Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2024 Innviðaráðuneytið

Til vinstri fyrir réttlátt þjóðfélag

Grein birt í Morgunblaðinu 19. júlí 2024

Sýn okkar á vinstri væng stjórnmálanna hefur alltaf verið sú að réttlátt þjóðskipulag sé reist á grunni félagshyggju. Þegar þjóðskipulagið er byggt upp með auðhyggju í öndvegi verður niðurstaðan ávallt sú sama, ójöfnuður og efnahagslegt óréttlæti. Víða um lönd hafa fámennir hópar auðmanna náð að umbreyta fjármunum sínum í pólitísk völd í gegnum eignarhald á fjölmiðlum og í gegnum hagsmunaaðila. Barist fyrir taumleysi fjármagnsins. Gegn þessari þróun standa félagshyggjuöflin, hvort sem er í stjórnmálum, á vettvangi verkalýðsfélaga eða í nafni félagasamtaka. Hlutverk okkar sem störfum í þágu sjónarmiða félagshyggju er að tala fyrir réttlæti gegn auðræði og að vinna að málum sem horfa til framfara fyrir alþýðufólk, náttúru og umhverfi. Samfélagið allt.

Þegar öllu er á botninn hvolft snúast stjórnmál um vinstri og hægri. Síðustu ár höfum við sem aðhyllumst félagshyggju náð árangri í ýmsum málum. Með því að þrepaskipta skattkerfinu, draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga, með hækkunum á gjaldtöku af fiskeldi, með umbótum í þágu verkafólks til stuðnings langtíma kjarasamningum o.s.frv. Rík þörf er á að gera meira og til þess þurfum við að sækja fram fyrir almenning. Þjóðin er rík af auðlindum og afrakstur þeirra, sé honum skipt á réttlátan hátt, á að mynda grunn undir fjárfestingar í sameiginlegum innviðum. Lítil þjóð í stóru landi þarf að fjárfesta í fjárfrekum framkvæmdum til þess að viðhalda öflugu samfélagi um allt land.

Auðlindir okkar, orka fallvatna, náttúra sem milljónir greiða fyrir að heimsækja, landnæði og vatn til viðbótar við auðug fiskimið í kringum landið skapa grunn fyrir efnahagslífið og eru mikilvægur hluti af verðmætasköpun samfélagsins. Í sumum tilfellum rennur afraksturinn beint til þjóðarinnar, líkt og í tilfelli Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja í opinberri eigu. Mikilvægt er að standa vörð um þetta líkan, um að þau verðmæti sem til falla verði til þess að skapa betra samfélag fyrir okkur öll. Á þetta mun verða sótt á næstu árum af einkaaðilum og fjármagnseigendum og þá er mikilvægt að hafa skýra stefnu um að auðlindir landsins eigi að nýta samfélaginu til hagsbóta en ekki einungis fyrir hagnað fyrirtækja.

Þessu mun kapítalisminn alltaf standa gegn, og þau hagsmunaöfl og stjórnmálahreyfingar sem tala máli hans. Það mun alltaf þurfa að halda vöku sinni gegn ásælni þeirra í almannagæði og auðlindir. En hér á landi er afstaða almennings skýr; að afrakstur auðlindanýtingar auðgi íslenskt samfélag í stað þess að safnast upp í fjárhirslum erlendra og innlendra auðmanna. Við í Vinstri grænum munum halda sjónarmiðum almennings til haga hér eftir sem hingað til og standa vörð um almannahagsmuni gegn sérhagsmunum fjármagnseigenda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta