Hoppa yfir valmynd
21. maí 2021 Innviðaráðuneytið

Ávarp á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 2021

Einhvern tímann fyrir löngu rakst ég á orð höfð eftir Pierre Trudeau sem var forsætisráðherra Kanada á áttunda áratug síðustu aldar. Hugsunin var eitthvað á þessa leið: Samfélag er ekki hús sem forfeður okkar byggðu og við búum í. Samfélag er eitthvað sem við byggjum saman á hverjum degi úr þeim gildum sem við eigum sameiginleg.

Þessi orð hans hafa setið í mér enda ríma þau vel við þær hugmyndir sem við í Framsókn höfum um stjórnmál og samfélag. Við viljum stefna ótrauð fram á veginn, fögnum nýjum hugmyndum um umbætur og framfarir en viljum halda í þann auð sem býr í hefðinni og reynslunni. Þessi orð hafa leitað á mig undanfarið þegar ég hef litið yfir síðasta rúma árið sem hefur einkennst af baráttunni við heimsfaraldurinn, einkennst af því að verja mannslíf, vernda störf og veita viðspyrnu. Þau hafa leitað á mig vegna þess að það hefur sjaldan verið augljósara að samfélagið okkar er lifandi og síkvikt, viðkvæmt en um leið svo sterkt. Á þessu síðasta ári hafa margir, eflaust flestir, upplifað margar tilfinningar. Ein þeirra er óttinn, óttinn við að við missum heilsuna eða einhver nákominn okkur, óttinn við að missa lífsviðurværi sitt. Og svo er það önnur tilfinning sem hefur vegið á móti öllum þessum ótta og það er einfaldlega kærleikurinn, ekki síst náungakærleikurinn og umhyggjan fyrir öðru fólki, skyldu og óskyldu. Þessi kærleikur hefur snert streng í brjósti mínu og fyllt mig bjartsýni. Þetta verður allt í lagi.

Ég held að við getum sagt að íslenskt samfélag hafi staðist þessa raun af mikilli prýði.

Ég er mjög þakklátur fyrir þá góðu samvinnu sem ríki og sveitarfélög hafa átt við þessar erfiðu aðstæður. Okkur hefur lánast að halda fókus á það sem skiptir fólkið í landinu mestu máli, við höfum staðið vörð um velferð fólks, tekið utan um þá hópa sem standa höllustum fæti og um leið lagt grunninn að öflugri viðspyrnu nú þegar við sjáum til lands. Það er mín skoðun - og hún kemur kannski ekki á óvart - það er mín skoðun að það hafi verið styrkur fyrir þjóðina að ríkisstjórnin sé breið samvinnustjórn þriggja flokka sem hver og einn endurspeglar ólíka þætti í litrófi stjórnmálanna, vinstri, hægri og miðju. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar endurspegla þessa litríku samsetningu.

En þrátt fyrir að bölvuð veiran hafi litað líf okkar síðustu misserin þá höfum við unnið ötullega að mikilvægum framfaramálum.

Áætlun í málefnum sveitarfélaga

Stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga var samþykkt fyrir rúmu ári síðan. Þetta er fyrsta áætlun sinnar tegundar, sem hefur skýra framtíðarsýn og markmið um eflingu og styrkingu sveitarstjórnarstigins – og ellefu skilgreindar aðgerðir. Allt í þágu borgara þessa lands.

Áætlunin var afrakstur af mikilli vinnu starfsmanna ráðuneytisins, sambandsins og sveitarfélaga. Mikið samráð var viðhaft um allt land og allir komu sínum sjónarmiðum að. Þess vegna fékk þingsályktunartillaga um áætlunina góðan stuðning í þinginu og var hún samþykkt af yfirgnæfandi meirihluta þingmanna.

En við höfum ekki látið kyrrt liggja – við höfum líka verið ansi dugleg að hrinda henni í framkvæmd.

Frumvarp um lágmarksíbúafjölda

Frumvarp um lágmarksíbúafjölda er nú til meðferðar á hinu háa Alþingi og vænti ég þess að það verði afgreitt þaðan á yfirstandandi þingi. 

Þegar ég mælti fyrir málinu lýsti ég mig opinn fyrir umræðu um málamiðlanir ef það gæti verið til þess fallið að tryggja breiðari samstöðu um þetta mikilvæga umbótaverkefni. 
Umhverfis- og samgöngunefnd hefur verið að skoða leiðir til þess og ég er bjartsýnn á farsæl málalok.

Aðalatriðið er að við erum öll sammála um markmiðin sem er að efla sveitarstjórnarstigið á Íslandi til hagbóta fyrir íbúa þeirra og landsmenn alla. Það skiptir mestu máli. Okkur gefst svo tækifæri til að þróa leiðirnar við næstu og þarnæstu endurskoðun áætlunarinnar.

Stuðningur Jöfnunarsjóðs við sameiningar

Stóraukinn stuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar sveitarfélaga hefur haft mjög jákvæð áhrif og unnið er að sameiningum vítt og breitt um landið. Ef öll þau áform sem eru í pípunum hljóta samþykki íbúanna og ef litið er til nýlegra sameininga mun sveitarfélögum á Íslandi fækka á annan tug á skömmum tíma. 

Við megum ekki gleyma því að ríkissjóður hefur þegar stutt við verkefnið sem nemur einum milljarði og það er mun meira en þegar við byrjuðum að ræða fjármögnun aðgerðarinnar fyrir um tveimur árum síðan. Viðræður um frekari stuðning ríkisins við verkefni bíður svo næstu ríkisstjórnar og ákvörðunar í fjármálaáætlunum komandi ára. 

Sjálfur mun ég beita mér fyrir auknum framlögum ríkisins í verkefnið, en í því fælist einnig gríðarlega mikilvæg yfirlýsing um stuðning ríkisstjórnar og Alþingis við þessi áform og þann samfélagslega ávinning sem í þeim felast.

Tekjustofnar sveitarfélaga

Ég hef skipað nefnd til að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga – og hefur hún hafið störf af krafti. Í henni eiga sæti þrír fulltrúar sambandsins, tveir fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis og síðan eru tveir fulltrúar sem skipaðir voru af mér án tilnefningar.

Markmið verkefnisins er að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra.

Ég geri ráð fyrir því að um næstu áramót liggi fyrir tillögur eða valkostagreining nefndarinnar og að ný ríkisstjórn geti á þeim grundvelli tekið afstöðu til framhaldsins. Í þessari vinnu verða menn þó að vera raunsæir og skynsamir varðandi þær tillögur sem settar eru fram.

Í fyrsta lagi verður ekki hægt að sækja mikið fé til ríkisins á næstu árum. Ríkissjóður hefur tekið á sig megin þungan vegna heimsfaraldursins og það mun taka nokkur ár að vinna okkur út úr því.

Í öðru lagi er ljóst að mörg sveitarfélög hafa trausta tekjustofna til að takast á við lögbundin verkefni. Þá vitum við að mörg sveitarfélög geta nýtt tekjustofna sína betur. 
Á höfuðborgarsvæðinu væri t.d. hægt að innheimta um milljaðri meira í útsvar en gert er – og því vekur það alveg sérstaka furðu þegar koma stórar fjárkröfur á hendur ríkinu vegna fjármála sveitarfélaganna þaðan – eins og gerðist á síðasta ári.

Þannig að ein spurningin er hér, ef sum sveitarfélög eru svo vel haldin að þau þurfa ekki að nýta skattstofna sína, hvernig getum við þá jafnað byrðum betur og tryggt betri afkomu þeirra sveitarfélaga sem standa verr að vígi.

Í þriðja lagi verð ég sem byggðamálaráðherra að leggja áherslu á að við þurfum við svona endurskoðun að horfa á landið allt. Það er ekki hægt að hafa eingöngu hagsmuni ákveðinna sveitarfélaga eða svæða í huga, við þurfum að horfa til landsins alls.

Mikilvægi Jöfnunarsjóð við að tryggja getu sveitarfélaga til að sinna þjónustu og velferðarmálum á fámennari stöðum og í dreifbýli eru ómetanlegar fyrir byggðaþróun í landinu. Af því vil ég ekki gefa afslátt, þó örugglega sé hægt að einfalda það regluverk allt og tryggja meiri gæði í jöfnunaraðgerðum.

Í fjórða lagi er hægt að hagræða í rekstri sveitarfélaganna og nýta fjármuni þess betur – ekki síður en hjá ríkinu. Það verður því að vera verkefni þeirra að skoða leiðir til að hagræða og auka skilvirkni. 

Aukinn sameining sveitarfélaga mun t.d. leiða til betri nýtingu fjármuna – sem væri þá hægt að nýta til þess að styrkja grunnþjónustu við íbúa. 

En það er klárlega tímabært að fara vel yfir tekjustofnakerfið og meta tækifæri til úrbóta, m.a. mögulega nýja tekjustofna til að mæta nýjum áskorunum, t.d. á sviði umhverfismála. Þetta snýst um fjárhagslega sjálfbærni og getu sveitarfélaga til að annast brýn og krefjandi verkefi.

Stafræn framþróun

Þá er hin stafræn framþróun þegar farin að skila hinu opinbera og íbúum landsins miklum ávinningi.

Ríkið hefur veitt 100 m.kr. til stuðnings stafrænnar þróunar hjá sveitarfélögum og er nú unnið að krafti að hrinda af stað ýmsum umbótaverkefnum á því sviði. Gott samstarf er milli Stafræns Íslands og sambandsins og vænti ég þess að það skili góðum árangri. Þá veit ég að einstök sveitarfélög hafa sett þessi mál í forgang og það er vel.

Landshlutasamtök sveitarfélaga

Það liggur fyrir skýrsla um landshlutasamtök sveitarfélaga, en ein aðgerð áætlunarinnar miðar að því að skýra stöðu þeirra og hlutverk. Niðurstaðan er sú að það vanti heildstæðan lagaramma utan um starfsemi landshlutasamtakanna og að við endurskoðun þurfi að hafa í huga að leyst verði úr vafaatriðum sem upp hafa komið og tengjast starfsemi þeirra. Ráðuneytið mun taka þessar ábendingar til skoðunar og innleiða þau umbótaverkefni sem skýrslan dregur fram við fyrsta tækifæri.

Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa

Þannig að þetta eru þær aðgerðir í áætluninni sem eru komnar vel á veg. Síðan eru unnið að því að koma öðrum af stað.

Sú mikilvægasta í mínum huga er sú áttunda, en hún miðar að því að bæta starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og gæta að kynjajafnrétti sveitarstjórnarfólks. Verkefnið er þríþætt:

Í fyrsta lagi að vinna greiningu á starfsaðstæðum kjörinna fulltrúa.

Í öðru lagi að setja viðmið um greiðslur og önnur réttindi sveitarstjórnarmanna og

Í þriðja lagi að vinna með stjórnsýslu jafnréttismála og Sambandi íslenskra sveitarfélaga að gerð jafnréttisáætlunar fyrir sveitarstjórnarstigið, skv. nýjum lögum um stjórnsýslu jafnréttismála.

Verkefnið hefur verið í undirbúningi í ráðuneytinu og verða áformin kynnt á allra næstu dögum. Við undirbúning verkefnisins hefur ráðuneytið m.a. haft samráð við önnur ráðuneyti, Jafnréttisstofu og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Í tengslum við undirbúning verkefnisins óskaði ráðuneytið eftir því við Dr. Evu Marín Hlynsdóttur að fá niðurstöður úr nokkrum afmörkuðum spurningum úr viðamikilli könnun sem hún stendur fyrir á starfsaðstæðum og viðhorfum kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa. Þessar spurningar varða mögulegt áreiti sem þeir verða fyrir í tengslum við störf sín í sveitarstjórn.

Niðurstöður hennar benda til þess að ríflega helmingur þeirra hafi orðið fyrir áreiti eða neikvæðu umtali á yfirstandandi eða síðasta kjörtímabili og var lítill sem enginn munur á milli kynja.

Tölurnar sýna að algengast var að þátttakendur höfðu orðið fyrir áreiti á samfélagsmiðlum en einnig var töluvert um áreiti í opinberu rými, t.d. á skemmtunum, í búð, o.s.frv. Allt að 10% höfðu orðið fyrir slíku áreiti á heimilum sínum.

Mikilvægt er að hafa sem bestar upplýsingar um vinnuaðstæður og viðhorf kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa, m.a. í  ljósi þess að við lok undanfarinna tveggja kjörtímabila hafa rúmlega helmingur þeirra ekki gefið kost á sér til endurkjörs.

Ég sé það fyrir mér að þessi vinna geti skapað grundvöll fyrir aðgerðaráætlun sem fæli í sér að bæta starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og að hægt verði að vinna með slíka áætlun fljótlega eftir næstu sveitarstjórnarkosningar.

Byggðaáætlun

Vinna við endurskoðun byggðaáætlunar er langt komin og nú nýlega gaf ráðuneytið út drög að nýrri stefnu í svokallaðri hvítbók. Vil ég sérstaklega nefna að Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru fléttuð inn í stefnuna.

Hvet ég ykkur, kæra sveitarstjórnarfólk, til að skoða hana vel og senda ábendingar til ráðuneytisins, en um leið nota ég tækifærið og þakka fyrir hönd mín og starfsmanna ráðuneytisins fyrir framlag ykkar til endurskoðunarinnar. Umfangsmikið samráð um mótun stefnu af þessu tagi er mjög áríðandi sem tryggir samstöðu og skilvirkni þegar kemur að framkvæmd hennar.

Lagðar eru til 45 aðgerðir til að ná markmiðum áætlunarinnar og hluti þeirra eru nýjar aðgerðir, aðrar eru einnig hluti af núgilandi áætlun.

Ég vil nefna sérstaklega eina sem er í núgildandi og verður einnig í nýrri áætlun, en það er Höfuðborgarstefna.

Ég hef ekki talið tímabært að setja hana af stað fyrr en nú, m.a. vegna ýmissa stórra mála sem hafa verið í vinnslu á vettvangi ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, en nú tel ég rétti tíminn sé kominn.

Markmið verkefnisins er að móta stefnu sem skilgreini hlutverk Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar allra landsmanna, réttindi og skyldur borgarinnar sem höfuðborgar Íslands og stuðli að aukinni samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins og landsins alls.

Þetta er brýnt verkefni sem áhugavert verður að fylgjast með. Það er í senn ný nálgun á það hvernig við skilgreinum Reykjavíkurborg sem höfuðborg landsins alls. Það snýst í mínum huga ekki bara um hagsmuni sveitarfélagsins Reykjavíkurborgar, þó vissulega þurfi að huga að því samhengi, heldur einnig um hlutverk Reykjavíkurborgar gagnvart byggðaþróun í landinu. Þetta er ekki bara spurning um að þiggja, heldur líka gefa.

Höfuðborgarsvæðið er óumdeild miðstöð opinberrar stjórnsýslu og miðlægrar þjónustu landsins en við gerum líka kröfu um sem allir landsmenn hafi gott aðgengi að henni. Stafrænar lausnir hjálpa vissulega til í þeim efnum, sem og samgöngubætur og hér verða menn að horfa heildsætt á málin.

Höfuðborgarstefna væri því stefna sem miðar að því að samræma margvíslegar aðgerðir fyrir höfuðborgarsvæðið sem efla landið í heild og leiða til aukinnar samkeppnishæfni þess og höfuðborgarsvæðisins í alþjóðlegu samhengi.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, hefur tekið að sér að leiða verkefnið fyrir mína hönd, en auk hennar eru í verkefnisstjórninni. Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri, án tilnefningar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi fyrir hönd Reykjavíkurborgar, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar fyrir hönd SSH og Gauti Jóhannesson forseti sveitarstjórnar Múlaþings fyrir hönd sambandsins. Þetta er reynslumikið fólk og mjög gott að fá aðila úr háskólasamfélaginu til liðs við verkefnið.

Vegvísir

Ég vil nýta tækifærið hér og segja frá Vegvísi sem er ný vefgátt ráðuneytisins sem er mælaborð um samgöngur, fjarskipti og byggðamál. Á Vegvísi er hægt að skoða markmið, einstök verkefni, raunstöðu þeirra og þá mælikvarða sem notaðir eru til að meta árangurinn. Á einfaldan hátt er hægt að sjá að hverju er verið að vinna í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og fagstofnunum sem undir það heyra. Þetta tæki, vegvísir.is, er þýðingarmikið nýsköpunar- og umbótaverkefni sem veitir mikilvægan aðgang að opinberum gögnum og á eftir að nýtast ykkur vel sem starfið á þessum vettvangi.

Lokaorð

Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum og áratugum. Flestar breytingarnar eru jákvæðar og einkennast af auknum lífsgæðum á Íslandi. Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að fjárfesta í innviðum, hvort sem þeir heita samgöngur, menntakerfi, heilbrigðiskerfi, loftlagsmál eða nýsköpun. Allar þessar fjárfestingar miða að því að auka lífsgæði á Íslandi. Ég hef í mínum störfum lagt mikla áherslu á að fólk um allt land njóti þessara fjárfestinga. Það er að mínu mati gríðarlega mikilvægt að við byggjum þannig upp að fólk geti sest að þar sem því líður best og í því umhverfi sem það vill ala börnin sín upp. Faraldurinn hefur sýnt fram á það að starfsfólk þarf ekki að vera bundið við ákveðið skrifborð í ákveðnu póstnúmeri til að skila sínu. Eitt af því sem kemur fram í þeirri byggðaáætlun sem er í samráðsgátt nú er öll störf sem ekki eru sérstaklega bundin við staðsetningu verði auglýst án staðsetningar. Það er hluti af þeirri eðlilegu tækniþróun sem nú stendur yfir.

Stærri og sterkari sveitarfélög hafa verið eitt af baráttumálum mínum á kjörtímabilinu. Stærri og sterkari sveitarfélög eru mikilvægur þáttur í því að styrkja sveitarstjórnarstigið í heild sinni. Þessi stefna er ekki einhver formalismi heldur hluti af því að bæta þjónustuna við íbúa landsins. Félags- og barnamálaráðherra hefur á kjörtímabilinu unnið að byltingarkenndum umbótum í barnamálum sem miða að því að bæta þjónustu við börn og auka lífsgæði þeirra. Til þess þurfa sveitarfélögin að vera öflug. Á svipaðan hátt tel ég við þurfum að nálgast málefni eldri borgara en hvar sem ég kem á landinu heyri ég áhyggjur fólks af stöðu eldra fólks og þá ekki síst áhyggjur af hjúkrunarheimilum. Málefni eldra fólks eru þáttur sem margir sjá fyrir sér í höndum sveitarfélaganna enda mikilvæg verkefni nærsamfélagsins. Það er verkefni okkar, stjórnmálamannanna, hvort heldur er á sveitarstjórnarstiginu eða í landsmálunum að vinna saman að því að auka lífsgæði þessa stóra og stækkandi hóps. Stefnan um stærri og sterkari sveitarfélög snýst því ekki um okkur sem sitjum þetta þing heldur um lífsgæði borgaranna sem okkur er falið í kosningum að standa vörð um og auka.

Lykillinn að umbótum er samvinna. Ég er þakklátur fyrir þá góðu samvinnu sem við höfum átt á undanförnum árum og veit að á henni getum við byggt til framtíðar. Því samfélag er ekki hús sem forfeður okkar byggðu og við búum í. Samfélag er eitthvað sem við byggjum saman á hverjum degi úr þeim gildum sem við eigum sameiginleg.

Ég þakka fyrir áheyrnina og óska ykkur góðs gengis í ykkar mikilvægu störfum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta