Hoppa yfir valmynd
22. mars 2019 Innviðaráðuneytið

Norðurlöndin, já takk!

Sigurður Ingi Jóhannsson samstarfsráðherra Norðurlanda - mynd

Greinin var birt í Fréttablaðinu, föstudaginn 22. mars 2019.

Sem samstarfsráðherra Norðurlanda á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni átta ég mig enn betur á hve norrænt samstarf skiptir Íslendinga gríðarlega miklu máli. Rúmlega 30 þúsund manns búa á hinum Norðurlöndunum, sem eru samanlagt stærsta einstaka viðskiptalands Íslands. Við flytjum meira inn og út  frá Norðurlöndunum heldur en til Bandaríkjanna eða Bretlands. Þátttaka í norrænu vísinda- og menntasamstarfi, nýsköpun, menningu og skapandi greinum, er lífæð fyrir okkar fólk og fyrirtæki. Samvinna Norðurlandanna á alþjóðavettvangi gefur Íslandi pólitíska fótfestu, sem er ómetanlegt á óróatímum.

Á morgun er Dagur Norðurlandanna og því ágætt að rifja þetta upp. Ég vil líka í tilefni dagsins ganga svolítið lengra og spyrja: Getur verið að við göngum að norrænu samstarfi sem gefnu, sem sjálfsögðum hlut? Hvað finnst unga fólkinu okkar um norrænt samstarf? Er danskan á útleið og þá kannski líka áhugi ungs fólks á að  læra, starfa og stofna fyrirtæki á hinum Norðurlöndunum sem eru sannarlega sem annar heimamarkaður fyrir Ísland? Þykir hallærislegt að vinna í Gautaborg þegar allir eru leið til Singapúr? Munu Íslendingar framtíðarinnar mennta sig í Kína og Kóreu og engan tíma hafa fyrir Kaupmannahöfn eða Stokkhólm? Hvernig verður staðan 2050?

Framtíðin ein veit svörin. Eina sem við vitum er að sannarlega munu tímarnir breytast – og mennirnir með. Og þó Ísland eigi vissulega að vera áfram með öflug tengsl um allan heim, þá megum við heldur ekki gleyma hvar við erum, hvaðan við komum og hvaða fjölskyldu við tilheyrum. Norðurlöndin eru nefnilega ein stór fjölskylda. Við erum ekki sammála um allt en við stöndum saman þegar á reynir. Saman eru Norðurlöndin heimavöllur fyrir menntun, vísindi, viðskipti, menningu og allt hitt sem gerir okkur að góðum samfélögum. Norrænt samstarf er drifkraftur breytinga sem er lífsnauðsynlegt í heimi á fullri ferð. Okkar styrkur eru sameiginleg grundvallargildi um mannréttindi og lýðræði, sanngirni, velferð og velsæld – fyrir alla íbúa.

Ég hef bullandi trú á norrænu samstarfi. Í formennsku Íslands munum við halda áfram að þróa það og efla, ekki síst í samstarfi við ungt fólk. Norðurlöndin, já takk!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta