Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. september 2022 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ávarp á Umferðarþingi 2022

Ávarp flutt á Umferðarþingi 2022 föstudaginn 23. september í Gamla bíói

Ágætu þingfulltrúar

Öryggi í samgöngum er í öndvegi markmiða samgönguáætlunar. Sjónum er þar sérstaklega beint að umferðaröryggi,  þar sem langflest slysin verða.  Árlega látast eða slasast alvarlega um 200 manns í umferðinni. Og þessum  slysum fylgir mikil sorg, brostnar vonir og margskonar miski fyrir þá sem slasast, ástvini og aðra aðstandendur. Þá er ótalinn sá samfélagslegi kostnaður sem slysunum fylgir sem telur í tugum milljarða og álag á heilbrigðiskerfi.  

Á síðustu 20 árum hafa orðið 8460 slys með meiðslum í umferðinni. Sem betur fer eru flest þeirra með smávægilegum meiðslum en allt of mörg með alvarlegum áverkum, jafnvel örkumlun og sum eru banaslys. Aðeins í fjórum prósentum tilfella er ástand ökutækis meðal orsaka. Ástand vegar, lausamöl eða steinkast eru meðal orsaka í öðrum tæpum fjórum prósentum. Oft eru ástæður slyss samverkandi þættir: slæm færð, hálka eða birtuskilyrði.  
Það er sorgleg staðreynd að langflest slys verða vegna mannlegra mistaka. Mistök sem oft hefði verið hægt að koma í veg fyrir með því að gæta varúðar. Slysin gerast hratt og fyrirvaralítið. Augnabliks andvaraleysi getur verið dýrkeypt.  

Við vitum öll að okkur ber að vera með athyglina á akstrinum og aka miðað við aðstæður. Aðstæður breytast oft  hratt hvort sem við erum á bíl,  hjólandi eða gangandi. Myrkur, hálka, lausamöl eða aðrir vegfarendur, annað fólk, fuglar og ferfætlingar, allt getur þetta valdið því að við missum stjórn á farartækinu okkar.

Í ár er Umferðarþing haldið í tengslum við Evrópsku samgönguvikuna og er áherslan á virka en óvarða vegfarendur í umferðinni, innviðum fyrir þá og öryggismálum sem þeim tengjast. 

Á síðustu árum hefur það verið stefna stjórnvalda að styðja við fjölbreytta ferðamáta og markar þar samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins tímamót. Með því að ferðast stuttar vegalengdir gangandi, hjólandi eða með strætó drögum við úr losun gróðurhúsaloftegunda, stuðlum að  betri loftgæðum  í þéttbýli og vinnum um leið að bættri lýðheilsu.
Það eru þó ýmsar hættur sem stafa að óvörðum vegfarendum. 

Í bíl erum við vel varin af ökutækinu sjálfu, með beltin spennt og loftpúða sem taka af höggið. Því er ekki að heilsa með óvarða vegfarendur, þá sem eru hjólandi eða gangandi.  

Með tilkomu nýrra smáfarartækja í umferðina, rafhlaupahjóla, hefur slysum óvarinna vegfarenda fjölgað gríðarlega. Af alvarlegum slösuðum í umferðarslysum á síðasta ári voru 42% óvarðir vegfarendur, þar af voru 17% þeirra á rafhlaupahjólum, þrátt fyrir að vera einungis 1% af umferðinni. Að auki voru flest slysin um helgar. Þá sýnir könnun að um 40% ungmenna hafa ekið rafhlaupahjóli undir áhrifum.  Við þessari óheillaþróun þarf að bregðast.  Til þess eru nokkrar leiðir. 

Í fyrsta lagi þarf betri innviði. Umtalsverðum fjármunum hefur verið varið í stígagerð þar sem Vegagerðin hefur unnið í góðu samstarfi við sveitarfélög um land allt að gerð stíga fyrir gangandi og örflæði smáfarartækjanna, reiðhjóla, rafhjóla og nú í hratt vaxandi mæli rafhlaupahjóla.  Þá er leitast við að bæta öryggi á gatnamótum og draga úr aksturshraða til þess að gefa vegfarendum meiri tíma til þess að bregðast við eða betri sýn fram á veginn.

Í öðru lagi er það fræðsla með áherslu á að við hegðum okkur betur í umferðinni. Þar hefur Samgöngustofa  lagt sitt af mörkum með útsjónarsemi í aðferðum til þess að ná til þeirra sem þurfa að heyra. Margt sem okkur finnst sjálfsagt þarf engu að síður að árétta eins og að spenna beltin, nota ekki símana okkur undir stýri eða aka  ekki, hvorki bíl né rafhlaupahjóli, undir áhrifum. 

Þá hefur lögreglan unnið ötullega að eftirliti með akstri ökutækja undir áhrifum sem og hraðakstri.

Til þess að mæta breyttum ferðamátum með tilkomu rafhlaupahjóla eru nú unnið að breytingum á umferðarlögum þar sem bætast við ýmis ákvæði  sem hafa það markmið að auka öryggi smáfarartækjanna.

Allt vinnur þetta saman að öruggara umhverfi fyrir óvarða vegfarendur sem og þá sem fara um í bíl.

Í dag birtast í samráðsgátt stjórnvalda ný drög að stefnu um umferðaröryggi sem byggir á samstarfi Samgöngustofu, Vegagerðar, lögreglu og ráðuneytisins. Markmið stefnunnar er  að gera umferðina öruggari fyrir alla vegfarendur, óháð ferðamáta.  Þar er nú ný nálgun sem tekjur mið af breytingum í samfélaginu.

Í umferðaröryggisáætlun 2023-2037 eru  skýr markmið:

  • Að Ísland sé meðal fimm bestu Evrópulanda hvað varðar fjölda látinna í umferðinni á hverja hundrað þúsund íbúa. Við erum nú í áttunda sæti en stefnum ótrauð á að verða meðal þeirra þar sem öryggið er mest.
  • Næsta markmið styður það fyrra: Að fjöldi látinna og alvarlegra slasaðra í umferðinni lækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2037.
  • Loks er þar nýtt markmið sem tekur mið af ört vaxandi akstri, ekki hvað síst vegna allra þeirra ferðamanna sem aka um vegina. Þetta markmið snýr að því að lækka slysakostnað á hvern ekinn kílómetra um 5% á ári.

Til þess að ná þessum mikilvægu markmiðum þarf skýra stefnu, varðaða raunhæfum mælanlegum markmiðum. Eitt nýtt undirmarkmið lítur dagsins ljós, þ.e.  að fækka alvarlegum slysum með aðild eldri ökumanna en þeim hefur fjölgað samfara hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar. Er þetta markmið samhljóða því sem verið hefur um yngstu ökumennina.

Í stefnunni beinum við sjónum okkar að umferðaröryggi út frá  þremur áherslum: Öruggari vegfarendum, öruggari vegum og öruggari ökutækjum.  Unnið verður að auknu umferðaröryggi á grundvelli frammistöðumarkmiða.

  • Í fyrsta lagi hefðbundin markmið sem snúa að vegafarendum.
  • Ný markmið um öruggari vegi sem snúa að umferðaröryggisrýni og heildstæðu umferðaröryggismati.
  • Sett eru markmið um öruggari ökutæki sem snúa að ástandi fólks- og farmflutningabíla og að meðalaldri fólksbíla í umferð en nýrri bílar eru almennt betur búnir með tilliti til öryggis.
  • Í framtíðinni munu svo bætast við markmið sem snúa að snjalltækjabúnaði svo sem hlutfalli bíla með sjálfvirkri neyðarhemlun og umhverfisskynjurum.

Með þessum nýju áherslum vonast ég til að auka meðvitund vegfarenda um eigin ábyrgð um leið og við bætum innviðina svo að umferðin verði öruggari. Þessi nýja umferðaröryggisáætlun hefur nú verið birt í samráðsgátt. Vona ég sú stefna og markmið sem þar eru birt megi verða ljós sem lýsir veginn  til aukins öryggis í umferðinni fyrir alla vegfarendur, gamla sem unga, hjólandi sem gangandi eða akandi í bíl.

Kæru þinggestir ég óska ykkur góðs og fræðandi umferðarþings. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta