2.800 íbúðir fyrir tekju- og eignaminni
Grein birt í Morgunblaðinu 22. júní 2023
Á þriðjudag var stór stund í húsakynnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar þegar kynnt var þriggja milljarða úthlutun til uppbyggingar hagkvæmra íbúða fyrir tekju- og eignaminni. Á árunum 2023-2025 verða byggðar 2.800 íbúðir fyrir þennan hóp sem er veruleg aukning frá fyrri áætlunum. Þar af verða 800 byggðar á þessu ári. Þessi úthlutun er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að mæta þrýstingi á húsnæðismarkaði á krefjandi verðbólgutímum.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að tvöfalda framlög til stofnlána til leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins og hlutdeildarlána til íbúðarkaupa. Fjármögnun er tryggð með svigrúmi í fjármálaáætlun og hliðrun annarra verkefna.
Minni sveiflur – meira jafnvægi
Mikilvægasta verkefni þessara missera er að skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði. Við höfum á síðustu árum og áratugum upplifað gríðarlegar sveiflur á húsnæðismarkaðinum sem hefur ákaflega mikil áhrif á verðbólgu og þar af leiðandi vaxtaumhverfi fjölskyldna og fyrirtækja. Þessar miklu sveiflur koma verst niður á þeim sem minnst hafa á milli handanna.
Stuðningur til að eignast eða leigja
Við höfum á síðustu árum verið að búa til nýja umgjörð til að styðja við ungt fólk og aðra tekjulága hópa við að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegu verði. Skipta má kerfinu í tvo hluta. Annars vegar er það stofnlánakerfið þar sem stutt er við uppbyggingu leiguíbúða innan almenna húsnæðiskerfisins. Með því að ríki og sveitarfélög leggi til stofnframlög til uppbyggingar á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga á borð við Bjarg og Bríeti þá er lagður grunnur að öflugu almennu íbúðakerfi þar sem áherslan er lögð á að leigufjárhæð sé að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna. Þar sem ekki er greiddur úr arður úr leigufélaginu þá munu fjármunir sem safnast upp innan þeirra verða nýttir til frekari uppbyggingar á leiguíbúðum til tekju- og eignaminni hópa.
Hins vegar er það hlutdeildarlánakerfið. Hlutdeildarlán felast í því að ríkið fjárfestir 20% í eigninni með fyrsta kaupanda eða kaupanda sem hefur ekki átt eign í tiltekinn tíma og því þarf kaupandinn einungis að reiða fram 5% kaupverðs í útborgun. Engir vextir eða afborganir eru af hlutdeildarláni og þegar eignin er seld þá fær ríkið sinn 20% hluta til baka. Hámarksverð er á íbúðunum þannig að þær verði eins hagkvæmar eins og kostur er með tilskyldri stærð og herbergjafjölda. Þessi séreignarleið höfðar til þeirra sem frekar vilja eiga en leigja.
Markmið að minnka þrýsting
Nú er tíminn fyrir stjórnvöld að stíga inn með stuðning við þá hópa sem erfiðast eiga með að eignast húsnæði eða leigja. Aukinn stuðningur við uppbyggingu húsnæðis fyrir þessa hópa er sveiflujöfnunaraðgerð sem lækkar þrýstinginn sem er á húsnæðismarkaði og minnkar líkurnar á miklum hækkunum þegar fram í sækir. Í fyrsta skipti eru stjórnvöld komin með heildaryfirsýn fyrir húsnæðismálin. Nú liggja fyrir upplýsingar um hvernig húsnæði þarf að byggja, fyrir hverja og hvar en einnig hvaða áform eru fyrir hendi um íbúðauppbyggingu. Sú yfirsýn sem hefur náðst með nýju innviðaráðuneyti sem húsnæðis-, skipulags- og sveitarstjórnarmál heyra undir er gríðarlega mikilvæg. Hið góða samstarf á milli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Skipulagsstofnunar í samstarfi við sveitarfélög um að gera feril húsnæðisuppbyggingar að einum og skilvirkum ferli er hryggjarstykkið í því að okkur takist að vinda ofan af því ójafnvægi sem nú ríkir í húsnæðismálunum.
Réttlæti á húsnæðismarkaði
Nú er rétt ár síðan ég undirritaði rammasamkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga um sameiginlega sýn um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og markmið um 35 þúsund nýjar íbúðir á næstu tíu árum. Hálft ár er liðið frá fyrsta samkomulagi innviðaráðuneytisins og HMS við Reykjavíkurborg. Þetta þétta samstarf ríkis og sveitarfélaga markar tímamót í uppbyggingu húsnæðis og markar leiðina að jafnvægi á húsnæðismarkaði. Jafnvægi sem mun tryggja meira réttlæti og öryggi á húsnæðismarkaði.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra