Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. ágúst 2024 InnviðaráðuneytiðSvandís Svavars - IRN

Grænni og betri borg

Grein birt í Morgunblaðinu 27. ágúst 2024

Í síðustu viku undirrituðu ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu samkomulag um uppfærðan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Samkomulagið felur í sér uppbyggingu á samgönguinnviðum og eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2040. Á næstu tveimur árum munu íbúar höfuðborgarsvæðisins og landsins alls sjá stórar framkvæmdir fara af stað, framkvæmdir sem munu hafa verulega jákvæð áhrif á samgöngur - og þar með bæta samfélagið á höfuðborgarsvæðinu.

Til að mynda er Fossvogsbrú á leið á framkvæmdastig og mun nýtast almenningssamgöngukerfinu á stóru svæði ásamt því að bylta samgöngum fyrir gangandi og hjólandi, og áfram verður unnið að fyrsta áfanga borgarlínu. Á meðan við bíðum eftir að þessi stóru verkefni verði tekin í notkun verður þjónusta stætisvagna efld og tíðni aukin. Það er mikilvægt svo sem flest geti nýtt sér almenningssamgöngur.

Betri almenningssamgöngur auka jöfnuð - þær eru félagslegt réttlætismál. Með því að byggja upp innviði sem gera öllum kleift að ferðast um höfuðborgarsvæðið hratt og örugglega aukum við lífsgæði og tækifæri allra íbúa, óháð efnahag eða stöðu.

Sjálfstæð greining á samfélagslegum ábata á verkefnum samgöngusáttmálans, sem unnin var af verkfræðistofunni Cowi, bendir til verulegs ávinnings vegna samgöngusáttmálans. Niðurstaða greiningarinnar er að ferðatími verði styttri og áreiðanlegri og umferðartafir minni. Heildarfjárfesting samgöngusáttmálans nemur 311 milljörðum kr. en ábatinn er metinn 1.140 milljarðar kr. til 50 ára, innri vextir 9,2% og ábati sem hlutfall af kostnaði er um 3,5. Það þýðir að fyrir hverja krónu sem lögð er í verkefnið fær samfélagið þrjár krónur til baka.

Aukið valfrelsi í samgöngum er lykilatriði í greiningunni, m.a. þar sem fleiri eigi þess kost að nýta almenningssamgöngur með tilheyrandi minnkun umferðartafa og mengunar auk lægri rekstrarkostnaðar heimila. Félagshagfræðilegar greiningar, sem þessi eru notaðar víða erlendis, til dæmis af  framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Alþjóðabankanum og stjórnvöldum annarra landa, til dæmis Danmerkur, Noregs, Bretlands og Hollands.

Framtíðarsýnin er sú að við lok næsta áratugar geti sjö af hverjum tíu íbúum gengið út og hoppað um borð í strætó eða í borgarlínuvagn sem kemur innan tíu mínútna. Leiðakerfið verður líka öflugra og mun ná betur til allra hverfa borgarinnar. Það er gjörbreyting á almenningssamgöngukerfi höfuðborgarinnar. 

Ég hlakka til að fylgjast með verkefnum samgöngusáttmála raungerast - og er sannfærð um að með því að ráðast í verkefnið búum við til grænni, betri og skemmtilegri borg.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta