Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. mars 2021 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ótvíræður ávinningu af norrænu samstarfi

Ávarp samstarfsráðherra í tilefni dags Norðurlanda 23. mars 2021

Góðan daginn kæru þátttakendur, bæði þið sem eruð samankomin hér í Norræna húsinu í Reykjavík og þið hin sem eruð með okkur í netheimum til að halda upp á dag Norðurlanda, sem fagnað er á Norðurlöndunum, með fjölbreyttum viðburðum og umræðum líkt og þessum hér í dag. 

Ég vil byrja á að þakka skipuleggjendum fyrir boðið á þennan áhugaverða umræðufund.

Þátttaka okkar Íslendinga í samstarfi Norðurlanda er mjög umfangsmikil og kveður sáttmáli ríkisstjórnarinnar á um að norrænt samstarf verði áfram einn af hornsteinum utanríkisstefnu Íslands.

Gildisauki af norrænu samstarfi, þá hálfu öld sem liðin er frá stofnun Norrænu ráðherranefndarinnar, er ótvíræður og samstarfið hefur líklega aldrei verið mikilvægara en einmitt nú. 

Norðurlöndin og norrænt samstarf er auk þess gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland og hefur þessi vettvangur þjónað vel hagsmunum Íslands í gegnum árin. Ekki síst vegna þess hve samvinnan er fjölbreytt.

Það er vel við hæfi að halda þennan fund og ræða verðmætasköpun af menningarsamstarfi Norðurlanda hér í Norræna húsinu, en allt frá opnun hússins sumarið 1968 hefur hér verið ein helsta miðstöð norrænnar menningar hér á landi. 

Norrænu samstarfsráðherrarnir komu sér saman um nýja framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf á fundi á Hellu 19. júní árið 2019, í formennskutíð Íslands, og forsætisráðherrar Norðurlanda samþykktu síðan á fundi sínum í ágúst sama ár. Framtíðarsýnin byggist á að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á árunum fram til 2030.

Í framtíðarsýninni voru sett fram stefnumarkandi áherslur og markmið um græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Lagt er upp með að þessar áherslur verði sem rauður þráður í öllu starfinu á næstu árum. 

Til þess að ná þessum stefnumarkandi áherslum og markmiðum voru allar fagráðherranefndir, norrænar stofnanir og Norðurlandaráð beðin um að leggja fram tillögur að verkefnum og áherslum. Þá var einnig haft meira samráð við almenning og atvinnulíf á Norðurlöndum en nokkru sinni fyrr. Afraksturinn er framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar til næstu fjögurra ára.

Hluti af framkvæmdaáætluninni felst í áherslu á þverfagleg verkefni, sem stuðla eiga að því að sviðin starfi saman að því að ná settum markmiðum og gera samstarfið skilvirkara.

Annað mikilvægt markmið í framkvæmdaáætluninni er að auka þátttöku almennings á Norðurlöndum í norrænu samstarfi og með starfi sínu að grænum, samkeppnishæfum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum leggur norrænt samstarf áherslu á að skila raunverulegum árangri í úrlausnarefnum dagsins í dag.

Þegar vinnan við framtíðarsýnina hófst var strax ákveðið að ekki yrði aðeins um fögur fyrirheit að ræða, heldur breyttar áherslur sem endurspegluðust í tilfærslu fjármuna. Þannig væru breytingar gerðar á fjárhagsrömmum einstakra fagráðherranefnda og fjármunum forgangsraðað yfir í verkefni á sviði loftslagsmála og sjálfbærni, sem styðja við framtíðarsýnina um sjálfbær og samþætt Norðurlönd. 

Eins og áður segir, beinir framkvæmdaáætlunin samstarfinu meira inn á loftslagsvænni og sjálfbærnimiðaðri brautir. Þá hefur heimsfaraldurinn einnig opnað augu okkar betur fyrir þeim tækifærum sem felast í stafrænni væðingu, m.a. á sviði rannsókna og menntunar, og nýsköpunar á heilbrigðissviði. Einnig geta stafrænar lausnir hjálpað til við að auðvelda frjálsa för fólks innan Norðurlanda, en slíkt ferðafrelsi er einn hornsteina norræns samstarf.

Þótt framkvæmdaáætluninni sé ætlað að vera leiðarljósið í norrænni starfsemi næstu fjögur árin er einnig gerð krafa um eftirfylgni. Reynslan af yfirstandandi heimsfaraldri sýnir glöggt að samstarfið þarf að vera sveigjanlegt og geta aðlagað sig að breyttum aðstæðum til að geta ráðið betur við vágest eins og þann sem við glímum við í dag.

Með nýrri forgangsröðun til að ná markmiðum nýrrar framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar er leitast við að efla samheldni, þróun og samstarf á öllum Norðurlöndum. Menning og listir munu halda áfram að gegna stóru hlutverki í norrænu samstarfi og skapa vettvang fyrir aðkomu almennings og hjálpa okkur að skilja og takast á við hnattrænar áskoranir eins og loftslagsvandann og yfirstandandi heimsfaraldur.

Að lokum vil ég þakka fyrir mig og óska ykkur öllum góðs dags Norðurlanda.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta