Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. júlí 2023 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Opnun brúar yfir Stóru-Laxá

Ræða flutt í tilefni opnunar brúar yfir Stóru-Laxá 13. júlí 2023

Í júlí 1927 gerðist sá merkisatburður að bifreiða var ekið, sennilega í fyrsta sinn, upp Hreppana, að Gullfossi og þaðan um Laugardal til Þingvalla. Svipuð leið og sú sem í dag er betur þekkt sem Gullni hringurinn. Ferðatíminn var aðeins lengri en við má búast í dag, eða um sólarhringur, enda vegakerfi þess tíma var tiltölulega frumstætt og fáar bílfærar brýr á landinu. Var þess getið í frásögn af ferðinni að „versti farartálminn á þessari leið væri vitanlega Stóra-Laxá“. Um leið var þess þó getið að betri tíðar væri að vænta því áin yrði „væntanlega brúuð innan skamms“. Fjórir menn voru fóru þessa fræknu ferð, þar á meðal Þorkell Teitsson, sem hafði sér það til frægðar unnið að vera sá fyrsti sem kannaði bílleiðina frá Borgarnesi til Akureyrar. Bílferðir um sveitir landsins voru á þessum tíma sannkallaðar ævintýraferðir og bílstjórar hálfgerðir landkönnuðir.

Tveimur árum seinna var svo komin fyrsta bílfæra brúin yfir Stóru-Laxá og stóð hún hér spölkorn frá. Sú brú þjónaði landsmönnum og tengdi hreppana í áratugi, allt fram til ársins 1985 þegar brúin hér við hliðina var reist. Þá var gamla brúin var að hruni komin. Þessi fyrsta brú var byggð upp sem hluti af miklu fjárfestingarátaki þáverandi ríkisstjórnar framsóknarmanna í samgönguinnviðum en á árunum 1927 til 30 voru 120 vegabrýr byggðar hér á landi. Fjárfesting sem mögulega þótti mikil á þeim árum, en enginn hefur efast um síðan.

Árnar sem liðast niður Suðurlandsundirlendið mynda náttúruleg mörk milli sveita, sem liggja annars hlið við hlið. Þannig liggja hreppamörk Gnúverjahrepps og Hrunamannahrepps einmitt eftir þessari á, alveg að upptökum hennar. Brýrnar tengja á milli, styrkja og sameina byggðina og skipta þannig miklu máli fyrir samfélagið sem landshlutann byggir, efla mannlíf og atvinnustarfsemi.

En þessar brýr eru ekkert einkamál okkar heimamanna. Eins og umferðaraukning undanfarinna ára ber glöggt merki eru brýrnar og samgönguinnviðirnir grundvöllur atvinnusköpunar í ferðaþjónustu, stærstu útflutningsgreinar Íslands. Bílferð upp að Gullfossi er löngu hætt að vera sólarhrings ferð ævintýramanna heldur fastur liður í heimsókn hundruð þúsunda, jafnvel milljóna, ferðamanna hingað til lands ár hvert. Gæði og öryggi innviða landsins eru sífellt mikilvægara mál.

Um nokkuð langt skeið hefur það verið eitt af markmiðum samgönguáætlunar að útrýma einbreiðum brúm hér á landi þar sem umferð er yfir 200 bílum á sólarhring. Tölfræði Vegagerðarinnar um umferðarþunga á þjóðvegum nær aftur til síðustu aldamóta. Umferðin yfir þessa brú hefur allan þennan tíma verið vel yfir því viðmiði. Í fyrra fóru að jafnaði rúmlega 1.200 bílar hér yfir að jafnaði yfir árið, og hátt í 1.800 síðasta sumar. Það eru níu sinnum fleiri en æskilegt er talið með einbreiðar brýr. Brúin er því mikill áfangi í leið okkar að því að auka öryggi og fækka slysum í umferðinni. Fjárfesting í brúnni er fjárfesting í samfélaginu og til marks um trú á framtíð þess.

Í dag opnum við nýja og glæsilega brú yfir Stóru-Laxá og þá fyrstu sem ekki er einbreið. Og vegna þess að við biðum ekki alveg jafn lengi og síðast, þ.e. þangað til gamla brúin var nánast hrunin, fáum við glæsilega reið-, göngu- og hjólabrú í kaupbæti.

Til hamingju með daginn.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta