Ísland fulltengt - ljósleiðaravæðing byggðakjarna
Grein birt í Morgunblaðinu 22. apríl 2021
Í lok þessa mánaðar mun ég staðfesta síðustu samninga ríkisins við sveitarfélög á grundvelli samvinnuverkefnisins Ísland ljóstengt, en um það verkefni hefur ríkt þverpólitísk samstaða. Margt má læra af skipulagi og framkvæmd þessa verkefnis sem ég lagði hornstein að með grein minni „Ljós í fjós“ árið 2013. Það veganesti þurfum við að nýta við áframhaldandi uppbyggingu fjarskiptainnviða á landsvísu. Fjarskiptaráð, sem starfar á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, fundaði nýverið með öllum landshlutasamtökum utan höfuðborgarsvæðisins um stöðu og áskoranir í fjarskiptum. Niðurstaða þessara funda var m.a. sú að áskoranir eru ekki alls staðar þær sömu þó að brýnasta úrlausnarefnið sé hið sama um allt land, en það er ljósleiðaravæðing byggðakjarna.
Stóra myndin í ljósleiðaravæðingu landsins er sú að eftir sitja byggðakjarnar vítt og breitt um landið, sem hafa ekki aðgang að ljósleiðara nema að takmörkuðu leyti. Það er einfaldlega ekki boðleg staða á fyrstu árum fjórðu iðnbyltingarinnar. Skilaboð sveitarfélaga eru afdráttarlaus og skýr í þessum efnum – það er forgangsmál að ljósleiðaravæða alla byggðakjarna.
Í nýlegri grein okkar Jóns Björns Hákonarsonar, formanns fjarskiptaráðs, undir yfirskriftinni „Ísland fulltengt - ljósleiðari og 5G óháð búsetu“, er kynnt framtíðarsýn um almennan aðgang heimila og fyrirtækja að ljósleiðara án þess þó að fjalla um hvernig samfélagið geti náð henni fram. Tímabært er að taka upp þann þráð. Eftir því sem nær dregur verklokum í Ísland ljóstengt er oftar spurt hvort ríkið ætli að láta sig ljósleiðavæðingu byggðakjarnanna varða og þá hvernig. Fram til þessa hef ég talið mikilvægt að draga ekki athygli sveitarfélaga of snemma frá ljósleiðaravæðingu dreifbýlisins, sem hefur reynst töluverð áskorun, einkum fyrir minni og dreifbýlli sveitarfélög. Vonir stóðu til þess að ljósleiðaravæðing byggðakjarna færi fram samhliða Ísland ljóstengt verkefninu á markaðslegum forsendum en sú uppbygging hefur því miður ekki gengið eftir sem skyldi.
Ég hyggst svara ákalli um ljósleiðarvæðingu byggðakjarna og leggja grunn að nýju samvinnuverkefni, Ísland fulltengt, í samræmi við markmið fjarskiptaáætlunar um að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins alls fyrir árslok 2025. Fjarskiptaráði og byggðamálaráði hefur þegar verið falið að greina stöðuna á landsvísu í samvinnu við Póst- og fjarskiptastofnun, í því skyni að undirbyggja valkosti og ákvörðunartöku um aðkomu stjórnvalda að einu brýnasta byggðamáli samtímans.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra