Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. apríl 2020 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Íslensk matvæli, gjörið svo vel

Birt í Morgunblaðinu 23. apríl 2020

Í öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar Viðspyrna fyrir Ísland er lögð mikil áhersla á innlenda framleiðslu og verðmætasköpun. Nýsköpun er þar í öndvegi enda lengi verið ljóst að skjóta verður fleiri stoðum undir íslenskan efnahag.

Síðustu vikurnar hefur helsta umræðuefni fólks um heim allan verið heilsa og heilbrigði. Fólk óttast þennan vágest sem kórónuveiran er og leggur mikið á sig til að komast hjá smiti. Veikindin leggjast misþungt á fólk og hefur ekki verið útskýrt að fullu hvað veldur þeim mun. Hins vegar er ljóst að sumir hópar eru veikari fyrir en aðrir og hefur til dæmis í Bandaríkjunum verið bent á að þeir sem stríða við lífsstílssjúkdóma geta orðið sérstaklega illa fyrir barðinu á Covid-19.

Þegar heilsan er okkur svo ofarlega í huga þá er ekki laust við að maður þakki fyrir þá öfundsverðu stöðu sem við Íslendingar erum í varðandi matvælaframleiðslu, hvort heldur það er landbúnaður eða sjávarútvegur. Rúmt ár er nú frá því við í Framsókn héldum fjölmennan fund þar sem Lance Price, prófessor við Washington háskóla, hélt fyrirlestur um þá ógn sem mannkyninu stafar af sýklalyfjaónæmum bakteríum. Á sama fundi hélt erindi Karl G. Kristinsson, helsti sérfræðingur okkar í sýklafræði, og sjáum við honum bregða fyrir á skjánum um þessar mundir í tengslum við heimsfaraldurinn sem nú herjar á okkur. Fundinn héldum við til að vekja fólk til vitundar um að sérfræðingar telja að árið 2050 muni tíu milljónir manna deyja í heiminum af völdum sýklalyfjaónæmis og ekki vildum við síður benda á þau verðmæti sem felast í íslenskum landbúnaði sem er ásamt Noregi með minnsta notkun sýklalyfja í landbúnaði í heiminum.

Matvælaframleiðsla er gríðarlega mikilvægur þáttur í íslenska hagkerfinu og sannkallaður lýðheilsufjársjóður. Ríkisstjórnin ákvað í fyrra að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum til að banna sölu og dreifingu á matvöru, kjöti, fiski og grænmeti, sem innihalda sýklalyfjaónæmar bakteríur. Þannig verndum við heilsu Íslendinga og undirstrikum þau miklu gæði sem einkenna íslenska matvælaframleiðslu.

Hluti af öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar er aukinn stuðningur við grænmetisbændur, bæði beinn og einnig með endurgreiðslu kostnaðar vegna dreifingar og flutnings raforku bænda. Þar er stigið gríðarlega mikilvægt skref til að efla greinina og munu íslenskir neytendur njóta þess þegar framleiðsla á íslensku grænmeti eykst. Vonandi stendur verslunin með þjóðinni og íslenskum matvælaframleiðendum og gefur íslensku grænmeti heiðurssess.

Það er bjargföst trú mín að það eru gríðarleg tækifæri framundan fyrir íslenskan landbúnað og íslenskan sjávarútveg. Því ef fólk er almennt orðið meðvitaðra um heilsuna þá hugsar það meira um hvað það lætur ofan í sig. Ég segi því að lokum: Íslenskt, gjörið svo vel.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta