Ávarp á fundi Flugmálafélags Íslands
Ávarp flutt á fundi Flugmálafélags Íslands fim. 6. febrúar um málefni Reykjavíkurflugvallar
Ágætu fundargestir
Það gleður mig að sjá hversu margt fólk er hér samankomið til að ræða flug og flugmál og brennur fyrir stöðu og framtíð Reykjavíkurflugvallar. Ég vil þakka Flugmálafélagi Íslands sérstaklega fyrir gott boð um að fá að ávarpa ykkur hér í dag.
Það blés í gær og það blæs í dag, og það hefur gustað hressilega um Reykjavíkurflugvöll um árabil.
Ný ríkisstjórn er einhuga um að standa vörð um framtíð Reykjavíkurflugvallar á núverandi stað í Vatnsmýrinni. Svo einfalt er það.
Það hefur verið heiðskírt í mínum huga í langan tíma að framtíð aðalflugvallar og miðstöðvar innanlandsflugs sé hér í Reykjavík til lengri tíma, og þá hér í Vatnsmýrinni.
Reykjavíkurflugvöllur hefur um áratugaskeið gegnt lykilhlutverki í samgöngukerfi landsins. Flugvöllurinn er allt í senn miðpunktur innanlandsflugs, varaflugvöllur fyrir millilandaflug á suðvesturhorni landsins og gegnir mikilvægu hlutverki fyrir aðra fjölbreytta flugtengda starfsemi.
Íslendingar eru flugþjóð. Það er mjög áhugaverð spurning – hverjar ástæður þess eru. Við erum fámenn þjóð í stóru landi og flug hefur – ekki af ástæðulausu - verið grunninnviður í samgöngukerfi okkar frá upphafi flugs í landinu. Allt frá því að fyrsta flugfélag landsins var stofnað í Reykjavík í mars 1919, eða fyrir 106 árum síðan.
Reykjavíkurflugvöllur hefur verið gríðarlega mikilvægur í flugmenningu okkar og þar hefur hjarta flugmenningar okkar slegið alla tíð.
Málefni flugvallarins skipta miklu máli fyrir alla landsmenn hvar sem þeir búa. Ég lít svo á að það sé ein af meginskyldum Reykjavíkur sem höfuðborgar að þar sé starfræktur flugvöllur, sem tryggi góðan aðgang allra íbúa landsins að höfuðborginni sinni.
Undanfarna áratugi hefur ýmis konar sérhæfð þjónusta verið byggð upp hér á höfuðborgarsvæðinu. Þessi þjónusta er ekki einkamál höfuðborgarbúa, hún er fyrir okkur öll, hvort sem við búum á Bíldudal eða í Breiðholti.
Fólk á landsbyggðinni treystir á flugvöllinn til að geta sótt mikilvæga þjónustu til höfuðborgarinnar sinnar. Það á ekki síst við um sjúkraflugið sem þarf að gæta að sérstaklega.
Það var ánægjulegt í gær að lesa frétt undir fyrirsögninni „Reykjavíkurflugvöllur fari ekki fet á næstu áratugum“. Þar er vitnað í borgarstjóra, um að Reykjavíkurflugvöllur fari ekki neitt á aðalskipulagstímabili Reykjavíkur til ársins 2040. Ég fagna þessum skýru og einföldu skilaboðum frá borgarstjóra og Reykjavíkurborg.
Í samgöngum – í umferðinni, siglingum og flugi – er öryggi mikilvægasta verkefnið á hverjum tíma. Flugöryggi skal ávallt í fyrirrúmi í flugi – bæði hér innanlands og á alþjóðavísu.
Þegar kemur að Reykjavíkurflugvelli – þá þekkjum við öll þau álitamál sem að honum snúa. Ég hef fylgst vel með þeim málum, bæði sem borgari og alþingmaður, og nú sem ráðherra samgangna og flugmála.
Flugöryggi er algjört grundvallaratriði kemur að flugi og rekstri flugvalla. Ekki er hægt að gefa neinn afslátt þegar kemur að flugöryggi. Flugöryggi tryggir rekstrarhæfi flugvallar og er undirstaðan fyrir tilvist Reykjavíkurflugvallar. Ef eitthvað ógnar flugöryggi verða flugmálayfirvöld að grípa strax inn í til að tryggja það.
Ef andstæðingar Reykjavíkurflugvallar vilja nota ógn við flugöryggi sem rök fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur fari, er mikilvægt að þeir aðilar komi fram og haldi þeim sjónarmiðum á lofti.
Skipulagsreglur flugvalla, sem hafa stoð í loftferðalögum, kveða skýrt á um þau skilyrði sem uppfylla þarf hverju sinni til að tryggja flugöryggi, þar með talið svokallaða hindrunarfleti.
Þessi mál eru nú í lögbundnu ferli og það er verkefni allra sem að því koma að leggja sitt af mörkum til að enginn vafi leiki á að flugöryggi sé tryggt á flugvellinum.
Mikilvægast á þessum tímapunkti er að tryggja flugöryggi og þar með rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar fyrir allt innanlandsflug og sjúkraflug. Allir aðilar sem koma að málinu þurfa án tafar að leysa úr ágreiningsmálum sínum og tryggja flugöryggi um Reykjavíkurflugvöll og í landinu.
Ég er opinn fyrir samtali við hagsmunaaðila flugvallarins um það hvernig við getum aukið sátt um hann og því mikilvæga hlutverki sem flugvöllurinn gegnir í samgöngukerfi landsins.
Þannig tryggjum við að flugvöllurinn sinni áfram sínu mikilvæga hlutverki fyrir landið allt – fyrir landsbyggðina sem og höfuðborgina.
Stefna Flugmálafélags Íslands er að efla flug á Íslandi. Það er gríðarlega mikilvægt samfélagslegt markmið. Ef við ætlum að halda áfram að vera flugþjóð, þar sem flug er óvenju stór hluti af þjóðarframleiðslu og verðmætasköpun samfélagsins verðum við ávallt að vera vakandi fyrir þessu mikilvæga markmiði - sem er að efla flug á Íslandi.
Ég vil að lokum þakka Flugmálafélaginu fyrir þennan fund og stuðla þannig að virku samtali um Reykjavíkurflugvöll, stöðu hans og mikilvægi hans fyrir Ísland - landsbyggðina sem og Reykjavík sem höfuðborgar landsins.
Það er mikilvæg umræða.
Takk fyrir.