Birtan í híbýlum fólks - ávarp
Góðir gestir, velkomin á þennan fund!
Birta, ljós og hlýja. Þetta eru orð sem við tengjum eflaust flest við jákvæðar tilfinningar. Okkur líður vel ef við erum í björtu, vel upplýstu umhverfi – og að sama skapi hefur dimman og myrkrið neikvæðari áhrif á líðan.
Við erum hér í dag til að ræða einmitt þetta; mikilvægi birtunnar í umhverfi okkar, og þá sérstaklega á heimilum okkar. Markmið fundarins er líka að kynna drög að nýjum kafla um ljósvist í byggingarreglugerð, sem varðar viðmið og kröfur um birtuskilyrði innandyra, - en kaflinn verður fljótlega birtur í samráðsgátt stjórnvalda.
Í húsnæðisstefnu sem samþykkt var á Alþingi í sumar er lögð áhersla á grunngæði íbúðarhúsnæðis í allri hönnun. Í því samhengi er til dæmis um að ræða dagsbirtu, hreint loft, góða hljóðvist, aðgengi og að húsnæði uppfylli rýmisþörf daglegra athafna.
Birtan er að mínu mati mikilvæg forsenda fyrir því að okkur líði vel heima hjá okkur. Dagsbirtan hjálpar til við að stjórna dægursveiflum líkamans sem hefur áhrif á það hvernig við hvílumst og þar af leiðandi á orku og almenna líðan. Við verðum einnig meira skapandi í vel upplýstu rými og rétt og nægileg birta skapar hlýlegra umhverfi innan heimilisins. Það að búa í vel upplýstu umhverfi getur aukið gleði okkar og hamingju.
Við vitum öll hversu krefjandi staðan á húsnæðismarkaðnum er nú um stundir. Það vantar meira húsnæði og það vantar strax. En það þýðir ekki að við megum gefa afslátt af gæðum húsnæðisins. Í því samhengi hef ég lagt áherslu á að rými og dvalarstaðir séu hannaðir með gæði og notagildi að leiðarljósi, þar á meðal að hugað sé að mikilvægi ljósvistar í híbýlum fólks, á sama tíma og hugað er að skilvirkni í uppbyggingu húsnæðis. Við þurfum sífellt að hafa það hugfast að heimili hannað í dag er framtíðarheimili næstu kynslóða.
Í þessu samhengi er gaman að segja frá því að árið 2010 setti ég, þegar ég gegndi embætti umhverfisráðherra, af stað vinnu við endurskoðun byggingarreglugerðar með það að markmiði að hún yrði framsæknasta byggingarreglugerð á Norðurlöndum hvað varðaði sjálfbæra þróun - þar sem opin stjórnsýsla, gagnsæi og lýðræðisumbætur væru hafðar að leiðarljósi.
Ef við spólum svo áfram til ársins 2023 var ákveðið þá að hefja gagngera endurskoðun á byggingarreglugerðinni. Sú vinna gengur vel og fyrr á þessu ári var kynnt samræmd aðferðafræði við gerð lífsferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar sem var fyrsta afurð úr þeirri vinnu.
Það hefur verið kallað eftir reglum um ljósvist, og þá helst dagslýsingu, í byggingarreglugerðina undanfarin ár og ýmis konar gagnrýni heyrst um skuggavarp, skort á sólarljósi og svo framvegis. Í ljósi þess fór af stað umfangsmikil vinna sumarið 2022 hjá HMS. Komið var á fót samráðshópi þar sem hagaðilar víðs vegar að tóku þátt og unnið að tillögum og ýmis konar rannsóknarvinnu í kjölfarið. Nú hefur afurð þeirrar vinnu litið dagsins ljós og heyrum við betur af því hér á eftir.
Við munum í kjölfar fundarins setja drög að reglugerð með nýjum ákvæðum um ljósvist í samráðsgátt stjórnvalda og hvetjum fólk til þess að kynna sér ný ákvæði. Ég tel afar mikilvægt að ný ljósvistarákvæði bætist við byggingarreglugerð enda mikilvægt lýðheilsu- og gæðamál.
Áður en ég hleypi næstu ræðumönnum að langar mig til að minna á Skipulagsdaginn sem verður haldin á Hotel Nordica eftir rúma viku, fimmtudaginn 17. október. Dagskráin er að venju fjölbreytt, fyrir hádegi verður kastljósinu beint að þróun landnýtingar og búsetu í dreifbýli þar sem við fáum meðal annars erindi um búsetuþróun og framtíðarhorfum. Eftir hádegi verður fjallað um húsnæðismál og uppbyggingu í þéttbýli þar sem gæði í skipulagi og uppbyggingu húsnæðis verða til umfjöllunar.
Ég hlakka til að heyra í þeim Ástu, Ólafi og Herdísi hér á eftir – og þakka ykkur öllum fyrir komuna!