Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2025 Innviðaráðuneytið

Aðgengi fyrir alla

Grein birt í Morgunblaðinu mið. 11. febrúar 2025

Ný ríkisstjórn hefur einsett sér að ná árangri í málefni fatlaðs fólks. Við ætlum að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og við munum fylgja honum eftir til að tryggja þau réttindi sem hann mælir fyrir um.

Undanfarin ár hafa ríki og sveitarfélög tekið saman höndum um að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk í opinberum byggingum, almenningssamgöngum, útivistarsvæðum og almenningsgörðum, svo dæmi séu tekin. Þetta hefur verið gert með sérstöku verkefni um átaki um úrbætur í aðgengismálum fyrir fatlað fólk, í samvinnu við ÖBÍ réttindasamtök og sveitarfélög um land allt.

Frá því að átakinu var fyrst ýtt úr vör árið 2021, hefur rúmlega 630 m.kr. verið ráðstafað úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til fjölbreyttra úrbótaverkefna vegna aðgengismála. en framlag sjóðsins er 50% á móti framlagi sveitarfélaga. Auk þess fær ÖBÍ sérstakan fjárstyrk til að standa undir kostnaði vegna verkefnisstjóra út samningstímabilið, en hlutverk hans er að vinna að úrbótaverkefnunum með sveitarfélögum, forgangsraða þeim og meta framgang þeirra. Þetta samstarf hefur verið árangursríkt til að ná úrbótum í aðgengismálum fyrir fatlað fólk um landið allt, en síðasta föstudag undirritaði ég ásamt Ölmu Ýr Ingólfsdóttur, formanni ÖBÍ réttindasamtaka, áframhald þessa verkefnis út árið 2026. Verkefnið mun fela í sér að allt að 464 milljónir króna verða veittar í styrki gegn helmings mótframlagi sveitarfélaga á árunum 2025-2026.

Þau verkefni sem hafa verið styrkt eru margvísleg, en þar á meðal má nefna úrbætur á aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu sveitarfélaga eða byggingum í eigu annarra aðila en sveitarfélaga, þar sem samvinnuverkefni sveitarfélaga og einkaaðila er að ræða. Úrbæturnar lúta einnig að því að gera almenningsgarða og útivistarsvæði aðgengileg fötluðu fólki. Ekki síst fer fjármagn úr sjóðnum til úrbóta sem lúta að aðlögun á vinnustöðum fatlaðs fólks, sem starfræktir eru eftir lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Við verðum að tryggja að fatlað fólk um allt land hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra. Samstarfið við ÖBÍ um þetta verkefni hefur verið farsælt og árangurinn með ágætum. Það eru víða brýnar áskoranir og mikilvægt að taka höndum saman um úrbætur í samvinnu við sveitarfélögin í landinu en öll úrbótarverkefni eru fjármögnuð í samvinnu við þau.

Ný ríkisstjórn mun vinna að því statt og stöðugt á kjörtímabilinu að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks og það er afar ánægjulegt að fá að taka þátt í því mikilvæga verkefni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta