Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. apríl 2024 InnviðaráðuneytiðSvandís Svavars - IRN

Byggjum Ísland upp

Grein birt í Morgunblaðinu 16. apríl 2024

Síðustu ár hefur þrálát verðbólga í kjölfar heimsfaraldurs og stríðsátaka verið áskorun fyrir bæði velsæld og hagstjórn á Íslandi. Ríkisstjórnin hefur einsett sér að efnahagsstefnan styðji við peningastefnu þannig að skilyrði skapist fyrir lægri vöxtum, enda er það brýnt hagsmunamál almennings og atvinnulífs að vextir fari að lækka. Ýmislegt kann að koma upp á sem gerir okkur erfiðara fyrir í þessari vegferð og satt best að segja er staðan í alþjóðamálum viðkvæm og krefjandi. Þrátt fyrir það er ýmislegt hægt að gera til þess að skapa skilyrði fyrir verðstöðugleika.

Aðilar vinnumarkaðarins gerðu með sér langtímakjarasamninga með hófsömum hækkunum. Ríkisstjórnin og Samband Íslenskra sveitarfélaga gerðu sitt til þess að greiða götu slíkra samninga með aðgerðum sem styðja sameiginleg markmið stjórnvalda og samningsaðila. Þessar aðgerðir eru fjölbreyttar en hafa það að markmiði að auka velsæld fólksins í landinu.

Hluti þessara verkefna heyrir undir innviðaráðuneytið og snýr að heilbrigðari húsnæðismarkaði. Síðustu ár hafa verið hækkanir á húsnæðismarkaði sem eiga sér vart fordæmi í seinni tíð. Þessar hækkanir hafa orðið á sama tíma og fjölgun þjóðarinnar hefur slegið öll met og á sér raunar fá fordæmi í seinni tíð í Evrópu. Þessar tíðu og miklu hækkanir hafa dregið úr verðstöðugleika og gert ungu fólki sérstaklega mun erfiðara að komast inn á eignamarkað.

Það er til mikils að vinna að auka framboð á húsnæði, m.a. með auknum stofnframlögum á næstu árum þannig að 1000 íbúðir verði byggðar á ári inn í almenna íbúðakerfið. Þessar aðgerðir eru afar mikilvægar, sérstaklega í ljósi þess að teikn eru á lofti um að umsvif í byggingargeiranum séu að dragast saman m.v. síðasta ár og þeirrar staðreyndar að jarðeldarnir við Grindavík hafa bætt verulega við þörf á húsnæði á næstu misserum. Staðan er því sú að þó að mikið hafi verið byggt af húsnæði í tíð þessarar ríkisstjórnar er rík þörf á því að gera ennþá betur. Byggja þarf mörg þúsund íbúðir á ári hverju til þess að vel fari um ört vaxandi þjóð. Til mikils er að vinna við að gera stjórnsýslu og ákvarðanatöku skilvirkari ásamt því að efla samstarf og áætlanagerð milli ríkis, sveitarfélaga og hagaðila.

Þetta eru ekki eingöngu áskoranir til skamms tíma, heldur ekki síður til lengri tíma. Öldrun þjóðarinnar og breytt fjölskyldumynstur hefur þær afleiðingar að þörf er á fleiri íbúðum á íbúa en áður. Þessar breytingar eru seigfljótandi en munu verða einkennandi fyrir langtímaþróun. Með því að byggja skynsamlega upp heilbrigðari húsnæðismarkað til lengri tíma munum við stuðla að aukinni velsæld og bættum kjörum allra landsmanna.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta