Hoppa yfir valmynd
15. júní 2021 Innviðaráðuneytið

Akureyrarflugvöllur - millilandaflugstöð

Grein birt í Morgunblaðinu 15. júní 2021

Í dag verður tekin langþráð skóflustunga að stækkun flugstöðvar á Akureyri. Hún markar upphaf að nýrri sókn í ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi sem Framsókn hefur haft í forgrunni í sínum áherslum. Stækkun flugstöðvarinnar leggur grunn að öflugri ferðaþjónustu og býr til öflug tækifæri til að fjölga störfum á svæðinu og auka verðmætasköpun. 

Landshlutinn er stór og töfrandi sem magnar Ísland sem eftirsóttan áfangastað og hefur hlutfall erlendra ferðamanna verið að aukast. Framan af gegndi flugvöllurinn á Akureyri hlutverki varaflugvallar en smám saman, vegna ötullar vinnu og vel heppnaðrar markaðssetningar heimamanna, hófst beint flug sem hefur aukist og er nú farið að skipta verulegu máli í efnahagslegu tilliti fyrir svæðið. Stækkun flugstöðvar á Akureyri ásamt flughlaði eru meðal fjölbreytta verkefna sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að verði hafist handa við strax svo hægt verði að taka á móti stærri flugvélum og snúa hjólum atvinnulífsins í gang aftur.

Stórkostlegt byggðamál

Á síðustu árum hef ég lagt áherslu á að stíga stór skref sem styðja við uppbyggingu innanlandslandsflugvalla og að jafna aðstöðumun íbúa að grunnþjónustu landsmanna. Loftbrúin er hóf sig til flugs síðasta haust er eitt það stórkostlega byggðamál síðari tíma og jafnar verulega aðstöðumun þeirra sem búa fjarri höfuðborginni. Jöfnun á aðstöðumun snýst um að búa til tækifæri þar sem íbúar hafa jöfn tækifæri, geta blómstrað og skapa samfélag þar sem hlúð er að atvinnurekstri og sprotum. Ljóst er að það eru ekki eingöngu sveitarfélög á svæðinu sem munu njóta áhrifanna að auknum ferðamannastraumi og beinu flugi til Akureyrar, óbeinu tekjurnar og störfin verða til um land allt. Tími fjárfestinga er núna og fyrir Norður- og Austurland skiptir öllu máli að vera vel í stakk búinn til að taka á móti ferðamönnum nú þegar við sjáum til lands eftir Covid-tímabilið. 

Skýr sýn

Í ályktun Framsóknar er sett fram heildarstefna fyrir allt landið um uppbyggingu innviða fyrir flugsamgöngur. Stefnu sem kveður á um hvar eiga að vera flugvellir, hvernig þeir eiga að vera búnir og hverju þeir eiga að geta þjónað. Í framhaldi lagði ég til í samgönguáætlun að mótuð yrði flugstefna um helstu þætti flugs með hagvöxt, flugtengingar og atvinnusköpun í forgrunni. Í flugstefnu er horft til lengri tíma og var stefnan sett um að fjölga hliðum inn til landsins, að dreifa ferðamönnum um landið og fjölga tækifærum til atvinnusköpunar og ferðaþjónustu. 

Til að fylgja málinu eftir var skipaður vinnuhópur með fulltrúum tveggja ráðuneyta, Akureyrarbæjar, Eyþings, ferðaþjónustu á Norðurlandi og Isavia. Hópnum var falið að gera tillögu um endurbætur á flugstöðinni til framtíðar, vinna greiningu á markaðssetningu á Norður-landi sem áfangastað og gera kostnaðaráætlun um mögulega stækkun eða endurbætur. Niðurstöður voru kynntar í mars 2020 og að lokinni fjármögnun flugstöðvarinnar var Isavia falið að hefjast handa við að láta hanna flugstöðina og nú er komið að þessum ánægjulega áfanga að taka fyrstu skóflustunguna. Ég óska íbúum á Norður- og Austurlandi innilega til hamingju með áfangann og megi hann styrkja og efla svæðið til lengri tíma.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta