Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. september 2022 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Aðlögun að breyttum heimi

Ávarp flutt á ráðstefnunni Aðlögun að breyttum heimi - hefjum samtalið sem haldin var á  Grand hótel, 5. september 2022

Ágætu fundargestir.

Í dag ræðum við eina stærstu áskorun samtímans, breytingar á loftslagi og aðgerðir til að mæta þeim. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um ríflega milljón tonn af Co2-ígildum árið 2030 í samanburði við losun ársins 2005, samkvæmt gildandi aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Með því gera stjórnvöld gott betur en að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar um 29% samdrátt, því að samanlagt munu aðgerðirnar skila 35% samdrætti gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu. Því til viðbótar eru aðgerðir í mótun taldar geta skilað 5-11% samdrætti til viðbótar.

Hingað til höfum við að mestu beint sjónum okkar að losuninni en nú kveður við annan tón. Við, eins og aðrar þjóðir heims, stöndum nú frammi fyrir þeim veruleika að þurfa að hefjast handa við að undirbúa samfélög okkar undir afleiðingar loftslagsbreytinga. Mikilvægt er þó að halda því til haga að þó svo að tími aðlögunar sé vissulega runninn upp, þá gefur það okkur á engan hátt leyfi til þess að slá slöku við í aðgerðum okkar til samdráttar í losun. Þvert á móti, því hér er um að ræða tvo málaflokka með fjölmarga snertifleti og gífurlega mikilvægt að þeir tali saman, bæði hjá ríki og sveitarfélögum.

Þegar við hugsum um helstu áhrif loftslagsbreytinga hér við land reikar hugur okkar gjarnan að þeim áhrifum sem við heyrum hvað mest um og sjáum af í fjölmiðlum. Bráðnandi jöklar, hækkun á yfirborði sjávar, breytingar í veðurfari, gróðureldar og skriðföll, svo eitthvað sé nefnt. Þó svo slíkir atburðir komi vissulega til með að hafa mikil og alvarleg áhrif á innviði okkar, byggðir og samfélög, þá er alveg ljóst að við þurfum að hugsa lengra en svo. Erindi dagsins hafa mörg hver bent á þörfina á því að skoða áhrif loftslagsbreytinga heildstætt og út frá öllum þremur víddum sjálfbærni, þ.e.a.s. á umhverfi okkar, efnahag og síðast en ekki síst, á samfélögin okkar og félagslega þætti. Við þurfum að öðlast dýpri skilning á því hvernig þær breytingar sem vænta má munu snerta okkar helstu atvinnugreinar, byggðirnar okkar, innviðina okkar, skipulagsmálin, fráveitukerfin, og, eins og Tinna ræddi hér á undan mér, á fólkið okkar og vilja þess til að búa áfram á svæðum sem verða fyrir áföllum.

Áhrif loftslagsbreytinga munu leiða af sér fjölmargar áskoranir fyrir íslenskt samfélag. Margar þessara áskorana munu miða að því að styrkja innviði okkar og samfélög til þess að gera þau betur í stakk búin til þess að mæta bæði hægfara breytingum, sem og skyndilegum atburðum. Aðrar áskoranir munu miða að því að hámarka getu okkar til þess að grípa þau tækifæri sem gefast, s.s. í ræktun, eldi eða nýtingu nýrra tegunda, sóknarfæri innan nýsköpunar eða útflutning hugvits. En til þess að hámarka getu okkar til þess að aðlagast þeim breytingum sem vænta má, þá er mikilvægt fyrir okkur að vita hverjar slíkar breytingar koma helst til með að vera, hvar þær munu helst snerta okkur og á hvaða hátt. Það er einnig mikilvægt fyrir okkur að skilja hvernig og á hvaða hátt við getum undirbúið jarðveginn sem best til þess að hámarka viðbragðsgetu okkar og færni til þess að grípa tækifærin.

Sveitarfélög landsins hafa sýnt það í verki að þau búa yfir miklum vilja til þess að gera vel í loftslagsmálum og hafa þegar ráðist í ýmis verkefni sem auka munu viðnámsþrótt þeirra gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga. Sem dæmi um slíkt má nefna framkvæmdir í fráveitumálum og blágrænum ofanvatnslausnum. Í nýlegri stefnu íslenskra stjórnvalda um aðlögun gegn loftslagsbreytingum eru sveitarfélögin þungamiðjan, líkt og fram hefur komið hér í dag, og koma þar skipulagsmál til með að vera eitt stærsta viðfangsefnið. En sveitarfélög landsins reiða sig líka á ólíkar atvinnugreinar og auðlindir, eru byggð upp á mismunandi hátt, eru misstór og búa við fjölbreytt umhverfi, landslag og veðurfar. Það liggur því í hlutarins eðli að eitt mun ekki gilda um alla þegar kemur að áhrifum loftslagsbreytinga og aðferðir til aðlögunar innan sveitarfélaga. Afleiðingarnar munu koma við rekstur, starfsemi og innviði sveitarfélaga og ríkis á mismunandi hátt og því er mikilvægt að öll sveitarfélög nálgist þennan málaflokk út frá eigin forsendum, en þó í ríku samstarfi og samráði við önnur sveitarfélög, ríki, stofnanir og aðra sem að málaflokknum koma. Hér er um að ræða þverfaglegt viðfangsefni og ríkt samráð ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga kemur til með að vera algjört lykilatriði í þeirri vinnu sem framundan er. Til að mynda, þá munu aðlögunarmál koma á borð til okkar í flestum ef ekki öllum málaflokkum innviðaráðuneytisins, svo sem samgöngumálum, sveitarstjórnarmálum, skipulagsmálum, húsnæðismálum og ekki síst innan byggðamála.

Vinna að aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda innan aðlögunar að loftslagsbreytingum er sérstaklega nefnd í stjórnarsáttmálanum. Umrædd aðgerðaáætlun, sem byggð verður á nýlegri stefnu Íslands í aðlögun sem rædd var hér fyrr í dag, verður mótuð með aðkomu fulltrúa sveitarfélaga og annarra aðila sem að málaflokknum koma. Líkt og fram kom í máli Ragnhildar hjá Byggðastofnun, miðar svo ný aðgerð í byggðaáætlun að því að móta enn frekar heildræna nálgun á aðlögun sveitarfélaga að áhrifum loftslagsbreytinga. Með þessu skrefi, og ekki síður með því samtali sem er að eiga sér stað hér í dag, er ætlunin að ýta enn frekar undir samtalið og samráðið um gerð aðlögunaráætlana fyrir sveitarfélög landsins, með það að markmiði að auðvelda fulltrúum ríkis og sveita að ráðast í slíka vinnu á næstu misserum.

Íslendingar hafa í aldanna rás sýnt mikla aðlögunarhæfni. Við höfum þurft að berjast við óblíð náttúruöflin og hættulegar afleiðingar þeirra allt frá upphafi byggðar og erum ýmsu vön. Við höfum þurft að beita skynsemi, framsýni og útsjónarsemi og tekist með því að aðlaga samfélög okkar, byggðir og atvinnugreinar að síbreytilegu umhverfi íslenskrar náttúru. Í mörgum tilfellum hefur okkur einnig tekist að nýta breytingar á umhverfinu okkur í hag, með jákvæðum afleiðingum fyrir hagsæld okkar og samfélög. Með slíku hugarfari og með vísindin að vopni og vilja til samstarfs í þessum mikilvæga málaflokki, er ég sannfærður um að okkur mun takast að auka viðnámsþrótt okkar í tíma til þess aðlagast komandi breytingum, okkur í hag og komandi kynslóðum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta