Ávarp við úthlutun úr Aski – mannvirkjarannsóknasjóði
Ávarp við úthlutun úr Aski – mannvirkjarannsóknasjóði 9. febrúar 2024
Góðir áheyrendur,
Það er ánægjulegt að fá að vera með ykkur hér í dag þegar við afhendum styrki úr Aski – mannvirkjarannsóknasjóði. Sjóðurinn var stofnaður árið 2021 með góðri samstöðu stjórnvalda, atvinnulífs og vísindasamfélags í því skyni að auka þekkingu á sviði mannvirkjagerðar og hlúa að nýsköpun í byggingariðnaði, öllum til hagsbóta. Askur hlaut strax mjög góðar viðtökur. Fyrir tæpum tveimur árum veittum við fyrstu styrki úr sjóðnum og þá bárust 40 umsóknir, í fyrra voru umsóknirnar 62 en í ár voru þær 55 talsins. Og hingað til hafa um 60% umsókna hlotið styrk.
Mikilvægi mannvirkjarannsókna er augljóst. Stærstur hluti fjárfestinga í landinu tengjast mannvirkjagerð. Samtímis er það svo að ein helsta áskorun mannkyns, til langrar framtíðar, er baráttan við losun gróðurhúsalofttegunda, en ljóst að 30-40% af þessari losun er vegna mannvirkjagerðar. Við verðum þess vegna að leita allra leiða til að draga úr kolefnisspori mannvirkja og byggingarefna. Talandi um byggingarefni þá búum við Íslendingar við þá sérstöðu að við flytjum inn mikinn meirihluta þeirrar byggingarvöru sem notuð er til mannvirkjagerðar. Því er mikilvægt að skoða til hlítar möguleikana á því að nota innlend efni til framleiðslu á slíkum vörum, sem samtímis stuðla að minni losun hvað varðar flutninga, framleiðslu og notkun yfir allan líftíma bygginganna. Við verðum að huga að því hvernig við getum nýtt betur orkuauðlindir okkar, hvernig við getum byggt betri og heilsusamlegri mannvirki og hvernig við berjumst við aldagamlan óvin okkar – myglu og raka. Verkefnin sem hljóta styrki úr Aski takast öll á við þessi stóru og mikilvægu viðfangsefni samfélagsins.
Frá upphafi var lögð rík áhersla á að Askur væri samkeppnissjóður opinn öllum þeim sem vilja sinna metnaðarfullum rannsóknum og nýsköpun. Og við sjáum að verkefnin sem hljóta styrk eru flest mjög þverfagleg í eðli sínu og í mörgum þeirra koma saman aðilar sem eru sérfræðingar á margvíslegum fræðasviðum. Það er nefnilega ekki bara mikilvægt að fá fram niðurstöður úr verkefnunum sem hægt er að nýta beint í atvinnulífinu, heldur er einnig mikilvægt að styðja við myndun þverfaglegra hópa vísindamanna sem mynda rannsóknarteymi á ýmsum sviðum og efla þannig rannsóknarinnviði okkar á sviði mannvirkjagerðar.
Sem innviðaráðherra þá hef ég það hlutverk að skipa sérstakt fagráð sjóðsins, sem metur verkefnin og samfélagslegan ávinning þeirra. Það kom síðan í minn hlut að staðfesta tillögur fagráðsins. Ég þakka þeim kærlega fyrir góðar tillögur að úthlutun og allt þeirra starf. Ég vil einnig færa sérstakar þakkir til þess starfsfólks HMS sem hefur séð um alla umsýslu og rekstur sjóðsins. en sjóðurinn hefur verið fjármagnaður í góðri samvinnu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis og okkar í innviðaráðuneytinu.
Askur – mannvirkjarannsóknasjóður gegnir mikilvægu hlutverki í að styðja við nýsköpun og rannsóknir á sviði mannvirkjagerðar á Íslandi. Það felast gríðarleg tækifæri í vistvænni mannvirkjagerð og sérstaklega ánægjulegt að sjá þennan mikla áhuga, þekkingu og hugmyndaauðgi sem einkennir þær umsóknir sem bárust.
Við í innviðaráðuneytinu munum áfram styðja við nýsköpun og rannsóknir sem eru til þess fallnar að bæta samfélag okkar og lífsgæði og stefnum að því að efla sjóðinn enn frekar á næstu árum.
Ég óska öllum styrkþegum innilega til hamingju með styrki og velgengni í mikilvægum rannsóknum sínum. Öðrum umsækjendum þakka ég fyrir góðar tillögur en Askur mun auðvitað snúa aftur – og nýtt úthlutunartímabil hefst næsta haust.