Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. júní 2023 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ávarp við vígslu brúa yfir Núpsvötn og Hverfisfljót

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar ráðherra við vígslu tveggja nýrra brúa yfir Núpsvötn og Hverfisfljót - 29. júní 2023

Það er mikil ánægja að vera með ykkur hér við vígslu þessara miklu samgöngubóta. Með opnun brúanna tveggja þarf ekki að velkjast í vafa um að mikilvægt framfaraskref hefur verið stigið. Samgöngur á svæðinu eru orðnar greiðari og ekki hvað síst öruggari.

Lengst af voru fáir sem fóru yfir fljótin og sandana. Það voru þó til hetjur á borð við Hannes Jónsson landpóst, héðan af næsta bæ (Núpsstað), sem lögðu líf sitt í hættu svo til daglega og óðu yfir árnar, eða upp á jökulsporð í versta falli. Í Reykjavíkurbréfi sem birtist í Morgunblaðinu í nóvember árið 1971, var fjallað um fyrirhugaða brúargerð yfir Skeiðarársand og Núpsvötn. Kom þar fram að það væri ekkert annað en tæknilegt afrek EF okkur tækist að koma á sæmilega varanlegri samgönguleið um þetta mikla vatnasvæði. Þetta viðfangsefni í vegagerð væri einstætt í okkar heimshluta. Þetta tókst svo nokkrum árum seinna, landi og þjóð til mikillar blessunar. 

Verkefni okkar í dag er breytt, en ekki síður mikilvægt. Frá því gamla brúin yfir Hverfisfljót var reist árið 1968 og síðar yfir Núpsvötn árið 1973 er ljóst að margt hefur breyst. Kröfur til umferðaröryggis eru meiri og má í raun segja að þær hafi tekið stakkaskiptum. Einnig má líta til umferðarþróunar hér á svæðinu sem hefur að meðaltali aukist árlega um 11%. Um síðustu aldamót keyrðu að meðaltali 127 bílar um vegkaflann á dag, á meðan þeir voru 1152 árið 2022. Bílunum fer svo fjölgandi ár frá ári og nú yfir sumarmánuðina er gert ráð fyrir að á hverjum degi muni að meðaltali vel yfir 2000 bílar keyra um vegkaflann. Gömlu brýrnar sem opnuðu leið fyrir alla, ekki bara hetjur, yfir sandana voru ekki byggðar með þetta mikla álag í huga. Okkar verkefni í dag er því að breikka þær, styrkja, auka öryggi og fækka slysum.

Brýrnar sem við fögnum í dag eru tímabærar og því einstaklega ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag. Það er sannarlega gleðiefni fyrir ráðherra samgöngumála að sjá einbreiðu brúnum fara fækkandi og vera nú færri en 30 á hringveginum. Þar voru þær samtals 140 árið 1990 og því að mörgu leiti hægt að segja að loks fari að sjá til lands. Vil ég þá sérstaklega nefna að í tillögu að samgönguáætlun til fimmtán ára sem kynnt var nýlega er gert ráð fyrir að á hringveginum muni einbreiðar brýr heyra sögunni til.

Í dag gleðjumst við yfir góðum árangri í umferðaröryggismálum og horfum bjartsýn fram á veginn. Þá vil ég einnig færa öllum þeim fjölmörgu aðilum sem komu að því verki sem við fögnum í dag verðskuldaðar þakkir fyrir þeirra mikilvæga framlag við að efla innviði samfélagsins.

Til hamingju með daginn!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta