Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. júlí 2021 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Börn í umferðinni

Nýtt samfélagsmynstur og aukin þéttbýlismyndun á síðustu árum hafa breytt þörfum fólks um aðstöðu og skipulag í þéttbýli. Umhverfi hvers og eins skiptir mestu máli í daglegu lífi flestra. Staðsetning skóla, göngu- og hjólaleiðir, skólaakstur og umferð eru þættir sem hafa áhrif á ákvörðun fólks hvar það býr. Flestir þeir sem koma með einum eða öðrum hætti að uppbyggingu og skipulagningu samgönguinnviða hafa hingað til verið á á fullorðinsaldri, fólk tvítugt og eldra. Það er því kannski ekki skrítið að sú vinna hafi verið unnin að mestu út frá sjónarhóli fullorðinna. Stór hluti samfélagsþegna hefur þó oft viljað gleymast og það eru þarfir barna og öryggi þeirra í umferðinni. 

Staða barna í samgöngum

Ef hlustað er á börn og þau fá tækifæri til að láta rödd sína heyrast eru þau fær um að hafa áhrif á líf sitt. Það er m.a. í samræmi við ákvæði Barnasáttmála og Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og þingsályktun um Barnvænt Ísland fyrir árin 2021-2024. Samgöngur og áhrif þeirra á börn hafa til þessa lítið verið til umfjöllunar og ekki greind með nægilega skýrum hætti. Með samgönguáætlun 2020-2034 var ákveðið að hefja vinnu við að greina stöðu barna og ungmenna í samgöngum. Það er einstaklega ánægjulegt að sjá að fyrstu skrefin hafa verið stigin með greinargerð sem kemur út í dag um stöðu barna og ungmenna í samgöngum hér á landi. Skýrslan er unnin í samvinnu við Vegagerðina, Samgöngustofu og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Í henni kemur m.a. fram að ferðavenjur barna og ungmenna eru mun fjölbreyttari en þeirra sem eldri eru. Þau eru engu minni notendur og ferðast jafnvel að jafnaði ívið fleiri ferðir á degi hverjum. Börn og ungmenni eru mestu notendur virkra samgöngumáta og almenningssamgangna. Börn og ungmenni ferðast hlutfallslega minna með innanlandsflugi en þeir sem eldri eru. Lægri fargjöld vegna Loftbrúar virðast nýtast þeim sérstaklega vel. Bestu sóknarfæri til þess að stuðla að breyttum ferðavenjum allra felast í því að hlúa betur að þessu ferðamynstri barna og ungmenna, enda eru þau ekki með sama fastmótaða ferðavenjumynstur og þeir sem eldri eru.

Ungir sem aldnir

Stefnumörkun í samgöngumálum þarf að snúast um að börn og ungmenni séu örugg börn á leið sinni til og frá skóla, leiksvæða, íþrótta, tómstunda eða sem þau þurfa að fara. Taka þarf mið af þörfum þeirra sem birtist í ferðavenjukönnuninni sem gerð var um land allt. Í henni kom fram að börn eru helstu notendur virkra samgöngumáta þ.e. að ganga, hjóla, nota skólaakstur eða almenningssamgöngur. Hönnun og uppbygging innviða þarf að taka mið af því og er það okkar sem eldri eru að fylgja því fast eftir. Þá er öflugt forvarnarstarf og fræðsla á öllum skólastigum árangursrík leið. 

Ríki og sveitarfélög þurfa að vinna saman að því að bæta samgöngur barna og ungmenna og eru tækifæri í skipulagðri vinnu sveitarfélaga með gerð og framfylgni umferðaröryggisáætlana. Tónn í þá átt hefur verið sleginn með samvinnu ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga við gerð skýrslunnar.

Greiðar og öruggar samgöngur skipta okkur öll máli. Hvort sem við erum ung eða gömul höfum við þörf til þess að fara á milli staða. Málefnið er ungmennum mikilvægt og hugleikið. Þau vilja verða  þátttakendur í stefnumótun og við tökum fagnandi á móti þeim. Við þurfum að eiga uppbyggilegt samtal þar sem hlúð er betur að ferðamynstri barna og borin virðing fyrir ólíkum sjónarmiðum.  Skipulagning samgönguinnviða sem miðar við þarfir fólks frá unga aldri og upp úr skilar sér í betra og skilningsríkara samfélagi. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta