Hoppa yfir valmynd
09. maí 2019 Innviðaráðuneytið

Víti til varnaðar - markmið Íslands og framtíðarsýn

Ávarp á morgunverðarfundi um umferðaröryggi í Norræna húsinu fimmtudaginn 9. maí

Góðir gestir,  
yfirskrift þessarar fundar er Víti til varnaðar. Markmið fundarins er að kynna nýtt slysakort, fara yfir tölfræði umferðarslysa síðastliðins árs og með hvaða hætti tölfræðin nýtist til forvarna. Þannig verður til þekking sem hægt er að nýta til jákvæðrar þróunar að bættu umferðaröryggi og fækkun slysa.

Það er sárt að hugsa til allra þeirra sem eiga um sárt að binda vegna alvarlegra slysa í umferðinni. Það er því það minnsta sem við getum gert að nýta þær upplýsingar sem við eigum um slys til að bæta öryggi okkar í umferðinni og koma í veg fyrir slys. Það er því ekki að ástæðulausu sem yfirskrift þessa morgunverðarfundar um umferðaröryggi er Víti til varnaðar.

Þegar vorar og sól hækkar á lofti breytast ferðavenjur okkar.  Fjölmargir ungir vegfarendur sem eru að fóta sig í fyrsta sinn á nýjum farartækjum, hlaupahjólum, reiðhjólum, bifhjólum eða bílum streyma út í umferðina. 

Við sem erum eldri breytum okkar ferðavenjum, tökum fram hjólið eða leggjum í langferðir um byggðir landsins eða hálendi. Meðal vegfarenda eru líka tugþúsundir ferðamanna í leit að upplifun og tækifærum fyrir ódauðlega mynd. Fyrir þeim er vegakerfið aðgangur að upplifun en okkur heimamönnum samgönguæð til að komast sem hraðast milli staða.  Ferðamenn koma frá öllum heimshornum, meðal annars frá löndum þar sem umferðar- og akstursmenning er með allt öðrum hætti en hér tíðkast. 
Þeir sem koma frá öðrum löndum eru oft óvanir íslenska vegakerfinu og geta lent í erfiðum akstursaðstæðum. Á sama tíma og umferðin hefur aukist þá er fjölbreytileiki farartækja meiri en nokkru sinni. Nýjum venjum fylgja nýjar áskoranir og margt sem þarf að varast ekki hvað síst þar sem mætast margir og ferðamátar mismunandi. 

Í starfi mínu sem samgönguráðherra hef ég lagt ríkulega áherslu á að öryggi vegfarenda sé tryggt eins og best verður á kosið, óháð ferðamáta, eins fram kemur í samgönguáætlun. Þar er líka að finna ríkulegar áherslur á umhverfismál, ekki bara orkuskipti vegna loftslagsbreytinga heldur einnig að tryggja sem heilnæmast umhverfi fyrir vegfarendur og þá sem við vegina búa. 

Í samgönguáætlun er markmiðið um umferðaröryggi að við séum í hópi 5 bestu í heimi. Til að slíkt markmið náist þarf að færa vegakerfið upp um umferðaröryggisflokka og ljóst að ákveðnar framkvæmdir á fjölförnum stöðum þurfa að eiga sér stað á skömmum tíma. Sambærileg framlög og á undanförnum árum mæta engan veginn uppsafnaðri þörf til að endurbæta vegakerfið. 

Ríkisstjórnin var mynduð um framsýn markmið um uppbyggingu á innviðum og því tengdu verða ríflega 120 milljörðum króna varið til nauðsynlegra framkvæmda í vegakerfinu á næstu fimm árum, sem er veruleg hækkun frá því sem var. Í haust megum við því sjá endurskoðaða samgönguáætlun í samræmi við það auka-fjármagn sem kom inn með fjármálaáætlun fyrr í vor. Í kjölfarið þarf að hrinda ýmsum verkum í framkvæmd. 

Á umferðarþyngstu þjóðvegum þarf að halda áfram að aðskilja aksturstefnur en sú aðgerð hefur skilað góðum árangri og má nefna að umferðarslysum á Reykjanesbrautinni hefur fækkað um 40% frá því að aksturstefnur voru aðskildar. Þar vitum við nú þegar að slíkar upplýsingar nýtast til að auka umferðaröryggi. 

Unnið er að því að bæta leiðbeinandi merkingar enn frekar, að fækka einbreiðum brúm og að eyða stöðum þar sem slys hafa verið tíð eða staðir metnir hættulegir. Þá er brýnt að fjölga stöðum meðfram vegum þar sem ferðamenn geta stöðvað til að njóta landsins eða hvílst án þess að valda sjálfum sér eða öðrum hættu. 

Einnig hefur vetrarþjónusta á þjóðvegakerfinu verið aukin, sérstaklega hálkuvarnir þar sem umferð hefur aukist með tilkomu aukinna ferðalaga yfir veturinn. Og vinna þarf ötullega að aðskilnaði ferðamáta í þéttbýli og innan vinnusóknarsvæða til að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. 

Mig langar einnig að nefna að frumvarp til nýrra umferðarlaga, sem er til umfjöllunar á þingi, hefur það að markmiði að stuðla enn frekar að öryggi í umferðinni, laga kerfið að kröfum nútímans og alþjóðlegum samningum, taka tillit til fjölbreyttari samgöngumáta og ferðavenja.

 Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna eru í öndvegi með áherslum á umhverfi, heilsu og vellíðan og öryggi þar á meðal skal stefnt að því að fækka þeim sem slasast eða látast í umferðinni um helming á heimsvísu fyrir árið 2030. 

Til að þessi markmið náist þurfum við öll að vera vakandi og vanda til verka. Ég er nokkuð bjartsýnn á að þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru hafi jákvæð áhrif á þróun slysa í umferðinni svo sannarlegur árangur náist. 

Kæru gestir,

Eins og ég kom inn á áðan þá hafa gríðarlegar breytingar orðið á notkun vegakerfisins á örfáum árum. Á aðeins 5 árum hefur umferðin á þjóðvegunum aukist um ríflega 40%. Mest  á Suðurlandsvegi austur að Jökulsárlóni þar sem hún hefur nánast tvöfaldast, langmest að vetrarlagi.

Það eru miklir hagsmunir í húfi. Síðustu árin hafa að meðaltali hátt í  200 manns slasast alvarlega eða látið lífið árlega sem ekki er ásættanlegt. Umferðarslys og óhöpp eru talin kosta yfir 50 milljarða á ári, og er þá ekki talinn sá sársauki og sorg sem slysunum fylgja. Því er til mikils að vinna að því að draga úr slysum með öllum tiltækum ráðum. Því legg ég áherslu á að mannslíf og heilsa séu ávallt höfð í öndvegi og öryggi metið framar í forgangsröðun en ferðatími.   

Árlega er umferðaröryggisáætlun uppfærð á grundvelli bestu upplýsinga sem fást úr slysaskráningum, færðar á slysakort til frekari greininga og aðgerðum forgangsraðað. Gerðar  eru ítarlegar kannanir sem veita upplýsingar um líklega hegðun vegfarenda og  eru, ásamt slysagögnum, forsenda fræðslu með áherslu á þá þætti sem flestum slysum valda.

Á 13 þúsund kílómetra löngu þjóðvegakerfi  geta víða leynst hættur. Slysin gera ekki boð á undan sér. Sundum er orsök slysa augnabliks ógát en alltof oft er ástæðan hegðun ökumannsins, vímuefnaneysla eða hraðakstur langt umfram getu ökumanns til að stýra tæki sínu. Mannleg mistök eru óhjákvæmileg  og það er mikilvægt að við allt skipulag, hönnun og gerð umferðarmannvirkja sé tekið mið af því.  

Síaukinn umferðarþungi kallar á nýframkvæmdir, meira viðhald og auknar öryggisaðgerðir. Uppbygging samgöngumannvirkja er stór þáttur í því að bæta umferðaröryggi í ört vaxandi umferð. 

Auknu fjármagni hefur verið veitt til ýmissa framkvæmda til að flýta vegabótum og aukinn kraftur verður settur í yfirlagnir á vegum, malbik, viðhald malarvega og styrkingar. Allar slíkar framkvæmdir auka umferðaröryggi. En betur má ef duga skal.

Fræðsla er vaxandi og mikilvægur þáttur í umferðaröryggi fyrir alla vegfarendur. Það hefur sýnt sig að brýnt er að fræða erlenda ökumenn um íslenskar aðstæður. Gott dæmi er nýtt samstarfsverkefni Safetravel, Samgöngustofu og Hertz þar sem að erlendir ferðamenn fá ekki  afhenta lyklana að bílnum fyrr en þeir hafa horft á fræðslumynd og tekið próf, með það markmið  að bæta hegðun og fækka óhöppum.   

En við heimamenn þurfum einnig áminningar enda skilar fræðsla sér í meiri aga í umferðinni. Síðan veita umferðarsektirnar aðhald ef við erum staðin að því að brjóta umferðarreglur.

Fyrir ári síðan tók ný reglugerð gildi um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum. Sektir fyrir að brjóta umferðarlög eiga að koma við kaunin á okkur enda er það dauðans alvara að virða ekki þessar reglur.

Sektarupphæðirnar voru hækkaðar umtalsvert og má nefna að sekt fyrir að nota farsíma við stýrið án handfrjáls búnaðar hækkuðu í 40 þúsund krónur. 

Þá má ekki gleyma mikilvægi eftirlits og sýnilegrar löggæslu sem skiptir sköpum í því að fyrirbyggja umferðarslys með því að veita aðhald og vonandi gera okkur að betri vegfarendum.

Við eigum að vera meðal fremstu þjóða í umferðaröryggi. Ég vil þakka starfsfólki Samgöngustofu,  Vegagerðar, Ríkislögreglustjóra  og ráðuneytis fyrir fórnfúst starf í þágu umferðaröryggis, við þau stóru og krefjandi verkefni að auka öryggi allra þeirra sem um vegi landsins fara, á láglendi jafnt sem hálendi, í þéttbýli sem dreifbýli.

Við notum öll samgöngukerfið daglega, með einum eða öðrum hætti, og saman berum við ábyrgð. Umfram allt er mikilvægt að haga akstri eftir aðstæðum hverju sinni og sýna hvort öðru virðingu og tillitssemi svo allir komi heilir heim. 

Eins og ég sagði í upphafi þá er yfirskrift þessarar fundar Víti til varnaðar þar sem við leitumst við að nota upplýsingar til forvarna. Samgöngustofa hefur uppfært nýtt slysakort sem sýnir slys undanfarinna ára sem eru gagnlegar upplýsingar til að átta sig á þeim hættum sem geta leynst þar sem slys verða. Mig langar því að lokum að fá Gunnar Geir Gunnarsson deildarstjóra Öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu til að koma hingað til að kynna og opna með mér uppfært slysakort. 

Ég óska ykkur góðs fundar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta