Hoppa yfir valmynd
23. mars 2021 Innviðaráðuneytið

Öryggi smáfarartækja

Ávarp á morgunfund ráðuneytisins og umferðaröryggisráðs um öryggi smáfarartækja 23. mars 2021

Ágætu fundargestir.

Markmið þessa fundar er að vekja athygli á mikilvægi smáfarartækjanna í umferðinni. Þörfum þeirra fyrir innviði, öryggi þeirra sem þau nota og ávinninginn af notkun þeirra fyrir samfélagið.

Flest ferðumst við ein í bíl sem gerður er til að flytja hið minnsta fjóra farþega auk ökumanns og eru bílarnir því flestir „einmenningsfarartæki“ sem þurfa rými í gatnakerfinu. Mikilvægt er að stuðla að fjölbreyttum ferðamátum sem koma á móts við loftslagsmarkmið og aðstæður hvers og eins.

Fjölbreyttir ferðamátar og öruggir innviðir fyrir þá er eitt af markmiðum samgönguáætlunar og aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Við höfum mikið forskot í notkun grænnar orku sem veitir birtu og yl, hitar upp húsin og framleiðir rafmagn og því eru samgöngutækin ein helsta uppspretta innanlandslosunar.

Með áherslu á eflingu fjölbreyttra ferðamáta er ekki einvörðungu komið til móts við skuldbindingar í loftslagsmálum heldur eru þeir ekki síður heilsueflandi og umhverfisvænir auk þess að vera hógværir í þörfum og kröfum fyrir innviði. 

Undir fjölbreytta ferðamáta falla margvíslegir ferðamátar, að fara gangandi eða í strætó, eða nýta sér smáfarartækin, vistvæn einmenningsfarartæki. Að vera hjólandi á eigin afli eða með hjálparvélar,  ferðast á rafhlaupahjóli eða rafmagnsvespu, litlu rafknúnu fjórhjóli eða rafhjólastól, því flestir eiga að geta nýtt sér innviðina sem verða sífellt betri. 

Í frumvarpi að umferðarlögum sem ég lagði fram á þar síðasta þingi var ekki gerð krafa um skráningaskyldu léttra bifhjóla í flokki 1. Markmiðið var að hvetja til notkunar fjölbreytta ferðamáta hjá ungum sem öldum. Í meðförum þingsins var frumvarpinu breytt og farartækin gerð skráningarskyld. Nú kveðjur hins vegar við annan tón og þingið hefur breytt afstöðu sinni, svo nú liggur fyrir tillaga um afnáms skráningaskyldu, líkt og ég lagði fram í upphafi. 

Góðir gestir.

Smáfarartækin eru ekki ný af nálinni. Um hjólhestinn sem seinna fékk heitið reiðhjól var fyrst fjallað um í grein um jafnrétti í Fjallkonunni árið 1887 þar sem konur voru hvattar til að hjóla. Fyrstu reiðhjólin komu svo til landsins 1890. Fyrsti maðurinn til að nýta sér reiðhjól sem farartæki í atvinnuskyni var Guðmundur Björnsson frumkvöðull og læknir sem hjólaði í vitjanir um allt höfuðborgarsvæðið. 

Konur fóru líka snemma að hjóla og í grein í Ísafold árið 1904 segir „Það er nú fyrst að verða tíska hér að kvenfólk fari á hjólum.” Þess má reyndar geta að nýlegar ferðavenjukannanir sýna að konur ferðast í dag töluvert minna á smáfarartækjum en karlar.

Til þess að þessir ferðamátar nýtist sem best þarf góða og örugga innviði, göngu- og hjólastíga. Á undanförnum árum hefur umtalsverðum fjármunum verið varið um land allt í samstarfi við sveitarfélög við að byggja innviði fyrir fjölbreytta ferðamáta þar sem að öryggi ferðalanga er í öndvegi.

Örflæði er hugtak sem við notum fyrir umferð þessara smáu fararskjóta í stað enska hugtaksins „micromobility“. Í samgönguáætlun er áfram gert ráð fyrir fjárveitingum í innviði fyrir smáfarartækin til að tryggja örflæðinu öruggar brautir. 

Það er þó ekki nóg að byggja örugga innviði, vegfarendurnir þurfa ekki síður að hugsa um öryggi. Sitt eigið öryggi með því að vera sýnilegir með endurskin, ljós, hjálma og öryggi annarra vegfarenda á stígunum með því að sína þeim virðingu, tillitssemi og fara með aðgát.

Örflæðið er hljóðlátur og vistvænn ferðamáti sem er að auki heilsusamlegur og gefandi því fólkið á smáfarartækjunum fær meiri hreyfingu og G-vítamín þegar heilsast það mætist, brosir og spjallar jafnvel saman á rauðu ljósi. 

Örflæðið er komið til að vera og mun á næstu árum aukast með fleiri og fleiri nýjungum á borð við rafmagnshjólin og rafhjólaleigurnar sem gera sífellt fleirum kost á að nýta þessa ágætu ferðamáta í þéttbýlinu og nánasta umhverfi.  

Við fáum í dag nokkra af okkar helstu sérfræðingum til að fræða okkur um smáfarartækin, örflæðið og öryggið. Ég óska ykkur fræðandi fundar. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta