Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2021 Innviðaráðuneytið

Staðir, störf og hamingja

Ávarp ráðherra á rafrænu málþingi SSNE og Akureyrarstofu 28. janúar 2021

Kæru fundargestir. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þetta málþing. Það er mikilvægt að við ræðum atvinnumál, ekki síst við þær aðstæður sem við búum við núna, og einnig  vegna þess að tækniþróunin getur fært aukið líf í byggðir um allt land. Já, tæknin er til og ljósleiðaratengingin sterk um allt land en áhugann og ákafann hefur skort innan kerfisins sjálfs. Ég finn það að heimsfaraldurinn hefur opnað augu margra, jafnvel flestra, fyrir því að það er vinnustaðurinn getur verið víða, jafnvel alls staðar.

En förum aðeins yfir stöðuna: Störf án staðsetningar eru aðgerð sem finna má bæði í ríkisstjórnarsáttmálanum og í byggðaáætlun. Í ríkisstjórnarsáttmálanum, undir kaflanum um byggðamál segir:

„Ráðuneytum og stofnunum verður falið að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er.“

Í byggðaáætlun er þetta sérstök aðgerð sem hefur það að markmið:

„Að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif við val á starfsfólki í ráðuneytum.“

Það þýðir, á mannamáli, að hæfasti umsækjandi er ráðinn og skiptir ekki máli hvort viðkomandi býr á Kópaskeri eða í Kópavogi. Verði starfsmaður ráðinn sem býr utan daglegrar vinnusóknar frá viðkomandi ráðuneyti eða stofnun leitist vinnuveitandi við að finna viðunandi starfsaðstöðu nærri heimili. Og það virðist ekki vera vandamál. Að beiðni ráðuneytisins hefur Byggðastofnun tekið saman upplýsingar um mögulegt húsnæði fyrir störf án staðsetningar og sett myndrænt fram á korti. Ég þykist vita að Laufey frá Byggðastofnun muni segja ykkur frá hér á eftir.

Árið 2019 skipaði ríkisstjórnin verkefnishóp með fulltrúum allra ráðuneyta til að annast framkvæmd verkefnisins og tryggja að þau markmið sem að er stefnt náist. Verkefnisstjórn er í höndum fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.

Í febrúar í fyrra óskað hópurinn eftir upplýsingum frá öllum ráðuneytum og stofnunum þeirra á höfuðborgarsvæðinu um heildarfjöldi starfa og þar af fjölda starfa sem geta verið án tilgreindrar staðsetningar.

100 stofnanir af 122 skiluðu greiningu og voru niðurstöðurnar kynntar í ríkisstjórn fyrr í þessum mánuði. Þar kemur fram að mögulegt er að auglýsa allt að 890 störf án staðsetningar eða 13% stöðugilda þeirra stofnana sem svöruðu. Hlutfallið var mismunandi eftir ráðuneytum, hæst hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 38% og lægst hjá dómsmálaráðuneytinu, eða 2%.

Hafa ber í huga að könnunin var send út áður en áhrifa heimsfaraldursins var farið að gæta. Greining stofnana gæti því verið önnur í dag – og þá í þá átt að enn fleiri störf mætti auglýsa án staðsetningar.

Nú er unnið að skýrslu um verkefnið sem mun greina frá núverandi stöðu, næstu skrefum og leiðbeiningum um hvað stjórnendur og starfsfólk þurfi að hafa í huga til þess að vel takist til. Þar verður m.a. fjallað um húsnæðismál í samstarfi við Byggðastofnun sem og stjórnunarlega og félagslega þætti.

Störf án staðsetningar er mjög skýr aðgerð og henni fylgja skýrir mælikvarðar. Þannig segir í byggðaáætlun að fyrir lok þessa árs, 2021, skuli 5% auglýstra starfa vera „án staðsetningar“ og í árslok 2024 skulu 10% auglýstra starfa vera „án staðsetningar“. En þetta gerist ekki af sjálfu sér. Ríkið þarf að leggja skýrar línur. Segja má að kófið hafi sýnt bæði stjórnendum og starfsfólki að búseta skiptir ekki máli með tilliti til starfa í mjög mörgum tilfellum.

Yfirskriftin á þessu málþingi – Fólk færir störf – kjarnar þetta kannski. Það er ekki nóg að línur séu skýrar og hugarfar stjórnenda rétt. Það er á endanum fólkið sjálft, Jón og Gunna sem kjósa að búa á landsbyggðinni, sem skipta mestu máli. Ef þau eru búsett á landsbyggðinni þá sækja þau um störf sem áður var eingöngu hægt að sinna á höfuðborgarsvæðinu eða ef þau eru búsett á höfuðborgarsvæðinu og eru í störfum sem gætu verið unnin án staðsetningar þá flytja þau störfin með sér á þann stað sem þau kjósa að búa á. Ég veit að þetta hljómar eins og þetta sé ekkert mál – og ég held að þetta sé í raun ekkert mál.

Ég man eftir því að hafa fyrir nokkru síðan lesið grein um mannauðsmál fyrirtækja þar sem rætt var við forstjóra veitingasölukeðju í Bretlandi. Það hafði vakið mikla athygli hvað viðhorf og framkoma starfsmanna keðjunnar var jákvæð og að starfsmenn hefðu hærri starfsaldur en í sambærilegum keðjum. Forstjórinn var spurður hvað olli þessu, hvernig stefna fyrirtækisins í mannauðsmálum væri frábrugðin annarra. Hann sagði að stefnan væri frekar einföld. Þau legðu sig fram um að ráða hamingjusamt fólk til starfa. Ég nefni þetta hér og nú af því að ég held að störf án staðsetningar snúist ekki aðeins um byggðamál, ekki aðeins um það að ráða þann hæfasta burtséð frá búsetu heldur ekki síst um það að fólk geti valið sér búsetu óháð starfi á stað þar sem því líður vel og í umhverfi sem gerir það hamingjusamt.

Ég þakka fyrir tækifærið til að fá að segja hér nokkur orð um málefni sem er mér afar hugleikið og vona að okkur takist að nýta viðhorfsbreytinguna sem heimsfaraldurinn hefur fært okkur til að stíga stór og örugg skref í átt til starfa án staðsetningar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta