Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. nóvember 2023 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ávarp við opnun Þverárfellsvegar í Refasveit og Skagastrandavegar um Laxá

Ávarp við opnun Þverárfellsvegar í Refasveit og Skagastrandavegar um Laxá 6. nóvember 2023

Góðir gestir,

Það er mér sönn ánægja að vera staddur hér með ykkur í dag við opnun Þverárfellsvegar í Refasveit og nýs vegarkafla um Skagastrandarveg ásamt nýrri brú yfir Laxá. Þessar framkvæmdir eru afar mikilvægt skref í átt að bættum samgöngum hér á Norðurlandi Vestra og gleðst ég innilega yfir því að framkvæmd verksins sé nú lokið, vegfarendum og íbúum á svæðinu til bóta.

Útboð vegna byggingar veganna og brúarinnar fór fram sumarið 2021 og er framkvæmdum nú lokið, tæplega tveimur árum síðar. Uppbyggingin gekk samkvæmt áætlun og er það vel þar sem miklir hagsmunir felast í því fyrir íbúa að geta notið öruggari vegasamgagna ekki síst þar sem veturinn er við það að ganga í garð.

Nýi Þverárfellsvegurinn og fyrsti hluti Skagastrandarvegar verða mun öruggari en gamli vegurinn sem fyrir er. Gamli vegurinn er bæði mjór og hæðóttur og ekki hannaður með það umferðarmagn og þungaflutninga í huga, sem nú fara um veginn. Nýi vegurinn er breiðari en sá gamli og er byggður upp miðað við nútíma kröfur til öryggis.

Gamla einbreiða brúin frá 1973 yfir Laxá var sömuleiðis orðin úrelt samgöngumannvirki en nokkrir árekstrar hafa orðið á henni í gegnum tíðina, ekki síst vegna þess hversu blind aðkoma er að henni fyrir umferð.

Það er því  mikið framfararskref að brúin yfir Laxá sé orðin tvíbreið og á sama tíma gleðiefni að einbreiðum brúm á Íslandi fækkar nú jafnt og þétt. Á grundvelli Samgönguáætlunar verður einbreiðum brúm á landinu áfram fækkað á komandi árum og er t.a.m. stefnt að því að innan 15 ára verði engin einbreið brú lengur til staðar á hringveginum.

Ég er ekki í vafa um það að framkvæmdirnar sem við vígjum hér í dag verði veruleg samgöngubót fyrir búa hér á svæðinu. Þessar framkvæmdir koma vonandi til með að draga úr ferðatíma og bæta öryggi vegfarenda til muna. Samgöngubæturnar munu styðja við atvinnulíf á svæðinu, svo sem fiskflutning og ferðaþjónustu enda vegurinn hluti af hinni nú heimsfrægu Norðurstrandarleið.  Ásamt því bind ég vonir við að þær muni auðvelda ferðir um Norðurland vestra og stuðla að betri  tengingu svæðisins við landið allt.

Mikil lífsgæði eru fólgin í því að fólkið í landinu geti búið sér heimili þar sem það kýs og njóti öruggra innviða hvar á landinu sem er. Ein af forsendum þess er að íbúar hafi aðgang að öruggum og greiðum samgönguinnviðum. Hér á Norðurlandi Vestra eru ýmsar verðugar áskoranir tengdar samgöngum en opnunin hér í dag ber þess vitni að með samstöðu og samvinnu getum við látið farsælar lausnir við þeim áskorunum verða að veruleika.

Mikillar uppbyggingar í samgönguinnviðum er þörf um land allt og verður ráðist í viðamiklar framkvæmdir á grundvelli Samgönguáætlunar á komandi árum. Við höfum metnað til þess að Ísland verði í fremstu röð hvað varðar trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Opnun Þverárfellsvegar í Refasveit og Skagastrandavegar um Laxá í dag er eitt skref af mörgum sem fyrirhuguð eru, í átt að þeirri framtíðarsýn.

Ég vil nota tækifærið og færa öllum þeim fjölmörgu aðilum sem komu að verkinu innilegar þakkir fyrir þeirra framlag við að efla samgönguinnviðina hér á svæðinu. Að lokum óska ég ykkur öllum innilega til hamingju með daginn og lýsi Þverárfellsveg um Refasveit og Skagastrandarveg um Laxá hér með opna.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta