Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. mars 2024 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ávarp í tilefni af útgáfu Vegvísis að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar

Ávarp í tilefni af útgáfu Útgáfa Vegvísis að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar, þriðjudag 12. mars 2024

Góðir áheyrendur. 

Það er mér mikil ánægja að fá að ávarpa ykkur hér í dag þegar við fögnum útgáfu Vegvísis að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar, sem HMS hefur unnið í nánu samráði við breiðan hóp hagaðila. 

Bakgrunnurinn er einna helst sá að samfélag okkar stendur frammi fyrir margs konar alvarlegum áskorunum, sem snerta ólíka málaflokka í mörgum ráðuneytum og við í innviðaráðuneytinu förum ekki varhluta af því. Í mannvirkjaiðnaði tengjast áskoranirnar meðal annars húsnæðis-, skipulags- og byggingarmálum, ásamt fleiri málaflokkum sem innviðaráðuneytið leiðir innan stjórnsýslunnar. 

Nefna má áskoranir sem tengjast losun gróðurhúsalofttegunda og baráttunni fyrir aukinni sjálfbærni þegar við byggjum og rekum mannvirki. Nefna má þær langtíma loftslagsbreytingar sem munu valda aukinni veðuráraun þegar til lengri tíma er litið. Allir þekkja umræðuna um það rask og þann skaða sem mygla og rakaskemmdir í byggingum valda. 

Til að geta brugðist við þessum og mörgum tengdum áskorunum þarf öflugar rannsóknir á sviði mannvirkjagerðar og það verður að tryggja utanumhald, miðlun og hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna.

Jafnframt hefur verið vakin athygli á því að á Íslandi hefur verið vöntun á prófunarstofum sem uppfylla alþjóðlegar kröfur um samræmdar prófanir og gæði mælinga á eiginleikum byggingarvöru, sem og mælingum á öðrum skuldbindingum sem til dæmis tengjast sjálfbærni, loftslagsmálum og öryggismálum mannvirkja. 

Af öllu þessu er ljóst að við verðum að skoða vel hvernig við viljum skipuleggja og efla þann rannsóknavettvang sem umlykur mannvirkjaiðnaðinn. Og hvernig við viljum tryggja gott utanumhald, miðlun og hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna. Og samtímis skoða hvernig hægt sé að tryggja að prófanir og mælingar sem framkvæmdar eru uppfylli alþjóðlegar kröfur um gæði og áreiðanleika.

Í þeim Vegvísi að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar, sem hér er kynntur til sögunnar, eru einmitt settar fram 16 skýrar og vel skilgreindar aðgerðir sem gefa okkur möguleika á að taka ákvarðanir um rannsóknaumhverfið, miðlun niðurstaðna og prófanir í mannvirkjaiðnaði. 

Vegvísinum er ætlað að varða leiðina næstu 12 til 24 mánuðina svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um framtíðarskipan þessara mála. Niðurstöðurnar hafa verið settar fram og unnar í breiðu samráði við stjórnvöld, háskólasamfélag og mannvirkjageirann og byggja meðal annars á samtölum við hátt í 70 hagaðila. Þær taka einnig mið af aðgerð um mótun rannsóknavettvangs innviða í þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hönnunar og arkitektúrs og aðgerð um mótun rannsóknavettvangs mannvirkjagerðar í hvítbók um húsnæðismál, sem er nú til umfjöllunar á Alþingi. 

Þetta verklag HMS við að varða leið til lausna á flóknum samfélagslegum vanda, í breiðu samráði, hefur áður reynst vel. Ég vil nefna hér annan vegvísi sem HMS gaf út fyrir um tveimur árum, en það er „Vegvísir um vistvænni mannvirkjagerð“. Í vegvísinum voru skilgreind markmið um vistvænni mannvirkjagerð til ársins 2030 og 74 skýrar og greinargóðar aðgerðir kynntar til að ná þessum markmiðum. Mjög góð eftirfylgni leiddi til þess að mörgum aðgerðum er lokið í miklu samráði stjórnvalda, atvinnulífs, háskólasamfélags og norrænna samstarfsaðila. Þannig var hægt að sammælast um aðferðafræði um lífsferilsgreiningar bygginga og lágmarksgildi hvað kolefnislosun mannvirkja varðar. Tillögurnar voru í Samráðsgátt í febrúar og allt stefnir í að opinberar kröfur um þessi atriði taki gildi í september 2025. Þannig hafa markmiðin og aðgerðirnar um að draga úr losun leitt til skýrrar niðurstöðu á frekar stuttum tíma. Þetta vinnulag er öllum þeim sem komu að vinnunni til mikils sóma og ég er mjög vongóður um að hið sama muni gilda um þann vegvísi sem við ræðum hér í dag, Vegvísi að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjaiðnaðar.

Góðir áheyrendur.

Öflugar og samfelldar rannsóknir og nýsköpunarstarfsemi í mannvirkjaiðnaði leiða í ljós nýjar lausnir, stuðla að aukinni þekkingu, faglegri vinnubrögðum, vistvænni mannvirkjum með lengri líftíma og lægri byggingar- og viðhaldskostnaði. Þær aðgerðir sem skilgreindar eru í Vegvísi að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjaiðnaðar munu gera okkur kleift að taka vel undirbyggðar ákvarðanir um rannsóknaumhverfi mannvirkjagerðar til framtíðar, miðlun rannsóknaniðurstaðna og alþjóðlega viðurkenndar prófanir og mælingar á þessu sviði. 

Ég vil þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg við mótun þessa mikilvæga vegvísis og er fullviss um að vinnan muni leiða til skýrrar framtíðarsýnar um umgjörð mannvirkjaannsókna á Íslandi þegar til lengri tíma er litið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta