Á réttri leið – öryggi í samgöngum
Ávarp flutt á ráðstefnunni Á réttri leið - öryggi í samgöngum þri. 6. júní í Veröld, húsi Vigdísar.
Kæru gestir
Samgöngur eru lífæðar samfélaganna. Þær tengja saman fólk og fyrirtæki, fæða þörf okkar fyrir félagsskap, þrá til að upplifa eitthvað nýtt og eru grundvöllur fyrir viðskiptum.
Það er merkilegt til þess að hugsa hversu fáar kynslóðir hafa lifað á Íslandi síðan byrjað var að byggja upp almennilegt samgöngukerfi. Og það er einnig merkilegt til þess að hugsa hversu stórstígar breytingar hafa orðið á því síðustu fáu áratugina. Á þetta við um samgöngur, jafnt á landi, í lofti og á sjó.
Við myndun ríkisstjórnar árið 2017 sóttist ég eftir því að taka við samgönguráðuneytinu. Áður hafði ég gegnt þremur ráðherraembættum, verið forsætisráðherrra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra. Ástæðan fyrir því að ég sóttist eftir samgönguráðuneytinu var bæði pólitísk og persónuleg. Pólitísk vegna þess að samgöngur hafa gríðarlega mikil áhrif á daglegt líf allra Íslendinga. Persónuleg vegna þess að ég hafði upplifað mikið áfall, sáran missi.
Öryggi í samgöngum er mér hjartans mál. Við fáum öll sting í hjartað þegar fréttir berast af alvarlegum slysum. Við þekkjum mörg sársaukann sem hlýst af því að missa ástvini eða því að horfa upp á ástvini örkumlast af völdum slysa. Sársaukinn er persónulegur. Skaðinn er samfélagslegur. Og hann er varanlegur.
Til þess að auka öryggi í samgöngum þurfa margir ólíkir kraftar að leita í sömu átt. Við þekkjum það kannski best í vegasamgöngum hvernig betri vegir, öruggari bílar og bætt menntun og þjálfun nýrra ökumanna hefur breytt umferðarmenningu okkar hér á Íslandi til betri vegar.
Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á samgöngum og öryggi í þeim. Árangur Íslands í að auka öryggi í flugi, umferð og siglingum er eftirtektarverður, jafnvel svo að vekur athygli langt út fyrir landsteina. Nú er Íslandi í flokki þeirra bestu í samgönguöryggi. Aðdáunarverður árangur hefur náðst í öryggi sjómanna þar sem banaslys heyra nánast fortíðinni til, það heyrir einnig til undantekninga að það verði banaslys í flugi og sem betur fer hefur ekki orðið slys í farþegaflugi í fjöldamörg ár.
Við höfum sett okkur stefnu í Umferðaröryggisáætlun og fyrsta markmiðið í þeirri stefnu er að vera meðal þeirra fimm Evrópuþjóða hvað varðar fjölda látinna á hverja 100 þúsund íbúa. Er þar miðað við meðaltal fimm ára tímabils. Það er ákaflega gleðilegt að segja frá því að það markmið hefur nú náðst í fyrsta sinn. Af því getum við verið stolt en það þýðir ekki að við séum sátt. Við hljótum alltaf að horfa til þess að fækka slysum, koma í veg fyrir sársauka og minnka samfélagslegan kostnað. Með aukinni fjárfestingu í bættum vegasamgöngum getum við sett okkur núll-stefnu eins og sumar nágrannaþjóðir okkar. Rétt eins og í öryggi á sjó þá getum við enn bætt árangur okkar í samgöngum á landi.
Ný samgönguáætlun, hvítbók í samgöngum 2024-2038, hefur verið lögð fram á Alþingi. Með henni eru lagðar fram Umferðaröryggisáætlun og Öryggisáætlun sjófarenda. Í fyrsta sinn er þar að finna samræmda nálgun við öryggi í þremur víddum: Notandinn, farartækið og innviðirnir. Fyrir hverja vídd eru sett markmið og árangursmælikvarðar, sem og áherslur forsenda aðgerða sem allt vinnur saman að því megin markmiði að enginn skuli láta lífið í samgöngum á Íslandi.
Markið er sett hátt og því fylgt eftir með frammistöðumarkmiðum sem mæla fyrst og fremst viðhorf og hegðun notenda samgöngukerfisins. Það er ekki að ástæðulausu því að langflest slys má rekja til mannlegra mistaka og mistök eru óumflýjanleg.
Augnabliks andvaraleysi getur orðið afdrifaríkt og því er það markmið öryggisáætlananna að draga úr afleiðingum af hegðun þeirra sem farartækjum stýra og um leið auka meðvitund um umhverfið. Lyklar að árangri eru fræðsla og forvarnir sem auka meðvitund notenda um hættur og auk þess að innviðir séu sem allra bestir, flugvellir, hafnir og siglingamerki, vegir og umhverfi þeirri öruggast. Ekki má heldur gleyma leiðarstjórnun þ.e. flugumferðarstjórn og vaktstöð siglinga en þar er Ísland meðal annars þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi um upplýsingamiðlun með gervitunglum. Í umferðinni má nefna umferðarljós og sjálfvirkt hraðaeftirlit þ.m.t. meðalhraðaeftirlit sem skilar í nágrannalöndunum gríðarlega góðum árangri í að fækka slysum.
Flugslys eru sem betur fer afar fátíð á Íslandi og heyra nánast til undantekninga. Góð atvikaskráning hefur reynst vel sem grunnur að fyrirbyggjandi aðgerðum og hefur sú aðferðafræði nú einnig verið tekin upp í siglingum en rannsóknanefnd flugslysa byggir tillögur sínar í öryggisátt ekki hvað síst á greiningum alvarlegra atvika sem hefðu getað leitt til slyss.
Öruggir innviðir í flugi, sérstaklega flugvellir, eru gríðarlega mikilvægir. Með ört vaxandi flugi til og frá landinu er nauðsynlegt að byggja upp og bæta alþjóðlegu flugvellina á Egilsstöðum og Akureyri sem einnig gegna mikilvægu hlutverki sem varaflugvellir. Þess vegna hef ég lagt áherslu að koma á varaflugvallargjaldi sem ætlað er að tryggja fjármögnun nauðsynlegrar uppbyggingar, til dæmis nýrrar flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli.
Öflugt varaflugvallakerfi í landi þar sem öskuský eldgosa geta á svipstundu gjörbreytt aðstæðum í lofti er mikilvægt öryggismál nú þegar flugtök og lendingar í Keflavík eru hátt í hundrað þúsund og búast má við að um 8 milljónir farþega fari um völlinn í ár.
Ekki er hægt að fjalla um öryggismál í flugi án þess að minnast á mikilvægi flugleiðsögu en flugumsjónarsvæði sem Ísland rekur er gríðarlega umfangsmikið. Þar undir fellur öryggi þeirra fjölmörgu flugvéla sem um flugumsjónarsvæði í umsjón Íslands fljúga og geta þurft að lenda og nýta þannig alþjóðaflugvellina kalli neyðin að.
Öryggi í flugi markast fyrst og fremst af alþjóðlegum kröfum. Flugöryggisáætlun Íslands (State Safety Programme SSP) er útfærð hjá Samgöngustofu og er í samræmi við flugöryggisáætlun Evrópu og viðkomandi staðla frá ICAO.
Megináherslan á tímabilinu er á innleiðingu og eftirfylgni nýrra reglna ESB og verkefna EASA á þessu sviði og um leið er áfram lögð áhersla á innleiðingu öryggisstjórnunarkerfaá öllum sviðum flugmála.
Góðir gestir.
Sjómannadagurinn er einn merkasti hátíðisdagur Íslendinga. Síðasta sunnudag komu Íslendingar saman við flestar hafnir þessa lands, fögnuðu hetjum hafsins og minntust um leið þeirra fjölmörgu sem látið hafa lífið við störf sín til sjós. Við Íslendingar höfum náð miklum árangri þegar kemur að öryggi sjómanna. Það hefur verið gert með samstilltu átaki stjórnvalda, útgerðarinnar en þeir sem hafa haft mest áhrif eru sjómennirnir sjálfir.
Það eru ekki mörg ár síðan að við misstum fjölmarga á ári hverju í sjóslysum. Á fimm ára tímabili í kringum 1960 fórust 135 í sjóslysum við Íslandsstrendur. Á fimm ára tímabili í kringum 1980 var talan komin niður í 65. Á árunum 2018-2022 fórust tveir. Það er auðvitað tveimur of mikið en sýnir þó svo ekki verður um villst að með breyttu viðhorfi, fræðslu og auknum kröfum til menntunar og aðbúnaðar er hægt að ná miklum árangri.
Árið 2004 leit fyrst dagsins ljós langtímaáætlun um öryggi sjómanna með fastri fjárveitingu á fjárlögum. Öryggi sjófarenda verður alltaf best tryggt með góðri og stöðugri þjálfun sjómanna og samstilltu átaki stjórnvalda, útgerðar og sjómanna á sviði öryggismála. Samstarf þessara aðila í fagráði um siglingamál, Siglingaráði, um öryggisáætlun sjófarenda hefur á þessari öld skilað þeim frábæra árangri að banaslys á sjó eru fátíð og flest árin slysalaus.
Stefna til næstu 15 ára í Öryggisáætlun sjófarenda hefur nú verið lögð fram á Alþingi en þar er að finna nýja nálgun við öryggi á sjó þar sem að öryggi siglinga er nú í fyrsta sinn ein þriggja grunnstoða stefnunnar.
Áhersla er nú fyrst og fremst á að auka öryggisvitund sjómanna og öryggisstjórnum um borð þar með talið vegna orkuskipta og þeirra áskorana sem þeim fylgja. Nú er unnið ötullega að því að auka öryggi á sjó og færa til nútímans meðal annars með rafrænni atvikaskráningu, Skútunni, rafrænni lögskráningu og skipaskrá, með rafrænum öryggisstjórnunarkerfum fyrir fiskiskip og smábáta, og með heimildum til þess að gera rafræna lyfjadagbók og lækningahandbók aðgengilega öllum sjófarendum.
Umferðaröryggisáætlun var fyrst lögð fram á Alþingi með samgönguáætlun árið 2005. Áætlunin er unnin af starfshóp ráðuneytis, Vegagerðar og Samgöngustofu og fulltrúa lögreglunnar undir stjórn Umferðaröryggisráðs en þar sitja forstjórar fyrrnefndra stofnana auk ríkislögreglustjóra undir formennsku ráðuneytisstjóra samgangna. Árið 2008 voru undirmarkmið áætlunarinnar arðsemismetin og í framhaldi áhersla lögð á þau verkefni sem mestum árangri skila í að fækka slysum.
Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa hefur verið haldinn hér á landi árlega í rúman áratug í nóvember víða um land. Dagurinn hefur haft mikla þýðingu til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, þakka viðbragðsaðilum sem veita hjálp og björgun á slysstað og vekja athygli á umferðaröryggi. Á þessum degi hafa margir stigið fram, sagt sögu sína og deilt erfiðri reynslu af afleiðingum umferðarslysa. Dagurinn hefur verið skipulagður í samvinnu ráðuneytisins, Samgöngustofu, Vegagerðarinnar, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Lögreglunnar, ÖBÍ með aðkomu margra annarra. Minningardagurinn hefur öðlast fastan sess hjá aðstandendum og mér hefur þótt afar vænt um að vera viðstaddur athafnir í tilefni dagsins.
Vel hefur tekist til og Ísland er nú eins og áður sagði í hópi þeirra fimm bestu í umferðaröryggi þrátt fyrir miklar áskoranir sem snúa að fjölda erlendra ferðamanna sem margfalda umferðina um vegi víða um land.
Meðal helstu aðgerða má nefna aðskilnað aksturstefna á fjölförnustu stofnvegum, tvöföldun einbreiðra brúa á hringvegi, lagfæringum á hættulegum stöðum og umhverfi vega, og hraðaeftirlit lögreglu og hraðamyndavélum - og þá í vaxandi mæli með meðalhraðeftirliti. Með öllum tiltækum ráðum er svo leitast við að hafa áhrif á öryggisvitund vegfarenda m.a. gegn akstri undir áhrifum, nú síðast þeirra sem ferðast á rafhlaupahjólum þar sem hegðun notenda verður að breytast í öryggisátt.
Ekki verður fjallað um öryggi í samgöngum án þess að minnast á Rannsóknanefnd samgönguslysa sem sett var á stofn árið 2013 með sameiningu rannsóknarnefnda sjóslysa, flugslysa og umferðarslysa. Markmið rannsóknanefndarinnar er að leiða í ljós orsakir samgönguslysa og samgönguatvika með forvarnir að leiðarljósi, en ekki að skipta sök eða ábyrgð. Nefndin skilar oft tillögum í öryggisátt sem hafðar eru til hliðsjónar við aðgerðir í öryggisáætlunum samgangna.
Kæru gestir.
Eins og þið heyrið þá erum við hvað öryggi í samgöngum á réttri leið. Á bak við þann árangur sem hefur náðst eru mörg handtök, mikil hugsun og margar ákvarðanir. Og þá komum við að heiðursgestinum okkar, Ragnhildi Hjaltadóttur, sem hefur síðustu 20 árin staðið í stafni ráðuneytis samgangna með ráðherrum sínum og verið vakin og sofin yfir öryggismálum í samgöngum. Það hefur hún ekki síst gert með því að stýra markvissri áætlanagerð og stefnumótun með árangurs- og arðsemismarkmiðum.
Elsku Ragnhildur.
Ég hóf mál mitt á því að ræða um mínar pólitísku og persónulegu ástæður fyrir því að sækjast eftir því að verða ráðherra samgangna - og hafa síðan verið í því embætti í sex ár. Það er fátt dýrmætara fyrir þann sem gegnir ráðherraembætti en að hafa við hlið sér öflugt fólk sem deilir sýn, deilir ástríðu. Ég er einstaklega þakklátur fyrir okkar samstarf síðustu árin. Ég er einnig ákaflega þakklátur fyrir allt þitt ómetanlega starf við það að gera samgöngur á Íslandi öruggari. Það hlýtur að vera markmið hvers manns að geta á tímamótum litið yfir starfsferilinn og hugsað: Ég skipti máli. Og það getur þú sannarlega gert, elsku Ragnhildur. Þú skiptir máli, miklu máli, vegna baráttu þinnar fyrir auknu öryggi í samgöngum á Íslandi. Hafðu hjartans þökk fyrir.