Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. október 2020 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Opnun Dýrafjarðarganga

Ræða flutt í tilefni opnunar Dýrafjarðaganga 25. október 2020

Eitt fyrsta embættisverk nýkjörins forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, var að fara í opinbera heimsókn til sunnanverðra Vestfjarða í september 1996. Sá hann þar tækifæri til bættra lífskjara í hverju horni ekki síst á sviði ferðaþjónustu. Hann kvaðst sannfærður um að Vestfirði yrðu næsta framtíðarland í ferðaþjónustu á Íslandi, en þó aðeins ef vegakerfið þar stæðist samanburð við það sem annars staðar er. Enn fremur sagði hann:

„Það kemst enginn hjá því sem um Barðaströnd fer að kynnast því að því miður er verulegur munur á vegakerfinu í Barðastrandasýslu og öðrum landshlutum. Það er greinilegt að það þarf að gera verulegt átak á næstu árum til að Barðastrandasýsla haldi jöfnuði á við aðra landshluta.“

Síðan eru liðin 24 ár. Unnið hefur verið að verkefninu með mismiklum hraða síðan en stórar og umfangsmiklar framkvæmdir hafa fengið að bíða. Í þeirri samgönguáætlun sem lögð var fram og samþykkt á Alþingi síðasta vetur er með sanni hægt að segja að Vestfirðingar muni loks sjá smiðshöggið rekið á þessu risavaxna verkefni.

Í dag opnum við eitt þessara stóru verka, sjálf Dýrafjarðargöng. Göngin, sem hafa verið í byggingu frá 2017, eru ein umfangsmesta einstaka framkvæmd í vegakerfinu og munu þau leysa erfiðan farartálma af hólmi, Hrafnseyrarheiði. Göngin munu bæta umferðaröryggi, spara tíma á ferðalögum og nýtast vel um ókomin ár.

Í framhaldi af Dýrafjarðargöngum er eðlilegt að vegurinn yfir Dynjandisheiði verði endurbyggður. Nýverið var fyrsti áfangi þess verkefnis boðinn út af Vegagerðinni þar sem gert er ráð fyrir verklokum næsta haust. Heildarverkið á svo að klárast á fyrsta tímabili samgönguáætlunar eða fyrir árið 2024.

Annað risastórt samgönguverkefni hér á svæðinu er Vestfjarðavegur um Gufudalssveit. Hluti þess vegstæðis liggur eins og þjóðkunnugt er um Teigsskóg. Sú framkvæmd hefur hangið í lausu lofti nú um árabil vegna kærumála. Með úrskurði umhverfis- og auðlindamála nú fyrr í haust gefst nú loks kostur á að koma þessari nauðsynlegu samgöngubót af stað. Hún mun stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi mikið. Strax í haust er stefnir Vegagerðin að því að bjóða út þverun Þorskafjarðar en líkt og Dynjandisheiðin á heildarverkið að klárast fyrir árið 2024.

Á samgönguáætlun er þriðja risaverkefnið í landshlutanum, er nýr Bíldudalsvegur frá flugvellinum á Bíldudal og upp á Dynjandisheiði. Þetta verkefni á komið á samgönguáætlun, á öðru tímabili og ætti því að vera lokið á tímabilinu 2025-2029.

Í þessum þremur verkefnum ásamt Dýrafjarðargöngum munu alls um 105 km af nýjum, greiðum og öruggum vegum bætast við vegakerfið hér á Vestfjörðum og koma í stað erfiðustu og hættulegustu vegkafla á svæðinu.

Þetta er þó ekki það eina sem við ætlum að bæta í samgöngukerfi Vestfjarða á næstu árum. Á undanförnum misserum hafa staðið yfir endurbætur á 7 km kafla af Djúpvegi milli Hestfjarðar og Seyðisfjarðar. Á Ströndum eru komin á áætlun framkvæmdir á Veiðileysuhálsi og Innstrandavegi, alls 17 km. Einnig mætti telja til framkvæmdir um Hattardalsá í Álftafirði, Örlygshafnarveg um Hvallátur auk þess sem við erum að breikka brýrnar yfir Botnsá í Tálknafirði og Bjarnardalsá í Önundarfirði. 

Þar fyrir utan höfum við aukið framlög í uppbyggingar tengivega umtalsvert, en það nýtist ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Að lokum er rétt að benda á að á síðustu árum höfum við tekið viðhald vega föstum tökum og stóraukið framlög til þess, en það tryggir að vegakerfið, verðmætast einstaka eign ríkisins, hér og annarsstaðar haldist öruggt og áreiðanlegt. 

Í almenningssamgöngum höfum við tekið það mikilvæga skref að innleiða Loftbrúnna, 40% afslátt af flugfargjöldum fyrir íbúa sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu, svo sem hér á Vestfjörðum. Þetta tel ég vera „game changer“. Ekki aðeins fyrir íbúana sjálfa sem nú geta nálgast þjónustu, menningu eða bara það sem þá langar til á höfuðborgarsvæðinu gegn mun lægra gjaldi en áður, heldur líka fyrir flugreksturinn sjálfan. Hagfræðin og heilbrigð skynsemi segir okkur að verð skiptir mál þegar kemur að eftirspurn. Það að næstum því helminga verð til almennings á þessari mikilvægu samgönguleið ætti að skila sér í aukinni notkun og nýtingu sem tryggir betur stoðir rekstarins og eykur líkur á því að rekstraraðilar sjái sér fært að bæta tíðni.

Það er ekki nokkur spurning í mínum huga að allar þessar framkvæmdir muni skila sér margfalt til baka til samfélagsins. Það var hárrétt hjá hinum nýkjörna forseta að góðir samgönguinnviðir eru grunnforsenda þess að atvinnulíf geti haldið áfram að þróast og eflast. Samfélagslegur ábati verður ekki einungis í formi efnahagslegra umsvifa heldur ekki síst í formi fækkunar slysa. Við sjáum skýr merki um það í slysatölum að við erum að ná árangri í fækkun alvarlegra slysa á Vestfjörðum og miðað við þau metnaðarfullu uppbyggingaráform sem við stefnum á ættum við að geta gert okkur vonir um að svo haldi áfram.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta