Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. júlí 2020 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Stóra stökkið í samgöngum

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. júlí 2020

Nýsamþykkt samgönguáætlun sem nær til áranna 2020-2034 er stórt stökk í samgöngum á Íslandi. Þetta er ein mikilvægasta áætlun sem ríkið stendur að enda er samgöngukerfið, vegakerfið, flugvellir og hafnir, líklega stærsta eign íslenska ríkisins, metið á tæpa 900 milljarða króna. Aldrei áður hefur jafnmiklum fjármunum verið varið til samgangna og gert er í þessari áætlun sem á eftir að skila sér í öruggari og greiðari umferð um allt land. 

Stóra byggðastefnan

Í nágrannalöndum okkar er stundum talað um stóru byggðastefnuna þegar rætt er um samgönguáætlanir landanna. Í samgönguáætlun felast enda gríðarlega miklir hagsmunir fyrir samfélögin vítt og breytt um landið. Efnahagslegir hagsmunir eru líka mjög miklir því allar styttingar á leiðum innan og milli svæða fela í sér þjóðhagslegan sparnað.

Skoska leiðin – niðurgreiðsla á fargjöldum

Samgönguáætlunin sem ég lagði fram í lok ársins 2019 og var samþykkt á Alþingi á mánudag markar að mörgu leyti tímamót. Innan hennar er fyrsta flugstefna sem gerð hefur verið á landinu þótt flug á Íslandi hafi átt aldarafmæli á síðasta ári. Eitt af stóru málunum er að í haust hefur það sem í daglegu tali hefur verið nefnt „skoska-leiðin“ göngu sína. Í henni felst að ríkið mun greiða niður hluta af flugfargjaldi þeirra sem búa á landsbyggðinni. Það er mikið réttlætismál að þeir sem búa fjarri höfuðborginni og vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað fái niðurgreiðslur á ferðum sínum með flugi. Þetta er mikilvægt skref í því að jafna aðstöðumun þeirra sem búa annar staðar en á suðvesturhorninu.

Greiðar og góðar samgöngur fyrir alla ferðamáta

Innan samgönguáætlunar er einnig sérstök áætlun um almenningssamgöngur milli landshluta. Þar er líka mikil áhersla á uppbyggingu, göngu- og hjólastíga og reiðvega. Það því mikil áhersla lögð á alla fararmáta til að mæta kröfum sem flestra um greiðar og góðar samgöngur.

Samvinnuverkefni flýta framförum

Samhliða samgönguáætlun voru líka samþykkt lög um samvinnuverkefni í samgöngum sem byggja á Hvalfjarðargangamódelinu. Þau verkefni sem falla undir löggjöfina eru ný brú yfir Ölfusá ofan Selfoss, láglendisvegur og göng í gegnum Reynisfjall, ný brú yfir Hornafjarðarfljót, nýr vegur yfir Öxi, önnur göng undir Hvalfjörð og hin langþráða Sundabraut. Allt eru þetta verkefni sem fela í sér verulega styttingu leiða og aukið öryggi en þeir sem vilja ekki nýta sér þessi mannvirki geta áfram farið gömlu leiðina en munu þá verða af þeim ávinningi, fjárhagslegum og varðandi öryggi.

Rafvæðing ferja og hafna

Á síðasta ári urðu þau tímamót að nýr Herjólfur hóf siglingar milli Eyja og lands. Ekki er síst ánægjulegt að ferjan er knúin rafmagni, svokölluð tvinn-ferja. Áfram verður hlúð að almenningssamgöngum með ferjum. Mikil fjárfesting verður í höfnum víða um land og áhersla lögð á að búa þær búnaði til að skip geti tengst rafmagni til að vinna gegn óþarfa útblæstri.

Tímamót í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu

Að síðustu vil ég nefna að með samgönguáætlun og samþykkt laga um stofnun hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðisins er stigið stærsta skref sem stigið hefur verið í uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Byggja þær framkvæmdir á samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem undirritaður var í fyrra. Með honum var höggvið á þann hnút sem hefur verið í samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og komið hafði í veg fyrir alvöru uppbyggingu á svæðinu. Sáttmálinn markar tímamót sem mun skila sér í greiðari samgöngum, hvort sem litið er á fjölskyldubílinn, almenningssamgöngur eða gangandi og hjólandi umferð.

Ég bið alla um að fara varlega í umferðinni í sumar og sýna tillit þeim fjölmörgu sem vinna við uppbyggingu og endurbætur á vegunum. Góða ferð á íslensku ferðasumri.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta