem gerist í heiminum.

Í mínum huga er mikilvægasta verkefni stjórnmálanna að skapa umgjörð fyrir fólk til að nýta hæfileika sína og auka þannig lífsgæði sín og lífshamingju. Við erum svo lánsöm á Íslandi að búa í þjóðfélagi þar sem félagslegur hreyfanleiki er mikill og stéttskipting með því minnsta sem gerist og gengur í samfélögum. Það þýðir ekki að allir séu ánægðir og sáttir heldur að allir hafi tækifæri til að verða ánægðir og sáttir.

Það sem er mér efst í huga um þessi áramót er að hvetja ungt fólk til þátttöku í stjórnmálum. Við höfum séð það á síðustu árum að ungt fólk hefur mikið að segja og vill taka þátt í að skapa framtíð sína. Besti farvegurinn fyrir þann kraft sem yngri kynslóðir eiga í brjósti sínu er að taka þátt í stjórnmálastarfi. Framsókn hefur borið gæfa til að eiga í röðum sínum öflugt ungt fólk sem hefur barist fyrir hagsmunum yngri kynslóða. Forysta Framsóknar hefur í gegnum tíðina hlustað á þessar raddir og til dæmis hrint mikilvægum baráttumálum yngra fólks í framkvæmd og vil ég þar sérstaklega nefna fæðingarorlof en flokkurinn hefur bæði hrint í framkvæmd því brýna jafnréttismáli sem fæðingarorlof feðra er og nú rétt fyrir jól var samþykkt á Alþingi frumvarp félags- og barnamálaráðherra um lengingu fæðingarorlofs úr 9 mánuðum í 12.

Annað brýnt mál sem snýr sérstaklega að ungu fólki er frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um nýjan Menntasjóð námsmanna. Þar er um byltingarkennda breytingu að ræða, ekki síst hvað varðar niðurfellingu 30% af námsláni að gefnum ákveðnum skilyrðum. Í frumvarpinu er einnig áberandi sú stefna að nám eigi að vera öllum aðgengilegt, óháð fjárhag og búsetu. Í þessu kristallast stefna Framsóknar frá stofnun flokksins.

Breytingar eru hluti af lífinu. Ungt fólk er í vaxandi mæli drifkraftur breytinga. Viðhorf ungs fólks í umhverfismálum er mikilvægur þáttur í vaxandi meðvitund allra um mikilvægi þess að takast á við loftlagsvandann. Ungt fólk er viljugt til að breyta lífsháttum sínum til að tryggja komandi kynslóðum betri heim. Hluti af þessum breyttu kröfum kemur fram í Samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Í honum felst að margra áratuga stöðnun í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu er rofin með fjölþættum aðgerðum sem miða að fjölbreyttum samgöngum.

En unga fólkið er ekki aðeins búsett á suðvesturhorni landsins. Það er mikilvægt að þau skilyrði séu sköpuð um allt land að fólk geti sest þar að og átt gott líf. Samgöngur, fjarskipti, raforka, heilbrigðisþjónusta og menntun eru þar í lykilhlutverkum.

Það býr mikill kraftur í íslensku samfélagi. Þann kraft þurfum við að leggja áherslu á að virkja. Við stöndum frammi fyrir miklum breytingum þegar sjálfvirknivæðing og gervigreind fjórðu iðnbyltingarinnar verða að veruleika. Lykillinn að því að Ísland standi framarlega meðal þjóða er að leiða saman ólíka krafta og byggja upp fjölbreytt samfélag sem þar sem allir hafa tækifæri til að skapa sér gott líf.

Ég óska öllum landsmönnum gleðilegs árs og hlakka til að vinna að frekari umbótum í íslensku samfélagi. Þar verður samvinnan í aðalhlutverki.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta