Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. febrúar 2023 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Leið til aukinna lífsgæða fyrir alla

Grein birt í Morgunblaðinu laugardaginn 25. febrúar 2023

Heimilið er mikilvægasti staður í tilveru okkar. Það er athvarf okkar og mikilvægur þáttur í lífhamingju. Heimili er stór hluti af því að finna til öryggis.

Að eignast heimili getur verið brekka. Misbrött eftir því hvenær við komum fyrst inn á húsnæðismarkaðinn. Það ójafnvægi sem hefur ríkt á íslenskum húsnæðismarkaði bitnar misjafnlega á kynslóðunum. Sumir eru svo heppnir að flytja úr foreldrahúsum þegar fasteignaverð er lágt en aðrir minna lánsamir þegar þensla ríkir á markaðnum.

Jafnvægi á húsnæðismarkaði er ekki aðeins mikilvægt fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Þær miklu sveiflur sem hafa verið og skapast af skorti á framboði eitt árið og offramboði annað árið hafa mikil áhrif á allt hagkerfið, hafa áhrif á verðbólgu og vexti. Það að ná jafnvægi er því ekki aðeins mikilvægt fyrir líf einstaklinga og fjölskyldna heldur einnig fyrirtækin í landinu.

Samvinna er lykill að árangri

Við gerð lífskjarasamninganna var mikil áhersla lögð á það í samtali verkalýðsforystunnar, forystu samtaka í atvinnulífi og stjórnvalda að bæta aðstæður á húsnæðismarkaði. Í framhaldi af því góða samtali og samstarfi hef ég lagt mikla áherslu á að ríkið stígi inn af festu til að fólk geti komið sér þaki yfir höfuðið, hvort heldur þar er eigið húsnæði eða leiguhúsnæði, og að húsnæðiskostnaður sé ekki alltof íþyngjandi og sveiflurnar ekki óbærilegar.

Stöndum vörð um lífsgæði á Íslandi

Í desember síðastliðnum ákvað ríkisstjórnin að grípa til aðgerða í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Snúa aðgerðirnar einkum að stuðningi við lífskjör lág- og millitekjufólks með markvissumaðgerðum í húsnæðismálum og auknum stuðningi við barnafjölskyldur. Fjölgun íbúða og uppbygging í almenna íbúðakerfinu með auknum stofnframlögum, endurbætur í húsnæðisstuðningi og bætt réttarstaða og húsnæðisöryggi leigjenda er meðal þess sem höfuðáhersla er lögð á. Markmið þessara aðgerða er skýrt og það er að standa vörð um lífsgæði almennings á Íslandi.

Hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði

Undanfarna mánuði og vikur hefur verið unnið að því hörðum höndum í innviðaráðuneytinu og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að undirbúa aðgerðir sem miða að því að ná mikilvægu jafnvægi á húsnæðismarkaði. Í fyrrasumar var undirritaður rammasamningur við Samband íslenskra sveitarfélaga um uppbyggingu húsnæðis. Um áramót var síðan undirritaður samningur við Reykjavíkurborg þar sem borgin skuldbindur sig til að tryggja lóðaframboð í samræmi við mannfjölgun og ríki og borg koma með stofnframlög svo hægt sé að skapa stöðugan og réttlátan leigumarkað. 35% þeirra íbúða sem byggðar verða á næstu árum verða það sem kallað er hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði. Þær eru sérstaklega ætlaðar þeim sem eru tekjulægri, ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á íbúðamarkaði og fólki með fötlun.

Stuðningur við fyrstu kaup

Þegar horft er til þess að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði þurfa stjórnvöld að hafa fjölbreytt tól í verkfærakistu sinni. Sveiflurnar hafa ekki síst áhrif á þá sem eru að koma nýir inn á húsnæðismarkað og því er nauðsynlegt að styðja sérstaklega við þá. Hlutdeildarlán eru mikilvæg í því tilliti. Þar gefst ungu fólki og tekjulági kostur á að ríkið eignist hlut í fyrstu eign og brúi þannig bilið svo fólk geti komið þaki yfir höfuðið. Nú stendur yfir endurskoðun á reglum er varða hlutdeildarlán með það að markmiði að aðstoða, sérstaklega ungt fólk, við að flytja úr foreldrahúsum eða leiguhúsnæði í eigið.

Mikilvægasta kjarabótin

Það mikilvæga samtal sem stjórnvöld hafa átt við forystu verkalýðsfélaganna, atvinnulífið og sveitarfélögin er mikilvægur grunnur fyrir þá vinnu sem hefur átt sér stað síðustu mánuðina og mun bera ávöxt á næstu misserum. Öll erum við sammála um að mikilvægasta kjarabótin fyrir alla sé að halda húsnæðiskostnaði í böndum. Jafnvægi á húsnæðismarkaði og lágir vextir eru takmarkið og því munum við ná ef við stöndum saman. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta