Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. september 2024 InnviðaráðuneytiðSvandís Svavars - IRN

Húsin í bænum

Grein birt í Morgunblaðinu 5. september 2024

Hvenær get ég keypt mér íbúð, hugsa mörg þessi misserin. Á tíma þar sem útborgun hefur hækkað meira en geta margra til þessa að safna er eðlilegt að stjórnvöld séu krafin svara um það af hverju það sé svona erfitt að eignast húsnæði. Húsnæði er grunnþörf okkar allra, skjól í roki og heimili fyrir fjölskyldur. Húsnæði er mannréttindi. Málaflokkurinn er einfaldlega of mikilvægur fyrir almenning til þess að eftirláta markaðsöflunum einum saman að sjá um hann, en það sama á raunar við um flesta málaflokka sem máli skipta. Stefnan í húsnæðismálum var lengi vel að einfaldlega útvega nógu mikið af húsnæði sem uppfyllti lágmarkskröfur, enda staðan langt fram eftir öldinni sú að fátækt fólk bjó í heilsuspillandi hjöllum, kjöllurum og bröggum. Nú til dags er húsnæðisstefna mun víðfeðmari enda er samfélagið bæði ríkara og flóknara en það var þá.

Nýsamþykkt húsnæðisstefna

Alþingi hefur ákveðið að setja húsnæðisstefnu og ráðstafar á ári hverju með fjárlögum tugum milljarða til þess að ná fram þeirri stefnu. Framlögin eru ýmist bein framlög eða lán Húsnæðissjóðs. Stefnan kveður á um að tryggja skuli fjölbreytt framboð íbúða og að öllum skuli tryggja öruggt og gott húsnæði í blandaðri byggð.  Í þá átt stefnum við. Unnið er að ýmsum umbótaverkefnum, sem miða að því að gera ýmsa ferla skilvirkari en jafnframt gæta að því að gæði húsnæðis séu tryggð, fyrir öll. Við eigum ekki að samþykkja að fátækt fólk hírist í lélegu húsnæði á meðan hallir rísa fyrir ríkt fólk. Sú var tíðin að við úthlutun lóða var litið til flokksskírteina umsækjanda til þess að tryggja að róttækt fólk eða það sem verra var, fátækt fólk, fengi ekki leyfi til að búa innan um fína fólkið. Skipulagslög voru meðal annars sett á til þess að úthýsa þess háttar spillingu og eru í grunninn mikilvægur lýðræðisvettvangur fyrir þróun samfélaga.

Húsnæði fyrir fólk, ekki fyrir fjárfesta

Við viljum heilbrigðan húsnæðismarkað fyrir venjulegt fólk en ekki fyrir fjárfesta. Óhófleg fjármagnsvæðing húsnæðis er hættuleg þróun því engin trygging er fyrir því að fjárfestar hafi áhuga á því að byggja heimili, og hugsi ekki eingöngu um að hámarka gróðann. Fjármagnsvæðing húsnæðis getur birst í því að verulegur kostnaður bætist ofan á kostnað vegna síendurtekins brasks með reiti áður en nokkuð hús rís. Þennan kostnað bera engir aðrir en fyrstu kaupendur. Það er vegna þeirra sem stjórnvöld þurfa að standa sig. Húsin í bænum eru fyrir fólk en ekki fyrir fjárfesta.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta