Ávarp á ársfundi Jöfnunarsjóðs
Ræða flutt á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 6. október 2021
Kæru gestir
Við erum saman komin á ársfund Jöfnunarsjóðs að nýju – og nú við aðeins skaplegri aðstæður en síðast. Fyrir ári síðan vorum við hér saman komin í nokkrum hólfum og máttum ekki komast í færi hvert við annað. Staðan nú er allt önnur – og vonandi er íslensk samfélag núna komið á þann stað að við getum farið að lifa eðlilegu lífi.
Þetta hefur tekið á fyrir okkar samfélag – fjárhagslega og heilsufarslega. En með réttum og góðum aðgerðum hefur okkur tekist að vinna okkur að þessari stöðu og lítum núna björtum augum fram á veginn.
Eitt er víst: Það verða ætíð einhver verkefni á borði okkar sem störfum í stjórnmálum og stjórnsýslu.
Ofan í veiruna höfum við sem búum á Íslandi fengið jarðskjálfta, eldgos, snjóföll og skriður, nú síðast í Köldukinn.
Þegar svona áföll skella á okkur þá er mikilvægt að hafa búið í haginn fyrir erfiðleikana þegar kemur að fjármálum ríkis og sveitarfélaga; þegar svona áföll skella á okkur er mikilvægt að við eigum sterkbyggt og gott samfélag.
Jöfnunarsjóður varinn
Við fórum yfir það á síðasta ársfundi hvernig ríkið kom til móts við fjármál sveitarfélaga vegna Covid.
Þar var horft til tiltekinna þátta, og einkum að verja mikilvæga félagsþjónustu.
Sveitarfélögin nutu síðan hinna umfangsmiklu aðgerða sem ríkið greip til, sem með beinum og óbeinum hætti gerðu það að verkum að útkoma sveitarfélaganna árið 2020 var býsna mikið í samræmi við fjárhagsáætlanir sveitarfélaga.
Það sama á við um Jöfnunarsjóð eins og við sjáum í ársskýrslunni sem nú liggur fyrir, þá aukast tekjurnar um meira en 6% milli áranna 2019 og 2020. Þetta sýnir að okkur tókst að verja sjóðinn og tryggja lögbundið hlutverk hans.
Það er síðan einhver óvissa með horfurnar á þessu ári og hugsanlega verður hækkun tekna sjóðsins eitthvað minni – það á þó eftir að koma í ljós þegar árið verður gert upp, en víða er komin góður gangur í atvinnulífið eftir erfiðan tíma – t.d. í ferðaþjónustu.
Ég var nýlega að staðfesta endurskoðaða áætlun fyrir útgjaldajöfnunarframlög ársins og þar bættist milljarður við – þannig að við getum leyft okkur að vera bjartsýn.
Svo er blessuð loðnan að koma og það eru góðar fréttir fyrir þjóðarbúið allt. Ég sé tækifærin víðar en í því sem við höfum kallað hinar hefðbundnu þrjár stoðir efnahagslífsins á Íslandi. Fjórða stoðin er handan við hornið og mun færa okkur aukin lífsgæði og fjölbreyttara atvinnulíf ef við stöndum rétt að málum.
Hlutverk Jöfnunarsjóðs
Það er áhugavert að rifja það upp að þetta haustið eru 25 ár síðan málefni grunnskólans voru færð til sveitarfélaganna. Þar með fékk Jöfnunarsjóðurinn mikið hlutverk, en um fjórðungur af því fjármagni sem færðist frá ríki til sveitarfélaga fer í gegnum sjóðinn.
Það var niðurstaðan eftir miklar samningaviðræður ríkisins, sem öll sveitarfélög landsins stóðu að og byggt hefur verið á síðan.
Reykjavíkurborg var núllstillt með útsvarshækkun sinni og sérstökum greiðslum vegna sérskóla, en fjárþörf annarra sveitarfélaga metin í gegnum reiknilíkan sjóðsins og að teknu tilliti til útsvarstekna.
Bara gott um þetta að segja, þó vissulega séu skiptar skoðanir um það nú hvernig væri rétt að þróa þetta módel áfram.
Þar sýnist mér að séu talsverðar átakalínu milli sveitarfélaganna – en mín áhersla hefur annars vegar verið sú að virða samninga og standa við þá þar til þeim er breytt – og hins vegar að ekki sé rétt að fé fari úr Jöfnunarsjóðnum til sveitarfélaga sem þurfa ekki á því að halda.
Þá skipta byggðasjónarmiðin einnig miklu máli og endurskoðun á starfsemi sjóðsins verður – ég endurtek – verður að horfa til þeirra þátta.
Styrk starfsemi
Frá því að grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna hafa fleiri verkefni bæst við, málefni fatlaðs fólks fyrir um 11 árum og nú um áramótin tekur hann að sér hlutverk varðandi nýtt og framsækið skipulag sem snýr að velferð og samþættingu í þágu barna. Þetta sýnir að það er þörf fyrir sjóðinn og aðkomu hans að fjármögnun margvíslegra verkefna sveitarfélaga.
Og á bakvið öll þessi verkefni er Jöfnunarsjóðs er traust og gott starfslið. Það hefur verið lán sjóðsins og ráðuneytisins að til hans hefur valist einstaklega gott og grandvart fólk.
Sjóðurinn naut þess að hafa Elínu Pálsdóttur sem framkvæmdastjóra um áratugaskeið. Síðustu árin hefur Guðni Geir Einarsson staðið vaktina með sínum góðu samstarfsmönnum. Og vert er að nefna dygga stoð ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra og annarra starfsmanna ráðuneytisins.
Þetta góða fólk hefur áunnið sér traust í störfum sínum fyrir sjóðinn og ráðuneytið og þess vegna er það oftar en ekki niðurstaðan, að leita til hans varðandi margvísleg úrlausnarefni í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.
Og þannig verður það áfram.
Eins ber að þakka ráðgjafarnefndinni fyrir hennar góðu störf – hún tengir starfsemina vel við áskoranir líðandi stunda á sveitarstjórnarstiginu.
Bestu þakkir þið öll.
Samstarf um stórbætt aðgengi
Ég er sérstaklega ánægður með samstarf okkar, félagsmálaráðuneytisins, Sambandsins og ekki síst Öryrkjabandalagsins um stórbætt aðgengi í sveitarfélögum landsins.
Þar tökum við höndum saman um að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk í opinberum byggingum, almenningssamgöngum, útivistarsvæðum og almenningsgörðum svo dæmi séu tekin. Alls verður um 700 milljónum kr. varið í úrbætur í aðgengismálum á tímabili átaksins til loka árs 2022. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga leggur fram helming fjármagns í úrbætur á móti sveitarfélögum.
Tilgangur átaksins er að uppfylla markmið í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðra um að fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra, en sveitarfélög á Íslandi gegna lykilhlutverki við að ná því markmiði.
Við fáum nánari kynningu á þessu verkefni á eftir, en ég hvet ykkur kæra sveitarstjórnarfólk til að taka vel við þessu ákalli.
Nýtt kjörtímabil
Fram undan eru áhugaverðir tímar. Heimsfaraldurinn hefur kennt okkur margt um samfélag okkar, áskoranir og tækifæri. Hann hefur kennt okkur að við eigum frábært heilbrigðisstarfsfólk, hefur kennt okkur að þjóðin stendur saman ef á bjátar og hann hefur líka kennt okkur að við verðum að auka fjölbreytni í íslensku efnahagslífi.
Hugvitið, krafturinn og metnaðurinn eru til staðar og tækifærin bíða. Við þurfum að stíga djörf skref.
Ég þakka ykkur öllum gott samstarf á síðustu fjórum árum.
Lifið heil.