Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. mars 2020 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Óháð úttekt á Landeyjahöfn

Greinin var birt á vefmiðlinum Eyjar.net 11. mars 2020

Opnun Landeyjahafnar árið 2010 markaði mikil tímamót í samgöngumálum íbúa og fyrirtækja í Vestmannaeyjum. Fyrsta árið nær tvöfaldaðist farþegafjöldi Herjólfs á og fyrir ári síðan var annað framfaraskref stigið þegar fargjöld íbúa í Vestmannaeyjum voru lækkuð og sama gjald tryggt, óháð í hvora höfnina er siglt.

Landeyjahöfn var frá upphafi hönnuð með nýtt skip í huga og til stóð að taka hvort tveggja í notkun á sama tíma, nýja höfn og nýtt skip sem yrði sérhannað fyrir höfnina með a.m.k. 1,5 metra minni djúpristu en gamli Herjólfur. Til stóð að semja um smíði á nýju skipi á síðustu mánuðum ársins 2008 en eftir hrun bankanna voru ekki lengur forsendur til þess. Það hefur legið fyrir að Landeyjahöfn myndi ekki nýtast að fullu fyrr en ný sérhönnuð ferja hæfi þangað siglingar og að ekki yrði hægt að þróa höfnina að fullu fyrr en reynslan af siglingu slíkt skips lægi fyrir. 

Nýr Herjólfur hóf siglingar síðastliðið sumar. Skipið hefur þegar sannað gildi sitt, stjórnhæfni þess er góð og ferðum hefur fjölgað. Þá hefur Vestmannaeyjabær tekið við stjórn rekstrarins. Ákveðinni óvissu hefur því þegar verið eytt. Endanlegri þróun Landeyjahafnar er þó ekki lokið og er skiljanlegt að Vestmannaeyinga sé farið að lengja eftir því. Ég hef áður sagt og stend við það að ég hef hug á því að þeirri þróun ljúki sem fyrst. Það er í samræmi við vilja Alþingis sem ályktaði í desember síðastliðnum að hefja óháða úttekt á Landeyjahöfn í samræmi við samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 og fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023 og að henni verði lokið eigi síðar en 31. ágúst 2020.

Ráðuneytið auglýsti því með svokölluðu örútboði eftir óháðum sérfræðingum til að rýna gögn Vegagerðarinnar og rannsóknir sem hafa verið gerðar á Landeyjahöfn og koma með vel rökstuddar og skilgreindar tillögur til úrbóta sem væri hægt að framkvæma strax eða prófa í líkani. Örútboð er fljótvirk útboðsaðferð og í samræmi við innkaupareglur.

Tillögurnar verða nýttar til að sníða útboð til endurbóta á höfninni. Mikilvægt er að úttektin einskorðist ekki aðeins við gögn og rannsóknir varðandi dýpi Landeyjahafnar heldur verði einnig litið til annarra þátta sem geta haft áhrif á nýtingu hafnarinnar. Ég bind vonir við að hægt verði að ráðast strax í úrbætur að lokinni úttektinni. Ef í ljós kemur að rannsaka þurfi einstaka lausnir betur, verður það gert. Það yrði annað sjálfstætt verk.

Það er brýnt að vandað verði til verka þegar aflað er svara um hvað þurfi að gera til að tryggja að Landeyjahöfn geti þjónað hlutverki sínu að fullu. Svörin þurfa að byggja á skilningi á þeim flóknu aðstæðum sem eru við höfnina og vandaðri greiningu. Það mun skila mestum árangri til framtíðar. Áfram veginn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta