Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. mars 2021 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ísland fulltengt - ljósleiðari og 5G óháð búsetu

Greinin var birt í Morgunblaðinu 11. mars 2021

Öflugir fjarskiptainnviðir eru forsenda búsetu og fjölbreyttrar atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Ísland er í röð fremstu ríkja heims í fjarskiptainnviðum samkvæmt mati Alþjóðafjarskiptastofnunarinnar. Sú staða er ómetanleg en enginn endapunktur því tækninni fleygir fram og nýjar áskoranir blasa við. Þörf er á metnaðarfullri framtíðarsýn fyrir útbreiðslu og áreiðanleika fjarskipta um land allt nú þegar landsátakinu Ísland ljóstengt, sem á stóran þátt í að þessari góðu stöðu, fer að ljúka. 

Landsátakið Ísland ljóstengt og uppbygging opinberra aðila á fjarskiptaaðstöðu á undanförnum árum er lýsandi dæmi um sérstaka fjármögnun á vegum ríkis og heimafólks til að jafna aðstöðumun milli dreifbýlis og þéttbýlis. Með lokaúthlutun fjarskiptasjóðs seinna í þessum mánuði hefur ríkið styrkt með beinum hætti tengingu um 6.000 lögheimila og annarra styrkhæfra staða í dreifbýli landsins og stuðlað óbeint að tengingu þúsunda sumarhúsa og annarra bygginga. Þetta landsátak hefur þegar bylt forsendum búsetu og atvinnurekstrar í sveitum landsins.  

Rúmt ár er síðan óveður afhjúpaði veikleika í raforkukerfinu sem olli truflun á fjarskiptum einkum á Norðurlandi og Austurlandi. Brugðist var hratt við og hafa stjórnvöld þegar m.a. bætt varaafl á rúmlega 68 fjarskiptastöðum víða um land. Framhald verður á verkefninu í ár í samvinnu fjarskiptasjóðs sem leggur til fjármuni og Neyðarlínunnar sem sér um framkvæmdir. Öryggiskröfur samfélagsins eru einfaldlega ríkari en það sem fjarskiptafyrirtæki eru skuldbundin til að gera eða geta tryggt á markaðslegum forsendum, einkum á landbyggðinni.

Fyrirsjáanleiki aðalatriði

Fólk vill aðgang að nýjustu og bestu fjarskiptaþjónustu hverju sinni og gerir jafnframt kröfu um að þjónustan sé áreiðanleg, örugg og á viðráðanlegu verði. Regluverkið, með áherslu á samkeppni og markaðslausnir, tryggir það upp að vissu marki. Þolinmæði gagnvart óvissu og bið eftir markaðslausnum er þó á undanhaldi.

Áhyggjur íbúa utan helstu þéttbýlissvæða hafa lengi snúist um hvort ljósleiðarinn eða nýjar kynslóðir farneta verði yfir höfuð í boði. Vissan fyrir því að ljósleiðarinn komi á grundvelli Ísland ljóstengt, hefur skapað ákveðna sátt og skilning gagnvart því að slík uppbygging getur ekki átt sér stað samtímis um allt land. Einhver byggðarlög verða á undan öðrum. Stóra málið er fyrirsjáanleiki um að ljósleiðarinn sé í það minnsta á leiðinni.

Kveikjan að Ísland ljóstengt var framtíðarsýn og markmið stjórnvalda um að ljósleiðaravæða dreifbýlið. Það gleðiefni að sjá nú fyrir endann á þessu samvinnuverkefni sem hornsteinn var lagður að með blaðagrein sem birtist 30. mars 2013 undir yfirskriftinni „Ljós í fjós“. 

Landsdekkandi þráðlaus fjarskiptakerfi í opinberri eigu

Þó að 5G uppbygging sé ekki mjög brýn í þeim afmarkaða tilgangi að auka bandbreidd hér á landi, er sannarlega tímabært að huga að almennum markmiðum og aðgerðum til þess að gera samfélagið í stakk búið að hagnýta þá fjölbreyttu þjónustu sem 5G gerir mögulega á næstu árum. 

Við þessi tímamót er viðeigandi að setja fram nýja framtíðarsýn sem er verðugur arftaki „Ljós í fjós“. 

Neyðarlínan, sem er í opinberri eigu, á og rekur landsdekkandi neyðarfjarskiptakerfið TETRA fyrir neyðar- og viðbragðsaðila af miklum myndarskap. Hugað er nú að endurnýjun eða arftaka þess kerfis hér á landi, í Noregi og víðar. 

Rekstur fjarskiptaaðstöðu og sendakerfa reynist Ríkisútvarpinu umtalsverð áskorun og tímabært er fyrir félagið að huga að endurnýjun/arftaka eigin og útvistaðra sendakerfa.

Margt bendir til þess að 5G tæknin geti hæglega leyst þarfir þeirra sem nýta TETRA og RÚV til framtíðar er varðar þráðlaus fjarskipti eða útsendingar. Í því felast tækifæri til tækniuppfærslu og hagræðingar. Fátt bendir til þess að skynsamlegt sé fyrir opinbera aðila að reka mörg sjálfstæð þráðlaus fjarskiptakerfi með háu öryggisstigi til framtíðar á sömu svæðum. 

Ljósleiðari og 5G í byggðakjörnum

Ljósleiðaravæðing landsins heldur áfram og eru það eingöngu byggðakjarnar á landsbyggðinni sem búa nú við óvissu um hvort eða hvenær röðin kemur að þeim og á hvaða forsendum. Búast má við að fyrirhugað útboð á tveimur NATO-ljósleiðurum verði útfært m.a. með aukna samkeppni á landshringnum í huga og hvata til ljósleiðarauppbyggingar fjarskiptafyrirtækja í byggðakjörnum. Sú ljósleiðaravæðing, og þar með landsins alls, gæti því verið langt komin fyrir lok næsta kjörtímabils. 

Líklegt er að uppbygging 5G gagnvart helstu þéttbýlissvæðum fari fram á markaðslegum forsendum og án sérstakra opinberra hvata. Slík uppbygging er hafin. Fyrirsjáanleiki í uppbyggingu markaðsaðila á 5G gagnvart litlum byggðakjörnum og utan þéttbýlis er hins vegar minni.  

Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu

Á kjörtímabilinu hefur margt áunnist, hvort tveggja er varðar uppfærslu regluverks fjarskipta og netöryggis og uppbyggingu fjarskiptainnviða. Tímabært er að leggja línur fyrir nýja framsókn í fjarskiptum. Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu.

Með slíkri framtíðarsýn og tilheyrandi aðgerðum væri óvissu eytt um það hvort fólk, óháð búsetu, fái notið þeirrar þjónustu sem verður forsenda og hvati samfélagslegra framfara og nýsköpunar um land allt í fyrirsjáanlegri framtíð. Standi hún til boða er eðlilegt að hún verði jafnframt áreiðanleg, örugg og á sanngjörnu verði. 

Á svæðum þar sem forsendur fyrir samkeppni í innviðum er ekki til staðar virðist vera skynsamlegt að byggja og reka eitt gott dreifikerfi sem bæði opinberir aðilar og markaðsaðilar geta nýtt. Hagkvæmni í innviðauppbyggingu skiptir máli. Kominn er tími til að opinberir aðilar sem eiga og reka fjarskiptainnviði ræði uppbyggingu fjarskiptainnviða til framtíðar og ákveðið verði hvernig hið mikilvæga hlutverk þeirra og samspil verður útfært með hliðsjón af heildstæðri framtíðarsýn og áherslu á byggðasjónarmið. Þar gæti komið til greina full sameining eða verulega aukið samstarf fjarskiptainnviðafyrirtækja í opinberri eigu.

5G verður bráðlega nauðsynleg innviðaþjónusta gangi spár eftir. Verður nokkurs konar grunnþjónusta og því enn ríkari ástæða til þess að setja fram heildstæða nálgun þess hvernig við ætlum að tryggja þá grunnþjónustu íslensku samfélagi til hagsbóta, óháð búsetu. Sundabraut verður ekki byggð á einum degi og það sama á við um 5G þjónustu um land allt, en framtíðarsýnin og markmiðin þurfa að vera skýr.

Verkefnið hlýtur að vera að tryggja fyrirsjáanleika í aðgengi, öryggi og verðlagningu 5G þjónustu gagnvart byggð, atvinnulífi, samgöngum og samfélagslega mikilvægum svæðum á landsbyggðinni sem og annars staðar. Einn lykill að þeirri vegferð er að nýta tækifæri til uppfærslu og langtíma hagkvæmni í fjárfestingum og rekstri landsdekkandi þráðlausra fjarskiptakerfa opinberra aðila, þ.m.t. Neyðarlínu og Ríkisútvarps. Annar lykill er að auka samvinnu og samþætta starfsemi fjarskiptainnviðafyrirtækja í opinberri eigu þannig að styðji við þessa vegferð, þ.m.t. að efla fjarskiptaaðstöðu og ljósleiðarastofnnet um landið. 

Valkostir við uppbyggingu á landsbyggðinni

Fyrir liggur hvert viðfangsefnið er en ekki hvernig eigi að leysa það. Líkt og oftast eru valkostir í þeim efnum.

Nýstárlegur valkostur væri að efla Neyðarlínuna og fela henni að byggja og reka 5G kerfi, a.m.k. á markaðsbrestssvæðum, sem leysti af TETRA og kerfi RÚV á þeim svæðum. Með því gæti skapast möguleiki fyrir markaðsaðila að semja um aðgang að öruggum 5G sendum Neyðarlínunnar og möguleiki fyrir Neyðarlínuna að semja um aðgang að öruggum 5G sendum markaðsaðila á markaðssvæðum þeirra. 

Aðrir hefðbundnari valkostir koma til greina, t.d. væri hægt að bíða og sjá hvað markaðsaðilum hugnast að gera á næstu árum. Þar má horfa til aukins samstarfs og samnýtingar við innviðauppbyggingu og jafnvel bjóða út 5G þjónustu svæðisbundið. Einnig mætti fela markaðsaðilum með útboðsleið að leysa verkefni Neyðarlínunnar og RÚV heildstætt um allt land með 5G og svo framvegis. 

Það eru sem sagt fleiri en einn valkostur um leiðir og gaumgæfa þarf útfærslu þeirra. Aðalatriðið er að sammælast um það markmið að ná samlegð, hagræði og auknu öryggi með þróun kerfa RUV og Neyðarlínunnar í ljósi þeirrar 5G uppbyggingar sem fyrir dyrum stendur, almenningi í landinu öllu til heilla.

Áfram veginn

Greina þarf og bera saman mismunandi leiðir til að ná fram þeirri framtíðarsýn sem lögð er hér fram, Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu. Þær hafa tiltekna kosti og galla, mismunandi eftir því hver metur. Hér er ekki talað fyrir almennri ríkisvæðingu fjarskipta, heldur raunsæi gagnvart þeim fyrirsjáanlega markaðsbresti sem verður m.a. í uppbyggingu framtíðarkerfa og ekki síst 5G innviða. Þróunin er ör og mikilvægt er að taka verkefnið traustum tökum. Endurskoðun fjarskiptaáætlunar er hafin og því er tímabært að ræða um sameiginlega framtíðarsýn fyrir samfélagið og færar leiðir.  

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðarbyggðar og formaður Fjarskiptaráðs

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta