Skóflustunga að flugstöðvarbyggingu á Akureyri - ávarp ráðherra
Ávarp við fyrstu skóflustungu fyrir nýja flugstöð á Akureyrarflugvelli 15. júní 2021
Ágætu Akureyringar og nærsveitungar
Við stöndum nú á merkum tímamótum. Við reisum hér nýja flugstöðvarbyggingu sem getur þjónað millilandaflugi - og höfum tryggt fjármagn fyrir nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli. Við byggjum á góðum grunni og fjárfestum til framtíðar. Og þetta er réttur tími því það skiptir miklu máli fyrir Norður- og Austurland að skapa ný tækifæri í ferðaþjónustu á svæðinu, nú þegar áhrif plágunnar fara minnkandi.
Ég hef í ráðherratíð minni lagt mikla áherslu á að efla innanlandsflug og að fjölga fluggáttum inn í landið – til að efla ferðaþjónustu um land allt. Óhætt er að fullyrða við höfum stigið stór og mikilvæg skref í flugmálum á kjörtímabilinu.
Alþingi samþykkti á kjörtímabilinu fyrstu flugstefnu Íslands – í rúmlega hundrað ára sögu flugs á Íslandi – en í henni er m.a. sérstaklega kveðið á um að fjölga fluggáttum inn til landsins til að dreifa ferðafólki um landið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Fjármagn var tryggt fyrir flugstöðvarbyggingu og flughlað hér á Akureyri í samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2024. Í þeirri áætlun er einnig gert ráð fyrir mikilvægum endurbótum á akbraut á Egilsstaðaflugvelli. Hvort tveggja eflir flugið á Norðurlandi og Austurlandi til mikilla muna.
Fyrr á kjörtímabilinu var settur upp aðflugsbúnaður (ILS-búnaður) á flugvellinum á Akureyri sem er mikilvægur öryggisbúnaður fyrir millilandaflug og nýverið var einnig tekið í notkun nákvæmnisaðflug úr norðri (EGNOS) með gervihnattaleiðsögu.
Síðast en ekki síst vil ég minnast á Loftbrú, sem er komin á gott flug. Loftbrú veitir íbúum sem búa fjærst höfuðborgarsvæðinu 40% afslátt af flugfargjöldum til borgarinnar. Markmið verkefnisins er að jafna aðstöðumun íbúa og efla byggðir landsins með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. Viðtökur hafa verið mjög góðar en vel yfir tuttugu þúsund flugleggir höfðu verið bókaðir með afsláttarkóða Loftbrúar nú í vor.
Það gleður mig ákaflega að sjá þá miklu áherslu sem ég hef lagt á flugsamgöngur í ráðherratíð minni skila sér í raunverulegum framkvæmdum, raunverulegum framförum.
Flugið á sér djúpar rætur hér á Akureyri. Elsta starfandi flugfélag landsins rekur sögu sína til stofnunar Flugfélags Akureyrar árið 1937 en nafni þess var fáum árum síðar breytt í Flugfélag Íslands sem síðar varð Flugleiðir eftir samruna við Loftleiðir og heitir í dag Icelandair.
Bretar reistu flugvöll á Melgerðismelum sem reyndist óhagkvæmur vegna legu sinnar nærri fjöllum og fjarlægðar frá þéttbýli. Það varð síðan úr að Akureyrarflugvöllur var gerður hér á Hólminum við Eyjafjarðará og vígður í lok árs 1954. Framkvæmdin var flókin og umfangsmikil og sú langstærsta á Íslandi til þess tíma. Eins og oft áður á þessum árum var það eldmóður heimamanna sem skipti máli og góð samvinna við flugmálayfirvöld á þeim tíma. Og eftir þessa upptalningu þá er ljóst að það er engin tilviljun að hér við hlið okkar er Flugsafn Íslands.
Talsverðar umbætur hafa verið gerðar jafnt og þétt á flugvellinum frá þessum tíma. Hann hefur verið lengdur, breikkaður og lengdur enn meira og síðast en ekki síst hefur ný tækni verið tekin í notkun. Þá hefur verið unnið að því um árabil að efla millilandaflug til Akureyrar, m.a. með öflugri markaðssetningu heimafólks. Mikilvægi góðra samgangna fyrir efnahaginn er sjaldnast ofmetið.
Akureyrarflugvöllur hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir heimamenn og fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi. Flugvöllurinn þjónar allt í senn áætlunarflugi, leiguflugi, kennsluflugi, sjúkra- og neyðarflugi – og millilandaflugi. Hann er einnig mikilvægur tengiflugvöllur við byggðir á Norðausturhorni landsins.
En aftur að flugstöðinni. Við höfum lagt grunn að þessu verkefni síðustu misseri og mánuði og átt gott samstarf við heimafólk. Árið 2019 undirritaði ég viljayfirlýsingu, ásamt Þórdísi Kolbrúnu ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, um að mat yrði lagt á þörf fyrir aðstöðu og þjónustu í flugstöð á Akureyrarflugvelli.
Vinnuhópur skilaði tillögum í mars á síðasta ári. Niðurstaðan var eindregin, núverandi flugstöð væri of lítil og aðstaðan ófullnægjandi til að sinna hlutverki sínu til framtíðar.
Í framhaldinu var ákveðið ráðast í hönnun 1.000 fermetra millilandaflugstöð til að auka öryggi enn frekar og koma til móts við aukin umsvif þegar fram í sækir. Forsendur miðast við að hægt verði að afgreiða allt að 220 sæta millilandavél á innan við klukkutíma samhliða 70 sæta innanlandsvél. Isavia var falið að sjá um framkvæmdina og að hanna flugstöðina að lokinni fjármögnun hennar.
Þetta eru arðbær verkefni og hafa mikla þýðingu fyrir samfélagið nær og fjær. Áætlað er að við bæði verkefnin á Akureyrarflugvelli verði til um 90 ársverk í hönnunar- og verktakavinnu, þar af um 50 ársverk við flugstöðina. Heildarkostnaður við nýja millilandaflugstöð er metinn á 1,1 milljarð króna en framkvæmdir vegna flughlaðsins 1,6 milljarðar króna.
Góðir gestir
Með þessari skóflustungu eru mörkuð tímamót í sögu flugs á Akureyri og Norðurlandi öllu.
Ég færi öllum þeim sem hafa tekið þátt í undirbúningi verkefnisins kærar þakkir fyrir sitt framlag, vinnuhópum sem hafa metið verkefnið fram og til baka, starfsfólki ISAVIA fyrir að sjá um framkvæmdina.
Síðast en ekki síst þakka ég heimafólki fyrir samstarfið um að láta þetta verða að veruleika og óska Akureyringum og landsmönnum til hamingju með þennan áfanga.