Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2024 Innviðaráðuneytið

Samgöngur fyrir okkur öll

Grein birt í Morgunblaðinu 25. apríl 2024

Öll þurfum við að komast frá einum stað til annars, oft á dag. Höfuðborgarsvæðið er stórt og fyrir íbúa þess eru tveir jafnfljótir ekki alltaf raunhæfur kostur. Af því leiðir að við sem búum þar eyðum miklum tíma í samgöngur. Stórum hluta þess tíma eyðum við í bíl, oft ein. Samkvæmt nýjustu ferðavenjukönnun sem framkvæmd hefur verið hér á landi, frá lokum ársins 2022, voru 72% ferða á höfuðborgarsvæðinu farin á bíl en árið 2019 var það hlutfall 75%. Hlutfall þeirra sem ferðast fótgangandi eða nota aðra ferðamáta en einkabílinn eykst jafnt og þétt en þróunin er hæg og bíllinn er enn ráðandi farartæki. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgar auk þess hratt og hafa 70 bílar bæst við umferðina á svæðinu að meðaltali í viku hverri frá árinu 2016.

Þessir mörgu bílar valda losun gróðurhúsalofttegunda, svifryks- og hávaðamengun og hnignandi loftgæðum, auk þess sem umferðin rænir frá okkur dýrmætum tíma. Tíma sem við gætum ráðstafað með fjölskyldum okkar og vinum. Reykjavík hefur verið bílaborg – en mörg vilja endurheimta sinn tíma og breyta því. Sú breyting snýst ekki um að þvinga fólk til að hætta að nota einkabílinn heldur um að gera almenningssamgöngur að raunhæfum valkosti fyrir öll. Ég er viss um að mun fleiri vilja nota almenningssamgöngur og virka ferðamáta en gera það í dag, og kannanir hafa raunar sýnt fram á að sú er raunin.

Samgöngusáttmáli ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er lykilatriði í því að stórefla almenningssamgöngur og bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta. Markmið samkomulagsins er að stuðla að auknum lífsgæðum á höfuðborgarsvæðinu með uppbyggingu samgönguinnviða sem eru skilvirkir, hagkvæmir, öruggir og umhverfisvænir, og stuðla að því að ná loftslagsmarkmiðum um sjálfbært og kolefnislaust borgarsamfélag. Þá eru tækifæri með orkuskiptum í almenningssamgöngum. Samkomulagið var undirritað árið 2019 og síðan þá hafa samgöngur á svæðinu batnað og orðið greiðari. Sem dæmi um framfaraskref má nefna að lagðir hafa rúmlega 9 km af hjólastígum, og 3,5 km eru nú í framkvæmdaferli.

Ég mun leggja mikla áherslu á að hrinda samgöngusáttmálanum í framkvæmd, forgangsraða og tryggja uppbyggingu Borgarlínu í mínum störfum í innviðaráðuneytinu. Sáttmálinn er grundvallaratriði í því að bæta umferð í höfuðborginni. Þá er augljóst að markmið okkar í orkuskiptum í umferð munu ekki nást nema með því að hrinda samgöngusáttmálanum í framkvæmd. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029 er fjármagn til samgöngusáttmálans aukið verulega, eða sem nemur 20 milljörðum króna á tímabilinu.

Tilkoma Borgarlínu, efling almenningssamgangna og öflugri innviðir fyrir virka ferðamáta gera borgina okkar betri, skemmtilegri og grænni. Það er framtíðarborgin okkar allra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta