Ávarp á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 2025
Ávarp flutt á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 20. mars 2025
Kæra sveitarstjórnarfólk og aðrir gestir landsþings.
Ég vil byrja á að þakka Sambandinu fyrir að hafa boðið mér að ávarpa ykkur hér í dag.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð sérstök áhersla á bætt samskipti ríkis og sveitarfélaga. Ég legg sjálfur mikla áherslu á þétt samstarf og hyggst vinna að framkvæmd ýmissa verkefna á næstu misserum í samráði og samstarfi við ykkur.
Mig langar fyrst að nefna að á næstu vikum hyggst ég leggja fram frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum sem fela m.a. í sér skýrari feril um mat á fjárhagslegum áhrifum lagafrumvarpa og annarra stjórnvaldsfyrirmæla á sveitarfélög. Þar er einnig lögð til ný leið til að leysa úr ágreiningsmálum á milli ríkis og sveitarfélaga um slíkt mat.
Frumvarpið byggist á tillögum starfshóps sem í áttu sæti fulltrúar hlutaðeigandi ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Áform um breytingarnar ásamt drögum að frumvarpi voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í febrúar og af umsögnum að dæma er ljóst að sveitarfélögin fagna þessum áformum. Það er von mín að nái frumvarpið fram að ganga muni það skapa aukna sátt um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.
Á síðustu misserum hefur farið fram umfangsmikil vinna við endurskoðun sveitarstjórnarlaga, einkum hvað varðar almennar reglur um stjórnsýslu sveitarfélaga, samvinnu sveitarfélaga, íbúasamráð, fjármál, reikningskil og atvinnuþátttöku sveitarfélaga. Meðal annars hafa verið starfandi vinnuhópar annars vegar um starfskjör sveitarstjórnarfulltrúa og nefndarfulltrúa, um birtingu stjórnvaldsfyrirmæla á sveitarstjórnarstigi og íbúalýðræði í sveitarfélögum og hins vegar um fjármálareglur og reikningsskil sveitarfélaga. Þar hafa átt sæti fulltrúar sveitarfélaganna en við erum nú m.a. að skoða að útvíkka vinnu um fjármálareglur og reikningsskil sveitarfélaga þannig að þar komi fleiri aðilar að borðinu fyrir hönd sveitarfélaganna. Við munum að sjálfsögðu gefa sveitarfélögunum tímanlega færi á að koma að sínum sjónarmiðum og athugasemdum í opnu samráði.
Nú er einnig að hefjast undirbúningur fyrir endurskoðun á 9. kafla sveitarstjórnarlaga um samvinnu sveitarfélaga og samninga um starfrækslu verkefna. Þá erum við að horfa til samstarfs sveitarfélaga um ólögbundin verkefni, samstarf um lögbundin verkefni á vegum byggðasamlaga eða þar sem er eitt leiðandi sveitarfélag, auk þess að skoða samstarf á vettvangi landshlutasamtaka. Mikil vinna hefur farið fram síðastliðin ár og þá sérstaklega hvað varðar landshlutasamtökin og stöðu þeirra. En við viljum nú fá fram afstöðu og sjónarmið sveitarstjórnarfólks og við höfum því ákveðið að halda vinnustofur í hverjum landshluta, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga, til að fá efnivið fyrir ráðuneytið til að vinna áfram og í framhaldinu móta tillögur til breytinga á lögunum.
Ég hef talað um það að sveitarfélögin þurfi að vera stærri og öflugri til að geta sinnt hlutverki sínu og auknum kröfum um þjónustu og ég tel að þróun sveitarstjórnarstigsins verði þannig að fjölkjarnasveitarfélögum muni fjölga til muna. Þá er mikilvægt að rétta umgjörðin sé til staðar.
Ef við horfum t.d. til sveitarfélagsins Múlaþings sem varð til með sameiningu fjögurra sveitarfélaga, þá byggði sú sameining að mörgu leyti á því að í hverju sveitarfélagi, sem síðar varð byggðakjarni eftir sameiningu, var komið á heimastjórn sem sinnir tilteknum verkefnum og er ætlað að stuðla að þátttöku og möguleikum íbúa til áhrifa á málefni síns nærumhverfis.
Ég veit til þess að fleiri sveitarfélög sem eru að skoða sameiningar horfa mikið til þess að koma á slíku fyrirkomulagi komi til sameininga. Ég hef þess vegna sett af stað vinnu í mínu ráðuneyti við að kanna verði hvort ástæða sé til að skerpa á 38. gr. sveitarstjórnarlaga. Ákvæðið fjallar um nefnd fyrir hluta sveitarfélags þannig að nefndir líkt og heimastjórnir eða sambærilegar einingar nýtist sem best fyrir íbúa og stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Þá tel ég að m.a. þurfi að skoða hvaða verkefnum er fýsilegt að slíkar nefndir sinni og hvort einhverjar takmarkanir ættu að vera á valdframsali til slíkra nefnda. Einnig tel ég rétt að skoða hvernig skipun slíkra nefnda skuli best háttað.
Kæra sveitarstjórnarfólk.
Eins og þið þekkið vel þá mun ég á næstu dögum á Alþingi, mæla fyrir frumvarpi til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
Mál þetta á sér langan aðdraganda og fjallað hefur verið um breytingar á úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs í mörg ár. Nokkrar nefndir á vegum ráðuneytisins hafa fjallað um sjóðinn á síðustu árum og úthlutunarreglur hans og þær tillögur sem ég hyggst leggja fram byggjast á vinnu þessara hópa.
Frumvarpið hefur tvisvar verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og ásamt því að hafa komið til umfjöllunar á Alþingi þar sem leitað var eftir umsögnum sveitarfélaga og annarra hagaðila. Þá höfum við haldið fjölda kynningarfunda auk þess sem fjallað hefur verið um málið í fjölmiðlum og það hefur því fengið afar viðamikla kynningu og umræðu. Það er ljóst að skiptar skoðanir verða um úthlutunarreglur sjóðsins en ég tel afar mikilvægt að frumvarpið komist til þingsins og fái þar vandaða umræðu
Ég tel rétt að fjalla aðeins um og undirstrika tilgang sjóðsins og þeirra breytinga sem ég legg til.
Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi hans. Þannig er stuðlað að því að sveitarfélögin standi á jafnari grunni, að teknu tilliti til land- og lýðfræðilegra þátta auk fjárhagslegs styrks, til að sinna lögbundnum verkefnum sínum.
Árið 1990 voru gerðar umtalsverðar breytingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og segja má að þá hafi sjóðurinn orðið til í núverandi mynd.
Frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar á sveitarfélagaskipan landsins og hefur þeim fækkað úr 204 niður í 62.
Á sama tíma hafa sjóðnum verið falin veigamikil ný verkefni t.d. í tengslum við yfirfærslu grunnskólans og málefni fatlaðs fólks. Sjóðurinn starfar því í gerbreyttu umhverfi og umgjörð hans þarf að endurspegla það.
Skyldur sveitarfélaganna gagnvart íbúum sínum hvíla á sveitarfélögunum óháð stærð þeirra og staðsetningu og markviss jöfnun er forsenda þess að öll sveitarfélög geti sinnt lögbundinni þjónustu við íbúa. Hún er forsenda og skapar skilyrði fyrir búsetufrelsi og jafnar lífsgæði um landið.
Það er þess vegna gríðarlega mikilvægt að jöfnunarkerfið sé hlutlægt og byggi á traustum mælikvörðum og forsendum. Það er líka mikilvægt að jöfnunarkerfið rýri ekki athafnafrelsi sveitarstjórna eða dragi úr hvötum til umbóta og framfara.
Þrátt fyrir fækkun sveitarfélaga hefur regluverk sjóðsins lítið breyst í gegnum árin. Eins og ég nefndi áðan geri ég ráð fyrir að sveitarfélögum fækki enn frekar á næstu árum og því tel ég mikilvægt að sjóðurinn þróist í takt við þær breytingar sem hafa átt sér stað og eiga eftir að eiga sér stað á sveitarfélagagerðinni. Þeir Guðni Geir og Árni Sverrir munu síðar í dag fjalla frekar um þær breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins sem við erum að leggja til og ég vænti þess að það verði líflegar umræður í kaffihléinu í kjölfarið.
Kæru landsþingsfulltrúar.
Eins og þið vitið þá hefur ríkisstjórnin metnaðarfull áform um að ná tökum á ríkisfjármálunum og skapa þannig skilyrði fyrir lækkun vaxta, ekki síst með stöðvun hallareksturs.
Þar er verk að vinna og margt sem bendir til þess að það sé jafnvel erfiðara en áður var talið. Það er stór og mikilvæg áskorun að fara betur með ríkisfé en verið hefur.
Nýverið skilaði starfshópur um hagræðingu í ríkisrekstri tillögum eftir samráð við almenning og stofnanir ríkisins. Þar kennir ýmissa grasa og verður ráðuneytum falið að vinna áfram að útfærslu og framkvæmd tillagnanna. Ég tel mikilvægt að ég sem ráðherra byggðamála minni á mikilvægi þess að við höfum uppi byggðagleraugun þegar við vinnum að útfærslu tillagna.
Ég vil því sérstaklega beina því til ykkar, ágæta sveitarstjórnarfólk, að hafa aðhald á ríkisstjórn og þingi í þeirri umræðu sem fram undan er um þessi mál.
Jöfn búsetuskilyrði í landinu eru réttindamál og því réttindabarátta, og bera að líta á þau sem slík. Einungis með jöfnun á búsetuskilyrðum verður byggð í öllu landinu tryggð.
Við skulum líka ávallt hafa í huga þá gríðarlegu verðmætasköpun sem á sér stað á landsbyggðinni, og hve mikilvæg búseta um allt land er fyrir sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar, og íslenska menningu. Þjóðin vill jöfn búsetuskilyrði og að búið sé um allt land. Það er þjóðarmarkmiðið.
Við þessar aðstæður stöndum við líka frammi fyrir stórum áskorunum hvað varðar ástand helstu innviða þjóðarinnar, ekki síst á sviði samgangna. En ekki er hægt að tala um jöfn búsetuskilyrði án þess að tala um samgöngur í landinu.
Flest könnumst við núorðið við nýyrðið „innviðaskuld“ og hafa ýmsar greiningar verið gerðar að undanförnu sem varpa ljósi á umfang vandans á þjóðvegakerfinu. Skýrslur Samtaka Iðnaðarins frá 2017, 2021 og nú síðast frá 2025 sýna svart á hvítu hver staðan er á innviðum landsins. Endurstofnvirði innviða á Íslandi er metið á um 6.700 milljarða króna sem jafngildir 147% af vergri landsframleiðslu. Endurstofnvirði þjóðvega er alls metið um 1.200 miljjarða króna. Þetta er hærra hlutfall en í flestum öðrum löndum. Burtséð frá verðmætasköpuninni sem fylgir viðhaldi og uppbyggingu innviða eru öflugar samgöngur grundvallar lífsgæði og þá sérstaklega landsbyggðinni. Eins og ég hef fjallað um í ræðum áður ætlar þessi ríkisstjórn að tryggja að viðhald innviða sé nægilega kröftugt svo þeir haldi virði sínu, séu öruggir og geti sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað. Við þekkjum öll dæmi um vegi í okkar heimabyggðum sem þarfnast úrbóta strax – vegi sem skipta máli fyrir öryggi fólksins okkar og framtíð byggðanna. Þetta eru ekki aðeins spurning um þægindi heldur grunnforsendur fyrir blómlegri búsetu og öflugu atvinnulífi um allt land. Þess vegna þarf að grípa til afgerandi aðgerða í þessum málum.
Því lengur sem beðið er því meiri verður innviðaskuldin og það þarf að hefjast handa strax.
Fram undan eru spennandi tímar uppbyggingar, framfara og samvinnu þar sem við munum tryggja að samgöngur um allt land verði traustar og greiðar. Með sameiginlegu átaki sköpum við ný tækifæri og styrkjum líka byggðina um allt land, tryggjum framtíð sveitarfélaga og aukum samkeppnishæfni þeirra til lengri tíma.
Ég hlakka sannarlega til samstarfsins og er fullviss um að saman munum við byggja betra samfélag, þar sem sveitarfélögin standa styrkari fótum en nokkru sinni fyrr.
Takk fyrir.