Ávarp við úthlutun úr annarri úthlutun úr Aski - mannvirkjarannsóknasjóði
Ræða flutt við úthlutun úr Aski – mannvirkjarannsóknasjóði 22. febrúar 2023
Góðir gestir,
Það er mér sönn ánægja að vera hér með ykkur í dag við afhendingu styrkja úr Aski – mannvirkjarannsóknasjóði. Sjóðurinn var stofnaður árið 2021 með góðri samstöðu stjórnvalda, atvinnulífs og vísindafólks í því skyni að auka þekkingu á sviði mannvirkjagerðar og hlúa að nýsköpun öllum til hagsbóta.
Frá upphafi var lögð rík áhersla á að sjóðurinn væri samkeppnissjóður opinn öllum þeim sem vilja sinna metnaðarfullum rannsóknum og nýsköpun. Markmiðið með sjóðnum var að efla íslenskt hugvit og styðja við rannsóknir í háskólasamsamfélaginu, rannsóknarstofnum og atvinnulífinu.
Askur hefur þroskast og dafnað. Sjóðurinn hlaut strax mjög góðar viðtökur og fyrir tæpu ári veittum við fyrstu styrki úr sjóðnum. Í fyrra bárust 40 umsóknir en í ár voru þær 62 talsins. Það er því mikil gerjun á þessu sviði. Styrkþegum fjölgar líka nokkuð í ár en alls fá 39 verkefni brautargengi að þessu sinni og skipta milli sín 95 milljónum króna sem sjóðurinn hefur yfir að ráða.
Sérstakt fagráð sjóðsins hefur metið verkefnin og samfélagslegan ávinning þeirra. Ég þakka þeim kærlega fyrir góða vinnu og tillögur sínar og starfsfólki HMS fyrir vinnu við umsjón. Það kom síðan í minn hlut að staðfesta tillögurnar en sjóðurinn hefur verið fjármagnaður í góðri samvinnu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis og okkar í innviðaráðuneytinu.
Verkefnin sem hljóta styrki úr sjóðnum takast öll á við stór og mikilvæg viðfangsefni fyrir samfélagið. Þar er m.a. leitað svara við því:
- hvernig við getum nýtt betur orkuauðlindir okkar
- hvernig við getum best fært okkur í nýt tæknilausnir samtímans.
- hvernig við getum byggt betri og heilsusamlegri mannvirki
- hvernig við berjumst við aldagamlan óvin okkar – myglu og raka,
Við fáum því miður reglulegar áminningar um vanda þurfi til verka í mannvirkjagerð til að koma í veg fyrir galla, rakaskemmdir eða myglu. Vandinn tengdur raka og myglu er vissulega aldagamalt og okkur mannfólkinu hefur rauna ekki fyllilega auðnast að vinna bug á þessari meinsemd þrátt fyrir þverfaglegar rannsóknir og regluverk. Það er sérstakt fagnaðarefni að metnaðarfullar rannsóknir á sviði séu stundaðar af kappi hér á landi – og nokkrar þeirra fengið fjárstuðning hjá Aski.
Tæknilegar kröfur um loftun og rakavernd eru skýrar í regluverki á Íslandi eins og í nágrannaþjóðunum en áfram þarf að tryggja að eftir þeim sé farið í einu og öllu. Húsnæði er iðulega mikilvægasta fjárfesting okkar og við getum ekki sætt okkur við að fólk búi við alvarlega galla eða rakaskemmdir á heimilum, skólum eða atvinnuhúsnæði. Í ráðuneytinu höfum við síðan lagt áherslu á að ábyrgð í byggingareftirliti sé skýr og að styrkja þurfi stöðu þeirra eigenda íbúðahúsnæðis sem verða fyrir tjóni vegna byggingargalla og rakaskemmda á íbúðarhúsnæði.
Síðast en ekki síst eiga nær öll verkefnin það sameiginlegt – líkt og í fyrra – að leita svara við því:
- hvernig við tökumst á við að draga úr kolefnislosun í byggingariðnaði
Þetta viðfangsefni er afar mikilvægt fyrir samfélagið og verður órjúfanlegur þáttur í flestum rannsóknaverkefnum á þessu sviði um fyrirsjáanlega framtíð. Ég ítreka það sem ég sagði við sama tækifæri í fyrra – og sú vísa verður aldrei of oft kveðin – að eitt mikilvægasta verkefni okkar um þessar mundir – er baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum. Og sú barátta fer fram á öllum sviðum samfélagsins. Við vitum að byggingariðnaður ber ábyrgð á um 40% af allri losun á heimsvísu. Við fengum síðan þær niðurstöður í fyrra í skýrslu verkefnisins Byggjum grænni framtíð að 45% af kolefnisspori íslenskra bygginga kemur frá byggingarefnum, einkum steypu. Við verðum þess vegna að leita allra leiða til að draga úr kolefnisspori mannvirkja og byggingarefna og samtímis að draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna.
Góðir gestir
Ég óska öllum styrkþegum innilega til hamingju með styrki og velgengni í mikilvægum rannsóknum sínum. Öðrum umsækjendum þakka ég fyrir góðar tillögur en Askur mun auðvitað snúa aftur – og nýtt úthlutunartímabil hefst í haust.
Við í innviðaráðuneytinu munum áfram styðja við nýsköpun og rannsóknir sem eru til þess fallnar að bæta samfélag okkar og lífsgæði. Askur – mannvirkjasjóður hefur fest sig í sessi og mun áfram styrkja þjóðhagslega mikilvægar rannsóknir á sviði mannvirkjagerðar.